Vignir Vatnar sigurvegari Haustmóts TR.

Það sáust mögnuð tilþrif í lokaumferð Haustmóts Taflfélags Reykjavíkur sem tefld var á miðvikudagskvöld. Allir flokkar unnust á 6 vinningum, engin af 28 skákum C-flokks lauk með jafntefli, keppendur á tveimur efstu borðum opna flokksins féllu á tíma í lokaumferðinni og í tveimur flokkum varð að skera úr um sigurvegara með stigaútreikningi.

Toppbarátta A-flokks var æsispennandi þar sem Vignir Vatnar Stefánsson og Björn Þorfinnsson höfðu sama vinningafjölda allt mótið. Báðir gerðu þeir jafntefli í 2.umferð og innbyrðis jafntefli í 5.umferð í stystu skák mótsins. Er upp var staðið að loknum sjö umferðum voru þeir efstir og jafnir með 6 vinninga, en Vignir hafði betur eftir stigaútreikning. Þar gerði gæfumuninn sigur Vignis á Degi Ragnarssyni í 1.umferð, en Björn gerði á hinn bóginn jafntefli við Dag. Örlagavaldurinn Dagur nældi sér í 4 vinninga og hreppti 3.sætið. Þorvarður Fannar Ólafsson lauk tafli með 3,5 vinning í 4.sæti og varð um leið efstur TR-inga. Þorvarður Fannar Ólafsson er því Skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur árið 2018 og er það í annað sinn sem Þorvarði hlotnast sá heiður.

Spennan í B-flokki var ekki síðri þar sem Alexander Oliver Mai og Stephan Briem hlutu báðir 6 vinninga í efsta sæti. Alexander var úrskurðaður sigurvegari eftir stigaútreikning. Báðir fóru þeir taplausir í gegnum mótið. Í 3.sæti varð gamla brýnið Eiríkur K. Björnsson með 4,5 vinning. Í 4.sæti varð stigalægsti keppandi flokksins, Benedikt Briem, með 3,5 vinning og sýndi Benedikt oft skemmtileg tilþrif.

Jón Eggert Hallsson vann öruggan sigur í C-flokki og lauk tafli með 6 vinninga. Í 2.sæti varð Arnar Milutin Heiðarsson með 5 vinninga. Stigalægsti keppandi flokksins, Batel Goitom Haile, tryggði sér 3.sætið með eftirtektarverðri taflmennsku. Batel hlaut 4 vinninga og fékk þá alla í beit í umferðum 3-6. Taflmennska Batel byggðist oft og tíðum á sterku innsæi og öflugri reiknigetu svo eftir var tekið. Jóhann Arnar Finnsson hlaut einnig 4 vinninga en reyndist lægri en Batel að loknum stigaútreikningi.

Lokaumferðin í opna flokknum reyndist æsispennandi. Joshua Davíðsson, stigahæsti keppandi flokksins, varð efstur með 6 vinninga eftir sigur á Ísak Orra Karlssyni. Árni Ólafsson gerði sér svo lítið fyrir og vann Örn Alexandersson í hörkuskák sem fleytti honum upp í 2.sætið með 5,5 vinning. Þrír skákmenn urðu jafnir í 3.sæti með 5 vinninga; Örn Alexandersson, Adam Omarsson og Tómas Möller. Örn reyndist hæstur þeirra eftir stigaútreikning. Adam varð stiga-hástökkvari mótsins og hækkar um ríflega 100 skákstig. Stigaverðlaun í opnum flokki komu í hlut Árna Ólafssonar (U1400), Adam Omarssonar (U1200) og Ríkharðs Skorra Ragnarssonar (stigalausir).

Verðlaunaafhending fyrir Haustmótið verður haldin að loknu Hraðskákmóti TR sem fram fer næstkomandi sunnudag kl.13-16.

Upplýsingar um einstök úrslit og lokastöðu allra flokka má finna á Chess-Results. Þar er einnig að finna skákir mótsins sem Daði Ómarsson sló inn.

Af heimasíðu TR.

- Auglýsing -