Íslandsmót ungmenna Yfir 100 krakkar voru með á Íslandsmóti ungmenna um síðustu helgi og varð að loka fyrir skráningu. Katrín María Jónsdóttir, t.v. sem hér teflir við Akureyringinn Brimi Skírnisson, varð meðal fimm Íslandsmeistara í flokki stúlkna 12 ára og yngri. — Morgunblaðið/SÍ

Músin – þessi „gullnáma“ tölvubransans, svo notuð séu orð Steve Jobs þegar hann sá tækið fyrst hjá starfsmönnum Xerox, hefur reynst tölvuleikjaframleiðendum vel og við skákiðkun á netinu er leikni með músina mikilvæg. En það vantar íslenskt orð yfir það fyrirbæri sem á ensku kallast „mouse slip“. Sennilega hefur það hent alla sem eitthvað tefla á netinu að missa mann á allt annan reit en ætlunin var. Tökum nýlegt dæmi:

Nepomniachtchi – Magnús Carlsen

Þessi staða kom upp í fyrstu umferð undanrása Skilling-mótsins sem lauk á dögunum. Tímamörkin voru 15 10. Heimsmeistarinn ætlaði að skáka með drottningunni á b5, en missti hana á nálægan reit:

38. … Db4??

– og gafst upp um leið af augljósum ástæðum. Hann komst samt í gegnum undanrásirnar, vann fyrst Anish Giri og síðan Jan Nepomniachtchi og mætti svo Wesley So í úrslitaeinvíginu. Flestir á því að Magnús myndi hafa betur. Hann vann fyrstu skákina örugglega og reyndi lengi vel að þvæla vinningi í hús í jafnteflislegri stöðu í þeirri næstu. En þá gerðist þetta:

Wesley So – Magnús Carlsen

Síðasti leikur hvíts var 89. Dc5-e3+. Hann hefði getað farið í drottningakaup og staðan er ekkert nema jafntefli. En slíkt hefði mátt túlka sem veikleikamerki. Nú átti svartur fimm löglega leiki en svarta staðan er kannski eilítið betri í einhverjum tilvikum. Einn þessara leikja leiðir hinsvegar beint til taps – sá sem Magnús valdi:

89. … Kf8?? 90. De8+ Kg7 91. Df7+ Kh6 92. Dh7+ Kg5 93. Dh5+

– og svartur gafst upp því mátið blasir við, 93. … Kf4 94. Df5 mát. Þá er það komið fram: bestu skákmenn heims geta leikið gróflega af sér.

Eftir þetta var fullkomin óvissa um það hvernig einvíginu lyki en fyrirkomulagið gerði ráð fyrir tveimur fjögurra skáka einvígjum. Eftir þau var staðan jöfn, 4:4. Þá voru tefldar tvær skákir til viðbótar og So vann 1½:½. Hann gæti þurfti að bíða í nokkur ár eftir nýju tækifæri í heimsmeistarakeppninni en áskorendamótinu var frestað fyrr á þessu ári og engin dagsetning komin um framhaldið. Í fjórðu skák einvígisins tókst So að slá Magnús út af laginu með frábærum undirbúningi í byrjun sem reynst hefur Norðmanninum vel:

Skilling Open 2020:

Wesley So – Magnús Carlsen

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 Rc6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rf6 5. Rc3 e5 6. Rdb5 d6 7. Rd5 Rxd5 8. exd5 Rb8 9. Df3 a6 10. Da3 b6 11. Bg5!

Snarplega teflt. Svartur á best 11. … f6 t.d. 12. Be3 Bb7 13. Rc3 Rd7 o.s.frv. Hann valdi lakari leik.

11. … Be7?! 12. Bxe7 Kxe7 13. O-O-O Bb7 14. Rc3 Rd7 15. f4 Dc7 16. fxe5 Rxe5 17. Db4 h5 18. Be2 Kf8 19. Hhf1 He8 20. Hf5 h4 21. Hf4 Dd8 22. Kb1 Hh6 23. Hdd4 h3 24. g3 Bc8 25. a4 Kg8 26. Hde4 Dc7 27. Hh4 a5?

Svartur hefur rétt úr kútnum eftir erfiða byrjun en þessi leikur er furðu slakur. Hann gat jafnað taflið með 27. … Hxh4 28. Hxh4 Dc5! o.s.frv.

28. Dd4 Hxh4 29. Hxh4 Bf5 30. Hh5 Dc8 31. Dxb6 Rg4 32. Ba6!

Magnaður leikur sem setur svartan í mikinn vanda.

32. … He1+ 33. Ka2 De8

Eða 33. … Dd7 34. Hxf5! Dxf5 35. Dd8+ Kh7 36. Bd3 og drottningin fellur.

34. Hxf5 Re3 35. Bb5 De7

– og gafst upp um leið. Framhaldið gæti orðið 36. Db8+ Kh7 37. Hh5+ Kg6 38. Dh8 o.s.frv.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 5. desember 2020.

- Auglýsing -