Evrópumót landsliða fer fram 24. október – 2. nóvember nk. í Batumi í Georgíu. Ísland sendir lið í opnum flokki. Lið Íslands skipa Hannes Hlífar Stefánsson, Bragi Þorfinnsson, Guðmundur Kjartansson, Helgi Áss Grétarsson og Dagur Ragnarsson. Dagana fram að keppni verða EM-fararnir kynntir til leiks en alls skipa íslensku sendisveitina átta manns.
Í dag kynnum við til leiks Ingvar Þór Jóhannesson liðsstjóra sveitarinnar.
Nafn
Ingvar Þór Jóhannesson, stundum kallaður Zibbit eða Bitinn
Hlutverk
Liðsstjóri en ég hef á tilfinningunni að ég verði í hinum ýmsu hlutverkum!
Hver kenndi þér að tefla?
Líklegast hefur það verið karl faðir minn en ég verð að viðurkenna að ég man það ekki nákvæmlega.
Fischer, Kasparov eða Carlsen?
Ég segi Fischer ef ég er í golfi með Benna Jónasar eða partý með Inga Þór og kalla hann þá GOAT. Ég segi Kasparov ef ég er að spjalla við Sigurbjörn og ég segi Magnús ef ég er að gutlast með yngri strákunum að tefla 😉
Verður Liverpool loks enskur meistari næsta vor?
Eins og venjulega verður þetta einhver harmleikur hjá Liverpool. Handritið er að toppa alltof snemma hjá þeim og því styttist í einhvern harmleik. Annars er furðulegt hvað ritstjóri þarf alltaf að troða þessu Liverpool liði í skákspurningar. Þetta var líka síðast ef ég man rétt og þá nefndi ég það að þeir myndu ekki vinna sem reyndist rétt. Þetta kemur kannski á endanum, en ef ekki núna hvenær þá? Áfram West Ham!
Hvernig er þínum undirbúningi háttað fyrir EM landsliða?
Ég reyni að sjá til þess að liðsmenn sinni sínum undirbúningi sem best og aðallega að vera til taks með uppfærðan gagnagrunn og ýmsar bækur ef á þarf að halda.
Nefndu önnur lönd auk Georgíu sem eiga landamæri að Svartahafinu? (bannað að nota Google!)
Æi ekki alltaf þennan varíant 🙁 ….síðast var spurt um Stalín var það ekki sem ég vissi ekki að væri „frægasti“ Georgíumaðurinn. Ég held mig við að svindla ekki á Google og segi Rússland, Úkraína og Tyrkland. Veit það eru svo einhver minni lönd en man þau ekki og þori ekki að giska.
Hversu oft hefur þú farið á EM landsliða?
Ég fór til Gautaborgar minnir mig 2005 og hef síðan verið á tveimur mótum, Reykjavík 2015, Krít 2017 og svo bætist Georgía við núna.
Minnisstæðasta atvik í miðri skák
Ekkert eitt atvik sem hrópar á mig en ég hef líklega skrifað áður að það var því miður eftirminnilegt á neikvæðan hátt í Tromsö 2014 þegar einn keppandinn fékk hjartaáfall og allt varð stopp.
Hver verður næsti áskorandi Magnúsar?
King Ding virðist í gríðarlega góðu formi. Hinsvegar getur allt gerst í áskorendamótinu en eins og staðan er núna er erfitt að veðja á móti Ding.
Hver eru þín markmið á mótinu?
Mitt markmið er bara að gera mitt besta til að hjálpa liðinu að undirbúa sig og ná eins góður árangri og hægt er…..og líklegast flytja góðar fréttir af því líka!
Eitthvað að lokum?
Ég segi alltaf áfram Ísland og legg til að bannað verði að drepa á d5 í franskri vörn og að Berlínarafbrigðið verði lagt niður. Að lokum bara Gens Una Lettmot.