Rússneski stórmeistarinn Mikhail Antipov er einn keppenda með fullt hús eftir tvær umferðir á Heimsmeistaramótinu á Hótel Selfossi. Heimsmeistaramótið er hluti af Ísey Skyr Skákhátíðinni á Hótel Selfossi. Tíu fyrrverandi heimsmeistarar í ýmsum aldursflokkum leiða saman hesta sína í lokuðum flokki þar sem allir keppa við alla. Einu skákmennirnir sem unnu í fyrstu umferðinni voru þeir Mikhail Antipov og Sergei Zhigalko.

Antipov var fyrstur að leggja heimsmeistara á Heimsmeistaramótinu!

 

Helgi Grétarsson – Rafael Leitao

Helgi Áss tefldi Catalan gegn Brasilíu manninum Leitao og aftur var Leitao fyrstur til að klára í umferðinni. Leitao getur þó vel við unað þar sem hann var eini keppandinn til að hafa svart í tveim fyrstu umferðunum. Skákin var mjög vel tefld af báðum sem þýðir yfirleitt að lítið gerist og hér var það raunin. Skákin fór aldrei út fyrir nein viðmið og var í raun jöfn allan tímann.

Sara vann sig aftur inn í mótið eftir tap í fyrstu umferð

Sarasadat Khademalsharieh – Héðinn Steingrímsson

Héðinn tók því rólega gegn Leitao í fyrstu umferð á meðan Sara tapaði með svörtu á móti Zhigalko. Sara hóf taflið rólega með Dc2 gegn Semi-Slav byrjun Héðins. Sara tefldi ekki af nægilega miklum krafti og svartur jafnaði taflið auðveldlega og var við það að taka yfir frumkvæðið þegar hrókur svarts varð eitthvað ráðvilltur

22…Hf7? bauð hvítum upp á vænlega leið sem Sara missti ekki af. 23.Bxe4 Bxe4 24.Dh6! og aftur kom slakur hróksleikur 24…He7?? sem bauð upp á 25.Df6! og þá fylgdi annar slakur leikur 25…Bc5?? og svartur varð að leggja niður vopn eftir 26.Rf7! og svartur tapar liði eða verður mát!

Semyon Lomasov – Sergei Zhigalko

Semyon hafði litið fyrir jafntefli með svörtu mönnunum í fyrstu umferðinni gegn Hannesi og hann leit vægast sagt vel út í 2. umferðinni gegn Sergei Zhigalko. Semyon hafði allan tíman stjórn á skákinni. Hann gaf biskupaparið fyrir peðsvinning og gaf svörtum engan möguleika a að komast inn í skákina eftir að hann vann peðið. Semyon lítur út fyrir að vera mjög vel undirbúinn fyrir mótið og verður fróðlegt að sjá hvað gerist í næstu umferðum hjá honum!

Ahmed má vel við una þrátt fyrir upp og niður taflmennsku

Ahmed Adly – Dinara Saduakassova

Það er eiginlega erfitt að koma í orð hvað gerðist í þessari skák! Adly með hvítt virtist fá gott frumkvæði  með hvítu en Dinara gaf sig ekki og vann sig af fullum krafti inni í skákina…..síðan kom AFLEIKURINN!

….það er í raun lítið annað hægt að segja!

Þessi staða er bara í jafnvægi og tölvurnar segja 0.00! En svartur fann 38…Kc6?? og var eins og menn segja klossmátuð eftir 39.Hc7# Martraðarbyrjun hjá Dinöru á meðan Adly getur nokkuð við unað með 1,5 af 2.

Mikhail Antipov – Hannes Stefánsson

Þar sem Zhigalko tapaði sinni skák var Antipov sá eini sem átti möguleika á því að ná fullu húsi. Antipov mætti Hannesi sem beitti Petroffs vörn sem var meira og minna leynivopnið hans á Evrópumótinu. Með upplýsingaflæðinu í dag má segja að Petroff hafi varla komið Antipov á óvart og má segja að hann hafi teflt nánast óaðfinnanlega skák miðað við að skipt var upp á drottningum nokkuð snemma. Hvítur fékk nokkuð vænlega stöðu miðað við tölvuapparötin og Rússinn gaf ekkert eftir og sigldi frumkvæðinu heim í hróksendatafl þar sem hann hafði peði meira og vann góðan sigur.

Hannes réði ekki við Antipov í dag

Í heildina skiluðu hvítu mennirnir heilum 4.5 af 5 í hús í dag og því ljóst að menn þurfa að koma sterkari til leiks með svörtu mönnunum á Heimsmeistaramótinu!

Úrslit 2. umferðar

Staðan:

Pörun 3. umferðar

 

Úrslit og staða á chess-results

Heimasíða mótsins

- Auglýsing -