Jóhann vann Craig Hilby. Mynd: Heimasíða mótsins.

Jóhann Hjartarson (2523) vann bandaríska alþjóðlega meistarann Craig Hilby (2426) í sjöttu umferð Xtracon-mótsins við Helsingjaeyri í gær. Í þessari stöðu lék Jóhann 27. Hxg7! og svartur gafst upp. Afar nettur sigur en skákina í heild sinni má finna neðst í fréttinni.

 

Jóhann er efstur íslenskra átta keppenda. Hann hefur 5 vinninga og er í 5.-21. sæti. Hilmir Freyr Heimisson (2241) og Örn Leó Jóhannsson (2196) koma næstir með 4 vinninga.

Það bendir margt til norsks sigur á mótinu því að Jon Ludvig Hammer (2631) og Simen Agdestein (2581) eru efstir og jafnir með fullt hús.

Í dag mætir Jóhann rússneska stórmeistaranum Nikita Vitiugov (2734) sem verður í landsliðshópi Rússa á Ólympíuskákmótinu í Batumi á kostnað manna eins og Svidler og Grischuk sem ekki voru valdir. Auk Jóhanns verður Hilmir Freyr í beinni en hann teflir við búlgarska stórmeistarann Grigor Grigorov (2506).

Aron Þór Mai tapaði fyrir goðsögninni Jan Timman. Mynd: Oliver Mai

Jan Timman (2555) hefur ekki gengið vel á mótinu. Hann náði þó seinna höfuðleðri Mai-bræðra í gær þegar hann lagði Aron Þór Mai (2119) að velli.

Stórmeistarinn Hannes Hlífar Stefánsson (2536) gerði jafntefli við Þjóðverjann Cedric Oberhofer (2141) í sjöttu umferð opna tékkneska mótsins. Hannes hefur 2½ vinning. Alls eru tefldar 9 umferðir.

Vignir hlaut unglingaverðlaun á mótinu. Mynd: Stefán Már Pétursson

FIDE-meistarinn Vignir Vatnar Stefánsson (2277) lauk alþjóðlega mótinu í Paleochora á Krít með sigri. Vignir hlaut 6 vinninga í umferðunum níu og endaði í 21.-35. sæti 197 keppenda. Vignir hlaut verðlaun í flokki skákmanna 16 ára og yngri.

- Auglýsing -