Taflfélag Reykjavíkur og Menningarfélagið Miðbæjarskák héldu í samstarfi við Borgarsögusafn Reykjavíkur glæsilegt hraðskákmót í Viðey sunnudaginn 11. júlí síðastliðinn. Mótið var hluti af Sumarmótaröð Reykjavíkur sem styrkt er af verkefninu Reykjavík Sumarborg. Það hafa áður verið haldin skákmót í Viðey og er nærtækast að nefna Meistaramót Skákskólans sem haldið var þar í fyrra. Félag eldri borgara hélt skákmót þar árið 2010 og einnig eru dæmi um mótahald þar á síðustu öld. Þrátt fyrir það voru margir sem voru að tefla í Viðey nú í fyrsta sinn, og raunar voru fjölmargir sem heimsóttu Viðey í fyrsta sinn með þátttöku sinni í mótinu. Það er ekki nema um fimm mínútna sigling frá Skarfabakka til Viðeyjar. Eins og skáldið sagði ekki, „ég held ég sigli heim, ég held ég sigli heim“. Skákstaðurinn sjálfur var hin eina sanna Viðeyjarstofa sem reist var handa Skúla Magnússyni landfógeta árin 1753-1755. Þar er nú veitingarekstur og margir skákmenn mættu snemma til á staðinn til að skoða sig um eyjuna og ræða málin, leysa jafnvel lífsgátuna, yfir heitum kaffibolla. 

Ingvar var fyrst um sinn talinn sigurvegari mótsins. Svo kom ónefndur fauti.

Tefldar voru sjö umferðir með umhugsunartímanum 4+2 eins og í öðrum mótum Sumarmótaraðarinnar. Hin mótin eru Mjóddarmótið, sem Davíð Kjartansson vann, og í ágúst verða Árbæjarsafnsmótið og Borgarskákmótið í Ráðhúsinu haldin. Davíð Kjartansson er kominn í ansi vænlega stöðu en hann vann einmitt líka Viðeyjarmótið, með sex vinningum af sjö mögulegum. Þó hafði ónefndur mótshaldari, sem getur verið algjör fauti, gleymt að skrá inn rétt oddastig áður en mótið hófst, þannig að það leit fyrst út fyrir að Ingvar Þór Jóhannesson hefði unnið. Ísinn var ansi háll hjá þessum ónefnda mótshaldara en Ingvari er hér með send opinber afsökunarbeiðni. Þeir hlutu þó jafn marga vinninga og deila efsta sæti, en Davíð fær fleiri punkta í stigakeppninni. Næstir í röðinni með 5.5 vinning urðu þeir Jón Viktor Gunnarsson, Dagur Ragnarsson og Gauti Páll Jónsson. 47 skákmenn tóku þátt í mótinu sem er glæsilegt, og þar af átta titilhafar! Úrslit mótsins og stöðu á chess-results

Skákstjóri mótsins var Elvar Örn Hjaltason og gekk skákstjórnin smurt, rétt eins og dýrindis brauðið sem fylgdi með súpu dagsins í Viðeyjarstofu. Bun intended! Stjórnarmenn úr Taflfélagi Reykjavíkur og margir aðrir velviljaðir velgjörðamenn mótahaldsins hjálpuðu til við uppsetningu og frágang mótsins. Gens una Sumus eða eitthvað.

TR og Miðbæjarskák þakka fyrir sig og vonast jafnvel til að endurtaka leikinn að ári, enda frábærar aðstæður á skemmtilegum stað. Sést það best á þátttökunni, sem alltaf góð á „ferðalagsmótum“. Skákmót sem þessi snúast ekki nefnilega bara um reitina 64 heldur líka að búa til skemmtilega dagsferð í góðum hópi!

Lokastaðan á Chess-Results. 

Gauti Páll Jónsson 

 

- Auglýsing -