Gunnar Erik að tafli á Norðurlandamótinu í skólaskák í fyrra.

Opna Íslandsmótið hafði þann kost þrátt fyrir allt að ungir skákmenn fengu kjörið tækifæri til að spreyta sig í keppni við mun stigahærri skákmenn og öðlast þannig reynslu sem getur nýst síðar. Eins og kom fram í síðasta pistli hækkaði enginn meira en hinn ellefu ára gamli Benedikt Briem eða um 121 elo-stig. Frammistaða jafnaldra hans úr Kópavogi, Gunnars Erik Guðmundssonar, var einnig með ágætum og af yngstu keppendum mótsins má einnig nefna IðunniHelgadóttur sem er á svipuðu reki og þessir tveir og hækkaði um 48 elo-stig.

Elo-stigin eru í dag reiknuð einu sinni í mánuði og er það fullmikið af því góða; má geta þess að ekki er ýkja langt síðan þau voru birt tvisvar ár hvert og sé horft einhverja áratugi aftur í tímann þá var látið duga að reikna stigin einu sinni á ári.

Skákirnar tala alltaf sínu máli og eftirfarandi sigurskák Gunnars Erik úr síðustu umferð var býsna sannfærandi af svo ungum skákmanni að vera. Byrjunin var kannski ekki til “útflutnings,” eins og stundum er sagt, en Gunnar hikaði þó hvergi eftir að hafa lagt út í tvísýna peðaframrás á kóngsvæng. Að “vélarnar” telji taflmennsku hans frá og með 24. leik óaðfinnanlega er út af fyrir sig athyglisvert:

Skákþing Íslands 2018; 10. umferð:

Óskar Haraldsson – Gunnar Erik Guðmundsson

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 e6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 a6 5. Bd3 Dc7 6. De2 d6 7. c4 Rc6 8. Rxc6 bxc6 9. b3 Rf6 10. Bb2 e5 11. O-O Be7 12. f3

Hægfara leikur, hvítur gat ráðist að peðastöðu svarts strax með 12. c5!?, t.d. 12. … 12. … dxc5 13. Ra3 og riddarinn hreiðrar um sig á c4.

12. … h5!?

Upphafið að djarfri áætlun; svartur ákveður að þeyta peðum sínum fram. Árás á væng skal svarað með atlögu á miðborði er gömul kenning.

13. Rc3 Bd7 14. Hfd1 h4 15. Bc1 Rh5 16. Be3 g5 17. Df2 Rf4 18. c5!

Skapar mótspil á drottningarvængnum en svartur heldur þó fast við sóknaráætlun sína.

18. … g4 19. Bf1 Hg8 20. Kh1

Full hægfara. Eftir 20. cxd6 Bxd6 21. Dxh4 gxf3 22. g3! er sókn svarts við það að renna út í sandinn.

20. … g3 21. cxd6 Bxd6 22. Dd2 Hg6!

Þarna stendur hrókurinn vel til varnar – og sóknar!

23. Hac1 Dd8 24. Ra4?

Þessi leikur var ágætur 23. leik en hann hefði betur boðið riddarakaup og leikið 24. Re2!

24. … h3!

Það er ekki eftir neinu að bíða.

25. Bxf4 hxg2+ 26. Bxg2 exf4 27. Rc5 Dh4 28. Bf1 Bh3 29. Bxh3 Dxh3 30. Dg2 Dh5 31. Rb7 Bc7 32. Hd3 Bb6 33. Rd6 Kf8 34. Rf5 Hd8! 35. Hxd8+ Bxd8 36. Hd1 Bb6 37. h4 Hh6!

Hótar 38. … Dxh4+ og 38. De2 má svara með 38. … Dxh4+! 39. Rxh4 Hxh4+ 40. Kg2 Hh2+ 41. Kf1 Hxe2! 42. Kxe2 g2 og vinnur.

38. Rd4 Dxh4+ 39. Kg1 Hd6 40. Db2 Bxd4+ 41. Hxd4 Dh2+!

Hvítur gafst upp, hrókurinn á d4 fellur óbættur.

Einn nýliði í ólympíuhópnum

Liðsstjórar íslensku liðanna sem tefla á Ólympíumótinu í Batumi í Georgíu í september nk. tilkynntu val sitt í vikunni. Í opna flokknum verða:

Héðinn Steingrímsson, Hjörvar Steinn Grétarsson, Hannes Hlífar Stefánsson, Jóhann Hjartarson og Helgi Áss Grétarsson.

Í kvennaflokknum verða:

Lenka Ptacnikova, Guðlaug Þorsteinsdóttir, Nansý Davíðsdóttur, Jóhanna Björg Jóhannsdóttur og Sigurlaug Friðþjófsdóttir.

Nansý Davíðsdóttir er eini nýliðinn í þessum hóp.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 23. júní 2018.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -