Við færumst nú nær endamarkinu hér í Slóvakíu. Gengið hefur verið upp og ofan og verður farið yfir það í lokapistli. Byrjum á að skoða og einbeita okkar að 8. umferðinni.

U18

Næstsíðasta umferðin var skínandi góð í efsta flokknum en bæði Hilmir Freyr og Birkir Ísak unnu sínar skákir.

Hilmir ákvað að tefla Kalashnikov og þurfti ekki að hafa mikið fyrir punktinum þar sem skiptamunur lá í valnum nokkuð snemma tafls.

19…Rfe2 og svo “skorið” á c1 eins og börnin kalla það í dag. Hilmir vann auðveldlega!

Birkir Ísak tefldi sína skák að vanda eins og herforingi. Hvítur virtist hafa minni þekkingu í byrjuninni og Birkir tók peð, skipti því fyrir biskupapar og loks nýtti hann til hins ítrasta vel stætt peð sitt á c4 sem stefndi alla leið! Fín skák og Birkir að moka inn stigum á mótinu.

Hilmir hefur yfirleitt átt lengstu skákirnar af íslensku keppendunum og tók því fegins hendi að geta aðeins “chillað” í analysis herberginu og teflt nokkrar skákir online. Ákveðinn Chess24 reikningur hækkaði duglega á stigum í gær!

U16

Arnar Milutin tefldi langa og stráka skák og kæmi mér ekki á óvart að jafnteflið hefði legið einhversstaðar á leiðinni. Tap varð því miður niðurstaðan að þessu sinni.

Skák Vignis að þessu sinni varð frekar stutt. Andstæðingur hans fórnaði manni og þráskák var á boðstólnum nokkuð snemma tafls.

Stephan Briem reyndi allt hvað hann gat gegn sínum andstæðingi. Hann fékk lítið út úr byrjuninni en hafði allt örlítið betra endatafl með betri menn og svo betri kóng. Að þessu sinni reyndist það ekki nóg til að kreysta fram vinning.

U14

Benedikt Briem náði sér ekki á strik eftir glanspartýið í 7. umferðinni. Hann átti að mörgu leiti sína slökustu skák, þekkti ekki byrjunina þar sem andstæðingur hans kom honum í opna skjöldu og skákin varð frekar stutt.

Benedikt Þórisson tefldi gegn Catalan. Andstæðingur kom á óvart miðað við undirbúning og lék 7.Re5 en mesta púðrið fór í mainline Dc2

U12

U12 flokkurinn skilaði ekki miklu í hús í 8. umferðinni

Gunnar Erik sýndi gríðarlega seiglu og var sá eini sem náði í hálfan punkt í flokknum. Hann var með tapað tafl en tókst að grugga vatnið nægjanlega til að rugla andstæðing sinn í rýminu og ná að lokum þráskák.

Tómas Möller fékk mun stigahærri andstæðing og átti í fullu tré við hann  þar til hann lenti í hálfgerðri krippu þegar hann varð að leik g3 til að valda riddara úti á kanti og loka inni sinn eigin biskup. Andstæðingurinn nýtti sér þetta tækifæri til hins ítrasta.

 

Adam tefldi mikla flækjuskák gegn sínum andstæðingi sem sá lengra í útreikningum.

U10

Bjartur tapaði sinni skák í U10. Bjartur virtist fá alveg jafnt tafl í miðtaflinu. Erfitt að segja hvar þráðurinn tapaðist en líklega þarf svartur að finna eitthvað break, …b5 eða …f5 til að halda í horfið.

U8

Josef hafði sigur í sinni skák og hefur verið margt jákvætt í hans taflmennsku á mótinu.

Stelpur U12

Batel var í hörkuskák að vanda í Kóngsindverja en andstæðingurinn hafði betur í flækjunum í þetta skiptið.

Stelpur U10

Guðrún Fanney hefur náð nokkuð góðum tökum á London uppstillingunni og teflt það í nokkrum skákum hér úti og yfirleitt með góðum árangri. Hún vann sína skák og komin í 4 vinninga sem er mjög fínn árangur.

Helgi við stúderingar í foreldra/analýsu herberginu

Pistlahöfundur við skrif….það er ekki laust við að ákveðin þreyta sé komin í bæði þjálfara og keppendur. Lokaumferðin er nú í gangi og við teljum upp úr kössunum að henni lokinni.

 

Úrslit 8. umferðar

Níunda og síðasta umferðin, hún hófst núna klukkan 08:00 að íslenskum tíma.

- Auglýsing -