Íslandsmót skákfélaga Skákmeistari Vestmanneyja 2019, Hallgrímur Steinsson vann allar skákir sínar. — Morgunblaðið/Arnar Sigurmundsson

Það kennir margra grasa ef rýnt er í úrslit Íslandsmóts skákfélaga 2019 sem lauk í Rimaskóla á dögunum. Mörg lið og einstaklingar náðu góðum úrslitum; í 4. deild sigraði b-sveit KR en í 2.-3. sæti kom skáksveit UMSB og b-sveit Hróka alls fagnaðar. Tinna Kristín Finnbogadóttir frá Hítardal á Mýrum, sem tefldi á 1. borði fyrir UMSB, vann allar sex skákir sínar. Gamall vinur hennar frá Glitstöðum í Norðurárdal, Jóhann Óli Eiðsson, var í b-sveit Hróka alls fagnaðar og vann einnig allar sex skákir sínar.

Í 3. deild sigraði Taflfélag Garðabæjar og flyst upp í 2. deild ásamt Taflfélagi Vestmannaeyja sem var með tvær sveitir og fjölskipað lið. Innan borðs var m.a. nýbakaður Skákmeistari Vestmannaeyja, Hallgrímur Steinsson, sem tefldi fjórar skákir og vann þær allar. Hann var stigalaus fyrir mótið en náði árangri upp á meira en 2000 elo-stig.

Selfyssingar unnu 2. deild með yfirburðum. Þeir hafa fengið til sín Bandaríkjamennina Yaccov Norowitz og Noah Siegel. Sá síðarnefndi dvaldi í grennd við Selfoss fyrir nokkrum misserum, sat oft að tafli í Fischer-setrinu og margir drógu þá ályktun að þetta hlyti að vera einhverskonar pílagrímsför skákmanns sem eitt sinn tefldi fyrir hönd Bandaríkjanna á heimsmeistaramóti unglinga. Í seinni hluta keppninnar bættist í sveitina Henrik Danielssen sem var búsettir hér ekki alls fyrir löngu. Búast má við því að þessir þrír verði áfram í liði Selfyssinga á næsta keppnistímabili.

Bestum árangir þeirra sem tefldu níu skákir á mótinu náði Hannes Hlífar Stefánsson. Hann hlaut 8½ vinning.

Hannes efstur í Prag

Áfram með Hannes Hlífar. Eftir Íslandsmót skákfélaga hélt hann til Prag þar sem hann hóf þátttöku í opnu móti vann fimm fyrstu skákir sínar, allar á sannfærandi hátt. Hann gerði svo jafntefli í sjöttu umferð og var þá einn í efsta sæti með 5½ vinning en keppendur á mótinu eru 172 talsins. Í 2.-7. komu m.a. þrír öfugir stórmeistarar frá Úkraínu. Hannes mætti einum þeirra í 5. umferð:

Skákhátíðin í Prag;

Eldar Gasanov ( Úkraína ) – Hannes Hlífar Stefánsson

Enskur leikur

1. c4 Rf6 2. Rc3 e5 3. Rf3 Rc6 4. a3 g6 5. g3 Bg7 6. Bg2 0-0 7. 0-0 d6 8. d3 Bd7 9. Hb1 Hb8 10. b4 a6 11. h3 b5

Góð leið til að mæta enska leiknum, Hb8, a6 og b5.

12. e4 Rd4 13. Rxd4 exd4 14. Re2?!

14. Rd5 hefði verið öruggara. Nú hrifsar svartur til sín frumkvæðið.

14…. bxc4 15. Rxd4 cxd3 16. Dxd3 c5! 17. bxc5 Hxb1 18. Dxb1 dxc5 19. Rb3 Bb5 20. He1 Bd3 21. Da2 Db6 22. Rd2 c4!

Snarplega leikið. Ef 24. Rxc4 þá kemur 24…. De6 25. Bf1 Bxf1 26. Hxf1 Hc8 og hvítur tapar manni.

23. e5 Rd7 24. Rf3 Hb8?!

Einu mistök Hannesar í þessari skák liggja í þessari áætlun á ná uppskiptum á drottningum. Best var 24…. Hc8 og síðan c4-c3 við tækifæri.

25. Bf4 Db2 26. Dxb2 Hxb2 27. e6!

Með þessum leik nær hvítur gagnfærum.

27…. fxe6 28. Hxe6 Bf8 29. Hxa6?

Mun sterkara var 29. Hc6! sem hamlar för c-peðsins t.d. 29…. Hc5 30. Hc8+ Kf7 31. Re5+! og hvíta staðan er betri.

29. … Bc5! 30. Re5 Bxf2 31. Kh2 Rb6! 32. h4 Bd4 33. Kh3 Bf5+ 34. g4 Be6 35. a4 Bd5!

Glimrandi vel teflt.

36. Bxd5 Rxd5 37. Ha8 Kg7 38. Bg3 Hb3 39. He8

Skárra var 39. Kh2 sem svartur getur svarað með 39…. Hxg3.

39…. Bf2!

– og Gasanov gafst upp.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 16. mars 2019.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -