Þessa dagana er keppt af kappi í Norrænni netkeppni þar sem lið frá öllum Norðurlöndunum etja kappi.  Allir keppa við alla og hafa Reykjavík Puffins lokið þremur viðureignum af fimm en einnig er á dagskránni hraðskákmót og atskákmót í Fischer-slembiskák. Hraðskákmótið fór fram í gær, sunnudag.

Hraðskákmótið var nokkuð mikilvægt þar sem fleiri stig voru í boði heldur en fyrir einstaka viðureignir. Mikilvægt var að ná góðum úrslitum og þeir sem stóðu vaktina fyrir Lundana að þessu sinni voru: Guðmundur Kjartansson, Bragi Þorfinnsson, Helgi Áss Grétarsson og Davíð Kjartansson.

Teflt var við allar sveitirnar, tvær skákir með hvítu og svörtu þannig að 1. borð hjá Puffins tefldi við 1. borð hjá hinum sveitunum og svo koll af kolli, alls 5 umferðir, 10 skákir.

Puffins komu með látum úr startholunum og hófu leika með algjörri slátrun á sterkri sænskri sveit 8-0! Ótrúleg úrslit og vakti óneitanlega upp skemmtilegar minningar frá Evrópumótinu í Laugardalshöll árið 2015 þegar Svíar voru lagðir 4-0. Þá lagði Guðmundur Kjartansson einmitt Eric Blomqvist að vellir og hann endurtók leikinn á fyrsta borði og lagði hann 2-0.

Næstu úrslit komu Puffins aðeins niður á jörðina með naumu tapi gegn Finnum 3.5-4.5 en svo vannst sigur 5-3 gegn Færeyjum sem bitu þó óvænt frá sér.

Lykilviðureignin reyndist svo vera gegn Copenhagen Bulls frá Danmörku. Þeir eru með sterka sveit, allt ungir stórmeistarar og þeir leiddu fyrir umferðina. Puffins slógu þó frá sér og lögðu þá að velli 2.5-1.5 í fyrri umferðinni en seinni umferðin reyndist dýrkeypt. Danirnir unnu 3-1 og nánast tryggðu sér sigurinn.

Lokaumferðin endaði 4-4 gegn norskri sveit með Jon Ludvig Hammer í fararbroddi.

Lokaniðurstaðan var því að Puffins enduðu í 2. sæti með 24 vinning en Danirnir urðu efstir með 28 vinninga.

Bragi Þorfinnsson stóð sig best Puffins manna með 7 vinninga af 10!

Einstaklingsárangur liðsmanna Puffins:

Guðmundur Kjartansson 5 af 10

Helgi Áss Grétarsson 5.5 af 10

Bragi Þorfinnsson 7 af 10

Davíð Kjartansson 6.5 af 10

Staðan í heildarkeppninni er því þannig að Danir leiða með 19 stig en íslenska sveitin hefur 14 stig. Næsta viðureign, 2. júlí er einmitt Puffins gegn Bulls og þar þurfa Puffins að vinna sigur til að eygja möguleika á að vinna keppnina. 3 stig eru fyrir sigur í einstaka viðureignum og keppt verður á 4 borðum, allir við alla 10+5 tímamörk eins og í hinum viðureignunum.

Upplýsingar um liðin: http://malmovikings.se/nordic-league/

- Auglýsing -