Mynd frá fyrri viðburði Miðbæjarskákar.

Menningarfélagið Miðbæjarskák hefur haldið sér til hlés í skáksamfélagi Íslendinga undanfarin misseri. Ónefnd veira hefur sett strik í reikning starfseminnar en skákáhugamenn geta hætt að naga neglurnar í bili því heyrst hefur að eldgos dragi úr smithættu. 

Menningarfélagið kynnir með stolti Íslandsmótið í tvískák

Föstudaginn 26. mars mun Miðbæjarskák snúa til baka eftir of langa fjarveru og halda Íslandsmótið í tvískák í húsakynnum Taflfélags Reykjavíkur, Faxafeni 12. Mótið hefst klukkan 19:30. Tvískák gengur út á það að tveir einstaklingar tefla saman í liði á tveimur borðum gegn öðru liði (með hvítt og svart). Um leið og liðsmaður drepur einhvern af taflmönnum andstæðingsins (t.d. hrók) þá afhendir hann liðsfélaga sínum taflmaninn sem hann drap. Liðsfélaginn getur látið taflmanninn á hvaða reit skákborðsins sem er, nema í mát.  

Tefldar verða sjö umferðir með umhugsunartímanum 5+0. 1000 króna þátttökugjald er á sveit og 3799 hraðskákstiga hámark er á hvert tveggja manna lið. Menn geta ákveðið lið áður en mótið hefst, en einnig verður hægt skrá sig án hugmyndar um liðsfélaga og að mynda lið á staðnum. “Aukamenn” verða einnig á staðnum svo allir sem mæta fá liðsfélaga. Að loknum fjórum umferðum verður gert stutt hlé á taflmennsku. Keppendum gefst þá tækifæri til að væta kverkarnar í Billiardbarnum áður en leikar hefjast að nýju. 16 ára aldurstakmark er á mótið. 

Skráningarform: Íslandsmótið í tvískák 2021 (google.com) 

 Þegar skráðir keppendur: Tvískák 2021 (svör) – Google töflureiknar 

- Auglýsing -