Eftir Björn Viggósson

Á næsta ári eru liðin 50 ár frá því að skákeinvígi aldarinnar var haldið í Laugardalshöll. Einvígið margfræga kom Íslandi á heimskortið og þær tæpu 200 milljónir á núvirði, sem keppendurnir fengu í verðlaunafé, slógu öll met. Þrátt fyrir að skrifaðar hafi verið yfir 150 bækur um skákeinvígið hefur fjárhagshlið þess aldrei verið brotin til mergjar svo ég viti.

Undirritaður bjó á Akureyri á þessum tíma og flaug suður til að vera viðstaddur eina skák. Það var upplifun sem aldrei gleymist, andrúmsloftið í höllinni var rafmagnað og einstakt. Ég hef horft á marga spennandi handboltaleiki í höllinni en aldrei upplifað neitt þessu líkt. Í ferð minni hafði ég tækifæri til að kynnast ýmsu því sem í gangi var því bróðir minn, Hilmar Viggósson, var í stjórn Skáksambands Íslands og gjaldkeri þess 1970 til 1973 eða þar til að hann fór um tíma til náms og starfa erlendis.

Nú á tímum kórónuveirunnar höfum við bræður rifjað upp þennan skemmtilega atburð með syni Hilmars, Viggó Einari, skákáhugamanni og starfandi stjórnarformanni byggingafyrirtækisins MótX ehf. Við fengum ársskýrslur Skáksambandsins lánaðar hjá Fishersetrinu á Selfossi og núverandi forseti Skáksambandsins, Gunnar Björnsson, var svo vinsamlegur að lána okkur fundargerðabækur stjórnarinnar frá þessum tíma.

Rafmagnað andrúmsloft

Viðureign Bobby Fischers og Boris Spasskís hófst formlega í Laugardalshöll 1. júlí 1972 í baráttu sem dagblaðið New York Times kallaði „einvígi aldarinnar“. Á skákborði stórveldanna var um heiður að tefla og þessir tveir skákmenn háðu einstaka orrustu á Íslandi sem um leið varð einn af hápunktum kalda stríðsins en það er hugtak sem notað er um tímabilið á milli áranna 1947-1991 sem einkenndist af efnahagslegri, vísindalegri, listrænni og hernaðarlegri samkeppni á milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna og bandamanna þeirra. Víetnamstríðið stóð sem hæst, Watergate-málið skók bandarísk stjórnmál og á íþróttasviðinu stóð heimsbyggðin á öndinni þegar hryðjuverkasamtökin Svarti september réðust inn í Ólympíuþorpið í München þar sem 11 ísraelskir íþróttamenn létu lífið.
Rússar höfðu haldið heimsmeistaratitlinum í skák samfleytt í 24 ár og töldu það sanna vitsmuna- og hugmyndafræðilega yfirburði sína. Þetta var í fyrsta skipti síðan 1948 sem skákmaður utan Sovétríkjanna hafði unnið sér rétt til að tefla um heimsmeistaratitilinn. Það var því allt í húfi fyrir Bandaríkjamenn og gríðarleg pressa var lögð á herðar hins unga sérvitrings.

Bobby Fischer varð fyrsti Bandaríkjamaðurinn til að vinna heimsmeistaratitilinn í skák frá upphafi keppninnar 1866, aðeins 29 ára gamall. Hann var undrabarn í skák, byrjaði að tefla sem atvinnumaður átta ára, sigraði á Opna bandaríska meistaramótinu 14 ára og varð yngsti alþjóðlegi stórmeistari heims 15 ára að aldri. Snilli Fischers, aldur og hrokafull framkoma gerði hann að fyrirbæri poppmenningar. Hann varð viðfangsefni í bókum, kvikmyndum og meira að segja innblástur fyrir lagið „The Ballad of Bobby Fischer“.

Fischer sakaði Sovétmenn um að hafa breytt mótakerfinu þeim í hag og sagði að viðureignin væri „í raun barátta frjálsa heimsins gegn lygum, svindli og hræsnisfullum Rússum“. Fischer missti af opnunarhátíð keppninnar 1. júlí eftir að hafa krafist meiri peninga, 30% af öllum aðgangseyri auk niðurskurðar á sjónvarps- og kvikmyndarétti. Eftir tveggja daga töf og tvöföldun breska milljónamæringsins Jim Slater á verðlaunafénu mætti Fischer loksins.

„Fischer er þekktur fyrir að vera klunnalegur, dónalegur og hugsanlega geðveikur,“ sagði Slater eitt sinn. „Mér er sama um það því mín von er að hann ögri yfirráðum Rússa sem er gott fyrir skákina.“

Símtal frá Henry Kissinger, aðstoðarmanni þjóðaröryggisráðs Nixons forseta, gæti hafa hjálpað til við að sannfæra hann um að keppa. „Ameríka vill að þú farir þangað til að berja á Rússum,“ sagði hann að sögn Fischers.

Tæpar 200 milljónir í verðlaunafé

Eftir ævintýralegt einvígi stóð Fischer uppi sem sigurvegari með 12,5 vinninga gegn 8,5.Fischer fékk 156.250 dollara í verðlaunafé en sovéski stórmeistarinn Spasski´, sem var 35 ára og ríkjandi heimsmeistari, fékk 93.750 dollara. Áður hafði Spasskí mest unnið 5.000 dollara á alþjóðlegum mótum. Skákin hafði notið alþjóðlegrar virðingar og var verðlaunafé eftir því. Samkvæmt www.chess.com fékk Alekhine 10.000 dollara í verðlaun þegar hann varð heimsmeistari 1927 en mótherjinn, Capablanca, fékk 2.000 dollara. Þegar Euwe vann Alekhine 1935 fékk hann 10.000 dollara. Í aldarfjórðung héldu Rússar heimsmeistaratitlinum og verðlaunin lækkuðu. Sem dæmi um það má nefna að 1966 fékk heimsmeistarinn Petrosian aðeins 2.000 dollara fyrir að vinna Spasskí.

Til að setja þetta í samhengi má nefna að samkvæmt Wikipedia fékk Jack Nicklaus 25.000 dollara fyrir að vinna á Mastersmótinu í golfi árið 1972 sem haldið var í Augusta National-golfklúbbnum, 30.000 dollara fyrir U.S. Open og 13.750 dollara fyrir að vinna The Open Championship í Skotlandi. Á verðlagi dagsins í dag jafngildir verðlaunafé Fischers 978.125 dollurum samkvæmt CPI Inflation Calculator eða 123 millj. kr. og Spassky fékk 74 millj. kr. miðað við 126 króna gengi dollara. Til samanburðar fékk sigurvegarinn í heimsmeistaraeinvíginu 2014, milli þeirra Carlsens og Anand, 750.000 dollara fyrir sigurinn en mótherjinn fékk 450.000 dollara. Fischer missti heimsmeistaratitil sinn 1975, þegar hann neitaði að tefla gegn Anatoly Karpov frá Sovétríkjunum í Manila, eftir að skipuleggjendum einvígisins mistókst að uppfylla allar kröfur hans.

Verðlaunaféð sem Skáksamband Íslands greiddi var 125.000 dollara eða að núvirði 97 milljónir króna.

Aðgangseyrir var um 92 milljónir króna, en hagnaður af sölu minjapeninga var 148 milljónir króna. Hagnaður af einvíginu var 17 milljónir króna, allar tölur eru miðaðar við núvirði. Þetta var stórkostlegur árangur því hafa ber í hug að umsvif og rekstur félagsins hafði verið sáralítill fram að þessu.

Bárðar þáttur Jóhannessonar

Í ágætri grein í Morgunblaðinu 6. september 1992 gerði Guðlaugur Guðmundsson grein fyrir minjagripasölunni en hann ásamt Þráni Guðmundssyni sá um minjagripasöluna í Laugardalshöll og báðir voru þeir í stjórn Skáksambandsins.Ljóst var að afla yrði tekna án þess að skuldbinda Skáksambandið sem hafði enga fjárhagslega burði. Þrátt fyrir augljósa landkynningu voru ríki og borg treg í taumi og tókst sambandinu einungis að fá ábyrgð fyrir hluta verðlaunanna sem var eitt af þeim skilyrðum þess að einvígið yrði haldið.

Skáksamband Íslands auglýsti eftir aðilum sem væru tilbúnir að taka sjálfir áhættu með framleiðslu og sölu minjagripa en árangurinn varð lítill. Margir komu með hugmyndir sínar og vildu selja sambandinu ákveðinn fjölda minjagripa á tilteknu verði en slíkt gat sambandið ekki samþykkt enda hafði það enga burði til þess. Niðurstaðan varð sú að Skáksambandið tók að sér að annast minjagripasöluna gegn vægri söluþóknun og fékk til þess u.þ.b. 10 fermetra pláss í anddyri Laugardalshallar. Sem betur fer sýndi það sig fljótt að eftirspurnin var mikil og oft þurfti 6-8 manns í afgreiðsluna.

Guðlaugur segir síðan orðrétt í umræddri grein: „Sá sem fyrstur varð til þess að koma á fót þessari minjagripasölu, var Bárður Jóhannesson gullsmiður, en hann kom fram með þá snjöllu hugmynd að gera minnispening og taka sjálfur áhættuna af sölu hans. Bárður Jóhannesson ætti að skipa heiðurssess við hvert hátíðlegt tækifæri Skáksambands Íslands. Það var hann sem bjargaði fjárhag þess svo kostnaðurinn við einvígið þurfti ekki að hvíla á borg og ríki, en það hefði ekki verið vinsælt á þeim tíma. Bárður færði þannig Skáksambandinu 25 milljónir króna á silfurfati. Hvað skyldu það vera mörg hundruð milljónir í dag? Sumir meta minna.“

Samkvæmt reikningum Skáksambandsins 1972 var hreinn hagnaður af sölu minnispeninganna 16,7 milljónir króna eða sem svarar til 148 milljóna á núgildandi verðlagi. Minnispeningar Bárðar voru hafðir til sölu á tveim stöðum, á skrifstofu Skáksambandsins í Norðurveri og í Frímerkjamiðstöðinni. Peningarnir voru þrenns konar, gull, silfur og brons. Upplagið var alls 5.300 eintök, 300 gull, 2.700 silfur og 2.300 brons. Peningarnir voru númeraðir og þeim fylgdi ábyrgðarskírteini. Þrír peningar í öskju, gull, silfur og brons voru seldir en stakir kostuðu þeir 10.000 krónur (gull), 1.000 krónur (silfur) og 600 krónur (brons), eða samtals 11.600 krónur sem reiknast til að hafa verið 132,0 dollarar eða að núvirði 830 dollarar. Við athugun á ebay í mars 2021 var eitt sett til sölu, verðlagt á 1.200 dollara þannig að minnispeningarnir hafa reynst eigendum sínum vel.

Eftir að Bárður setti fram hugmyndir sínar myndaðist traust vinátta á milli hans og Hilmars enda var Bárður skemmtilegur í viðkynningu. Því kynntist ég í umræddri suðurferð því ég fór með Hilmari í heimsókn til Bárðar á heimili hans. Hann var höfðingi heim að sækja og augljóst var að hann lagði bæði líf og sál í að leysa verkefnið fyrir einvígið með sóma, sem hann og gerði á eftirminnilegan hátt.

Bárður rak lengi skartgripaverslun í Hafnarstræti, Flókagötu og smíðaverkstæði á Laugavegi.

Hann lést 1996, sjötugur að aldri, og í minningargrein í Morgunblaðinu 22. september það ár segir Ástríður H. Andersen meðal annars: „Bárður vann alla ævi við gull- og silfursmíði, enda átti sú iðja hug hans allan. Hann hafði einstaka ánægju af að skapa fagra hluti. Hann var gæddur óvenju miklu hugmyndaflugi og það var engu líkara en að hann hefði ekkert fyrir að skapa fagra og sérstæða gripi á mjög skömmum tíma. Bárður var um tíma við nám í Þýskalandi, við handverksskóla þar og svo einnig í Englandi, London. Það tæki langan tíma að tíunda alla þá mörgu listmuni, sem Bárður skóp, enda engar skrár yfir slíkt, þannig gripir fara um víðan veg.

Eitt er þó víst, að þeir sem urðu svo lánsamir að eignast gripi, unna af Bárði, munu finna fyrir þakklæti til listamannsins og minnast hans lengi. Það er á engan hallað, þó ég álíti, að með Bárði Jóhannessyni sé genginn einn af okkar snjöllustu og hugmyndaríkustu listamönnum í sinni grein. Að slíkum manni er mikill missir. Bárði var margsinnis falið af opinberum stjórnvöldum hér, að hanna listsmíð til gjafa til erlendra þjóðhöfðingja. Sjálf hef ég séð myndir af sumum þessara smíða og voru þetta hinir fegurstu munir.“

Bobby Fischer var engum öðrum líkur

Viggó Einar Hilmarsson kynntist Bobby Fischer eftir að sá síðarnefndi fluttist til landsins. Í bók sinni Bobby Fischer Comes Home, The Final Years in Iceland segir Helgi Ólafsson, alþjóðlegur stórmeistari, frá skemmtilegri veiðisögu (kafli ellefu, bls. 87-92), hér þýdd og endursögð.Árið 2005 bauð Viggó Einar þeim Bobby Fischer, Jóhanni Sigurðarsyni leikara og Helga með í veiðiferð í Gljúfurá í Húnaþingi. Þar veiddi Bobby sinn eina lax á ævinni og hann ekki af verri endanum, vóg sex pund. Ferðin öll varð mikil upplifun fyrir Bobby. Eins og tilheyrir góðri veiðiferð tók Jóhann upp gítarinn um kvöldið og stýrði söng þeirra félaga. Hann var með í fórum sínum söngbók með amerískum slögurum. Bobby söng með af líf og sál og vakti það undrun þeirra félaga að hann kunni alla textana. Þeir spurðu hann hvernig á því stæði og hann yppti bara öxlum og sagðist hafa heyrt þessa söngva í útvarpinu.

Höfundur er fyrrverandi framkvæmdastjóri.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu, 9. október sl. 

- Auglýsing -