Íslenska liðið í opna flokknum tapaði alltof stórt gegn Tékkum í umferð dagasins. Lengi vel leit jafnvel út fyrir sigur íslenska liðsins, allavega jafntefli! Stelpurnar unnu góðan sigur á Belgum.

Hjörvar fékk erfitt verkefni á fyrsta borði en hann hefur verið í mjög erfiðu prógrammi undanfarnar vikur. David Navara er einn af hæfileikaríkustu skákmönnum heims. Hjörvar virtist fá vel teflanlega stöðu úr byrjuninni en Navara náði að stýra skákinni í farveg sem hentaði hvítu stöðunni betur.

Skák Hannesar virtist lengi mjög jafnteflisleg. Afbrigðið sem Nguyen valdi er hálfgert jafnteflisafbrigði og hann hefur gert 6 jafntefli í röð á mótinu. Hannes fékk örlítið betra eins og hvítur á í raun að fá úr þessu afbrigði en svartur er með mjög trausta stöðu. Í endataflinu virtist Nguyen vera að snúa á Hannes en okkar maður náði að bjarga taflinu í blálokin.

Skák Zilka og Jóhanns á þriðja borði var gríðarlega skemmtileg en jafnframt mjög flókin og krefjandi fyrir báða aðila. Jóhann fékk fína stöðu fljótlega í miðtaflinu og skiptamunsfórn hans var skemmtileg og gaf svörtum mjög hættuleg færi. Á einhverjum tímapunkti átti Jóhann líklega leiki sem teljast mættu vinningsleiðir ef horft er á skákina af hliðarlínunni með tölvurnar við hendina….en hinsvegar voru flækjurnar gríðarlegar og því miður hitti Zilka á réttu vörnina og sérstaklega eftir 51…Rc2+ sem reyndist dýrt tempótap.

Guðmundur Kjartansson lenti í andstæðingi, Vojtech Plat, sem hefur reynst honum erfiður í liðakeppnum. Gummi á að baki tvö töp gegn Plat í landsliðsverkefnum. Skák dagsins var kaflasskipt. Plat tefldi glannalega í byrjuninni en slapp vel frá því, Gummi refsaði honum ekki og átti á hættu að fá eitthvað verra tafl. Þá fór Guðmundur að laga stöðuna og loks var það Guðmundur sem var að pressa í endataflinu en Plat náði að verjast.

Því miður eru ekki fleiri lið frá Belgíu sem okkar fólk getur keppt við! Í gær voru Belgar lagðir í opnum flokki og í dag lá lið þeirra í kvennaflokki. Nokkrar sveiflur voru í skákunum en á endanum hafðist sigurinn á seiglunni.  Liss og Hrund komu sterkar inn með sína fyrstu punkta á mótinu.

Lenka fórnaði skiptamun og fékk ansi skemmtileg færi. Jafnteflið var í hendi þegar Lenka gat þráleikið en líklega rétt ákvörðun að tefla áfram þar sem svarta staðan var þægilegri. Svekkjandi í raun að tapa þessari skák en þegar hún tapaðist var viðureignin að vinnast þannig að það kom ekki að sök.

Hallgerður sýndi mikla seiglu í sinni skák. Þrátt fyrir að hafa lent í erfiðri stöðu, unnið sig úr henni og svo lent í erfiðleikum í úrvinnslunni náði Hallgerður að klára skákina á þrjóskunni. Mikilvæg keppnisharka sem skilaði okkur sigri í þessari viðureign.

Liss kom sterk aftur inn og fékk sinn fyrsta punkt á mótinu. Hún var skarpari í flækjunum gegn sínum andstæðingi.

Hrund tefldi traust á fjórða borði, skákin varð löng en var einhvern veginn alltaf í jafnvægi. Traustur punktur sem hjálpaði að fá góðan liðssigur.

Í lokaumferðinni mætum við Kosovo í opnum flokki en Norður-Makedóníu í kvennaflokki.

Umferðir hefjast klukkan 14:00 að íslenskum tíma.

Opinn flokkur á Chess-results

Kvennaflokkur á Chess-results

Skákvarpið má finna hér og hefjast útsendingar 15:30-16:00

- Auglýsing -