Vignir Vatnar á EM ungmenna í sumar.

Meistaramót Hugins kláraðist í gærkvöldi. Þar sem 7.umferð til lykta var leidd. Gauti Páll og Vignir Vatnar mættust í hreinni úrslitaskák um 1.sætið. Og hafði Vignir sigur með svörtu mönnunum sem mynduðu Hollenska vörn sem hélt vatni og vindum í þetta skipti.

Gauti Páll tefldi frekar óhefðbundið og fórnaði litlu hvítu peði í byrjuninni. Hann fékk ekki nægar bætur og það virtist á tímabili sem svartur hefði bætur fyrir peðið sem hann var yfir! Hvítur lenti svo í tveggja peða frjálsu falli sem reyndist of mikið fyrir aðeins dauðlegan Gauta Pál. Úrslitin því 0-1 og Vignir var krýndur sigurvegari mótsins með 6 vinninga og uppskar ótrúleg fagnaðarlæti viðstaddra. Annar taplausra skákmanna í mótinu eins og frændi hans Kristján Eðvarðsson. Vignir var borinn á kóngastól úr Mjóddinni alla leið heim til sín.

Á 2.borði mættust Ingólfur Gíslason og Kristján Eðvarðsson. Upp kom Benkö bragð þar sem hvítur lenti í smá erfiðleikum eftir byrjunina og tók á sig passíva stöðu. En frípeð á a-línunni reyndist nægt móteitur gegn pressutilraunum Kristjáns sem langaði greinilega að vinna. Það fór nú samt svo að Kristján náði laglegri sókn í lokin er hann fórnaði skiptamuni og klossmátaði hvíta kónginn með biskup og drottningu. Heyrst hefur að Kristján hafi þegar selt höfundarréttinn á þessari skák. Hann seldi sál sína fyrir umferðina. 0-1 í þessari skák líka. Kristján tryggði sér þannig 2.sætið í mótinu auk þess að standa uppi efstur félagsmanna og óumdeildur meistari félagsins (á suðursvæði eins og sagt er). Hann hlaut 5 og hálfan vinning og endaði taplaus í mótinu. Fagnaðarlætin urðu slík að nágrannar okkar úr Nettó sáu sig knúna til að hringja í Víkingasveitina (Ekki þá sem eru nú á EM Taflfélaga). Þetta var fyrsta tapskák Ingólfs í mótinu sem var að tefla afar vel og átti skilið meira úr þessari skák. Það var athygliverð staðreynd að 4 efstu borðin voru taplaus fyrir þessa umferð.

í 3.-5 sæti með 5 vinninga voru þeir Gauti Páll Jónsson, Óskar Víkingur Davíðsson og Vigfús Vigfússon sem var líka skákstjóri! Klöppum fyrir Vigfúsi hinum ósérhlífna brautargengismanni Hugins!

Úrslit er að sjá betur á: http://chess-results.com/tnr377132.aspx?lan=1&art=1&rd=7&fed=ISL

Af heimasíðu Hugins.

- Auglýsing -