Þrír efstu menn. Mynd Vefsíða mótsins

Stórmeistarinn Jóhann Hjartarson (2523) hafði lengi vel vænlega stöðu gegn georgíska stórmeistaranum Baadur Jobava (2643) í lokaumferð Xtracon-mótsins í gær. Sá georgíski, hvers skákstíll þykir líkast helst Mikhail Tal, lagði lævíslega gildru fyrir Jóhann sem Jóhann féll í. Jobava fórnaði hrók og vann drottningu Jóhanns til baka þremur leikjum síðar.

Jóhann lék síðast 47. Hb4-f4?? Jobava svaraði um hæl með 47…Hh2+!! 48. Kxh2 er svarað með 48…Rxf3+ og 49…Dxb2 svo Jóhann reyndi 48. Kf1 en eftir 48…Hf2+! 49. Kxf2 (49. Kg1 Rxf3+). 49…Rg4+ gafst hann upp, svekktur mjög enda skákin vel tefld fram að þessu.

Stórmeistararnir Jon Ludvig Hammer (2631) og Dmitry Andreikin (2702) sigruðu á mótinu. Hlutu 8½ vinning.

Lokaniðurstaða íslensku keppendanna varð sem hér segir:

  • 18.-41. Jóhann Hjartarson (2523) 7 v.
  • 70.-113. Hilmir Freyr Heimsson (2241), Örn Leó Jóhannsson (2196) og Jóhann Ingvason (2189) 6 v.
  • 114.-171. Aron Þór Mai (2119) 5½ v.
  • 172.-224. Alexander Oliver Mai (1966) 5 v.
  • 225.-274. Hafsteinn Ágústsson (1844) 4½ v.
  • 317.-234. Ólafur Gísli Jónsson (1844) 3½ v.

Hilmir Freyr Heimisson og Örn Leó Jóhannsson hækka um 15 stig og Jóhann hækkar um 7 stig.

Ritstjóri var á staðnum síðustu tvo daganna. Óhætt er að mæla með þessu góða móti fyrir íslenska skákáhugamenn. Góðar aðstæður í mjög skemmtilegu umhverfi. Teflt er í stóru ráðstefnuhúsi þar sem einnig er hægt að fá gistingu, mat og drykki. Hlaðborðið var afar gott. Auðvelt að stúdera og gott félagslíf á staðnum. Mótið er opið svo menn geta fengið afar sterka andstæðinga.

Um hálftíma-gangur er niðri í bæinn þar sem hægt að finna veitingastaði og bari.

Helsti ókosturinn er sá að teflt er í mörgum rýmum og hafði einn keppandinn það á orði við mig að hafði ekki séð annan keppenda allt mótið!

Frásögn um fundinn með frambjóðendum er væntanleg á morgun.