1. sæti Firouzja ásamt Dvorkovich forseta FIDE lengst t.v. og Bachar Kouatly varaforseta FIDE. — Morgunblaðið/Heimasíða FIDE

Í sögulegu samhengi má ætla að eftir FIDE Grand Swiss-mótið í Riga, sem lauk um síðustu helgi, hafi Alireza Firouzja haslað sér völl með svipuðum hætti og örfáir aðrir hafa gert allt frá því að Paul Morphy kom fram á sjónarsviðið upp úr miðri 19. öld. Nefna má Capablanca, Tal, Fischer, Karpov, Kasparov, Magnús Carlsen og nú þennan 18 ára gamla Írana sem er einn fjögurra skákmanna sem tryggt hafa sér þátttökurétt í áskorendamótum/einvígjum innan við tvítugt. Hinir eru Spasskí (1955), Fischer (1958, 1962) og Kasparov (1982).

Firouzja var með vinnings forskot í Riga þegar þrjár umferðir voru eftir en tapaði þá fyrir Caruana. Í 10. umferð vann hann David Howell, náði efsta sætinu aftur sem hann tryggði svo með jafntefli í lokaumferðinni. Lokastaða efstu manna: 1. Firouzja 8 v. (af 11). 2.-3. Caruana og Oparin 7½ v. Í 4.-16. sæti komu skákmenn sem fengu 7 vinninga. Hjörvar Steinn Grétarsson hlaut fjóra vinninga af 11 mögulegum og endaði í 91.-103. sæti af 108 keppendum.

Í áskorendakeppninni sem fram fer á næsta ári hafa unnið sér keppnisrétt Firouzja, Caruana, Karjakin, Duda og Radjabov. Á lista átta keppenda sem munu tefla tvöfalda umferð eiga eftir að bætast tveir efstu menn frá FIDE Grand Prix Berlín í febrúar nk. og sá sem tapar í HM-einvígi Magnúsar Carlsens og Nepomniachtchi sem hefst í Dubai í lok nóvember.

Skákir Firouzja voru margar spennandi og grannt var fylgst með viðureign hans í næstsíðustu umferð:

FIDE Grand Swiss; 10. umferð:

Alireza Firouzja – David Howell

28. Rxh6+!

Óvæntur og erfiður leikur fyrir Howell sem var í tímahraki.

28. … gxh6 29. Bxg6 Bxg3 30. Hxe8+ Hxe8

Í þessari stöðu er einfaldast að leika 31. fxg3 og eftir 31. … fxg6 3. Bxf6 er hvíta staðan tiltölulega létt unnin. En Firouzja taldi sig hafa fundið betri leik.

31. Df3?

31. … Dc6!

Frábær varnarleikur Howells sem átti vart meira en 30 sekúndur eftir á klukkunni. 32. Hxc6 er svarað með 32. … He1 mát.

32. Bc2 Bb8?

Furðu slakur leikur. Hann gat fengið hrók og tvo létta fyrir drottninguna með 32. … Be5, t.d. 33. Bh7+ Rxh7 34. Hxc6 Bxc6 35. Dg4+ Kh8 36. Bxe5+ Hxe5 37. Df4 f6 sem ætti að duga til jafnteflis. Hinn leikurinn aðeins síðri er 32. … Dxc2 33. Dxg3 Dg6 34. Dxg6+ fxg6 34. Bxf6 h5 sem gefur jafnteflismöguleika.

33. Dxf6 Dxf6 34. Bxf6 Hc8 35. Bc3 d4

Kannski var þetta hugmyndin því að 36. Bxd4 er svarað með 36. … Bf4! 37. Be3 Bxe4 38. fxe3 Bf5! o.s.frv.

36. Bd2! Kg7 37. Bd3 Hxc1 38. Bxc1 h5 39. h4 Bc6 40. g3 Bd7 41. Kf1 Be5 42. Ke2 Bg4 43. Kd2 Bd7 44. Kc2 Be6 45. Bb5 Bb3 46. Kd3 Kg6 47. Bd7 Bd1 48. Bd2 f5 49. Bf4 Bg7 50. Bd6 Bf6 51. Be8 Kh6 52. Bc5

D4-peðið fellur og staða svarts er vonlaus.

52. … f4 53. Bxd4 Bd8 54. Kd2 Bb3 55. Be5 fxg3 56. fxg3 Ba5 57. Kc1

– og Howell gafst upp.

EM landsliða í Slóveníu

Íslendingar sendu lið í kvennaflokk og opinn flokk EM landsliða sem hófst í gær í Terme Catez í Slóveníu. Í opna flokknum tefla í borðaröð: Hjörvar Steinn Grétarsson, Jóhann Hjartarson, Hannes Hlífar Stefánsson, Helgi Áss Grétarsson og Guðmundur Kjartansson og í kvennaflokknum Lenka Ptacnikova, Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir, Lisseth Acevedo og Hrund Hauksdóttir. Liðsstjóri er Margeir Pétursson.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 6. nóvember 2021. 

- Auglýsing -