Ungstirnið Alireza Firouzja komst um síðastliðna helgi yfir 2800 stiga múrinn, yngstur manna í sögunni til að ná því marki. Framundan er heimsmeistaraeinvígi þeirra Magnúsar Carlsen og Ian Nempomniachtchi en flestir eru á því að Magnus hafi það af að leggja Rússann en verkefnið verður líklega öllu erfiðara þegar Alireza mætir á stóra sviðið! Fyrir mörgum árum þjálfaði Íslandsvinurinn Ivan Sokolov þennan unga mann og lýsti því yfir að hér væri heimsmeistaraefni á ferð!

Alireza er núna #2 í heiminum!

Afrekið vann Firouzja með því að leggja að velli Shakhryiar Mamedyarov í lokaumferð Evrópumóts landsliða í Slóveníu. Til þess að vinna þurfti Azerinn reyndi þó að missa af jafnteflisleið en erfitt var að finna þessa leið með ekkert alltof mikinn tíma á klukkunni. Stuttu eftir að skákinni lauk fóru áhugamenn um skáksöguna að fletta stöðunni upp og kom þá í ljós að sama staða hafði komið upp áður og í það skiptið fann svartur jafnteflisleiðina!

Skákin hjá Alireza og Mamedyarov er hér:

Eins og sjá má á tísti Olimpiu G. Urcan hér að ofan þá átti svartur jafntefli með 48…Hf3! sem var sama staða og kom upp hjá Teichmann og Alapin. Alapin fann leikinn og hélt jafnteflinu! Í raun tefldi hann vörnina fullkomlega, engin mistök!

Það er kannski ekki auðvelt að skilja leikinn en aðalmunurinn liggur í því að með …Hf3! þá kemur svartur í veg fyrir að hvíti kóngurinn geti orðið aktívur í gegnum h3 reitinn og stutt við hvíta g-peðið. Hrókurinn á f3 setur einfaldlega á f2 peðið þannig að hvítur nær ekki að virkja kónginn. Svo þegar g-peðið fer af stað þarf svartur einfaldlega að halda þriðju reitarröðinni og setja svo á peðið þegar það er komið of langt.

Eins og sjá má í Lomonosov gagnagrunninum þá er …Hf3! eini leikurinn sem tapar ekki.

Lykillinn í þessu öllu er svo að endataflið, ef hvítur skiptir upp á f3 með Hxf3 og svartur svarar gxf3, er jafntefli. Auðvelt er að sannreyna það.

Þessi langi inngangur kom í raun í dagsljósið eftir að ég hafði ákveðið að skrifa þennan stutta pistil. Megininntak greinarinnar á í raun að vera spurningin, hversu góðir voru „gömlu“ meistararnir?

Það er nefnilega þannig að það er ennþá mjög gagnlegt að skoða skákir gamalla meistara og læra af þeim. Flestir eru á því að skákmenn í dag sé miklu betri en í gamla daga og líklega er það rétt að einhverju leiti. Inn í þá formúlu þarf samt að taka að í dag er margfalt betra aðgengi að upplýsingum, ungir skákmenn geta dælt inn í hausinn á sér endalausum taktískum æfingum og þar með byggt upp taktískt auga og þekkingu á þemum sem tók menn í gamla daga fleiri ár að byggja upp.

En eitt er það sem ekki er hægt að vanmeta og það er samanburður á ákvörðunum gömlu meistaranna og skákmeisturum dagsins í dag í sambærilegum stöðum! Skák þeirra Alireza Firouzja og Shakh Mamedyarov er frábært dæmi um það. Þeir Teichmann og Alapin fengu nákvæmlega sömu stöðu, eina sem líklegast var öðruvísi er að árið 1908 hefur Semyon Alapin líklegast haft meiri tíma til að hugsa sinn gang í stöðunni heldur en Shakhryiar Mamedyarov hafði árið 2021, meira en öld síðar!

Hugmyndin kom þegar ég fékk símtal eftir eina af umferðunum á Evrópumóti landsliða í skák. Ísland hafði þá tapað gegn Finnlandi og Hjörvar Steinn fékk eftirfarandi stöðu upp gegn Mikael Agopov.

Hjörvar lék í stöðunni 10.Dd3?! sem er líklega ekki besti leikurinn og þó hann sé kannski ekki slæmur er hann mögulega upphafið að vandamálum hvíts í þessari skák. Framhaldið varð 10…Bxf3 11. Bxf3 Rg5 12.Bxc6 bxc6 og líklega var 13.f4? stærsta vandamálið. Svartur fékk í kjölfarið mikla pressu á miðborðið.

Merkilegt nokk kom þessi staða einnig upp árið 1967 á móti í Dundee. Skák Hjörvars hófst á 1.b3 en Friðrik lék 1.Rf3 í fyrsta leik en engu að síður kom sama staða upp. Andstæðingur Friðriks var Svetozar Gligoric. Friðrik lék 10.Dc2 sem er mun betri leikur. Munurinn er sá að biskupinn á b2 er valdaður og þess vegna eru ekki jafn mikil vandamál tengd leppun d-peðs hvíts.

Skák Friðriks og Gligoric tefldist svipað, 10…Bxf3 11. Bxf3 Rg5 12.Bxc6 bxc6 en nú er munurinn sá að Friðrik gat leikið 13.dxc5!

Í kjölfarið stendur hvítur betur vegna veikleika svörtu peðanna á c-línunni. Tölvurnar eru sammála. Gligoric slapp reyndar af önglinum í þetta skiptið en klárt er að hvítur stendur betur. Mig minnir að Friðrik hafi bent á endurbótina 18.Kg2 og hvítur stendur betur. Hér er skákin (Skák Hjörvars er með og hægt að skipta á milli í 10. leik í leikjalistanum)

Líkt og í næsta dæmi er sannleikurinn líklegast „mitt á milli“. Tölvuforritið Stockfish 14 segir nefnilega að 10.Dc1 sé langbesti leikurinn og gefur hvítum mun betri stöðu. +0.87 er matið á dýpt 30. Reyndar er ómögulegt fyrir allavega minn takmarkaða mannsheila að skilja af hverju Dc1 er betri en Dc2 en það er verkefni fyrir aðra að finna út úr því!

Síðar á Evrópumótinu fékk starfandi ritstjórn Skak.is aftur símtal! Aftur kom upp staða úr skákum Friðriks!

Nákvæmlega þessi staða kom upp í skák Jóhanns Hjartarsonar gegn Emil Ristevski í viðureigninni við N-Makedóníu. Merkilegt nokk kom sú staða einnig upp í skák Friðriks gegn Raymond Keene á Reykjavíkurskákmótinu árið 1976 (Sjá „Við skákborðið í aldarfjórðung“ bls. 193).

Staðan hjá Friðrik og Keene kom reyndar upp eftir 13. leik þar sem þeir skutu inn 6.Bg5 h6 og svo Be3 en það kemur út á eitt þar sem svartur tapar tempóinu til baka þegar hann leikur h6-h5 í stað h7-h5.

Í skák Friðriks og Keene lék Bretinn 13…c6? sem Friðrik gagnrýndi í skýringum sínum á skákinni í bókinni góðu, Skákborðið við aldarfjórðung. Friðrik vann í kjölfarið nokkuð öruggan sigur en eftir skákina þá benti hann Keene á möguleikann á að leika 13…f6! sem er mun betri leikur. Seinna á Reykjavíkurskákmótinu fékk svo Keene færi á að nota endurbótina, hann fékk svart gegn Gunnari Gunnarssyni og viti menn, sama staða kom upp og Keene lék 13…f6! og fékk frábæra stöðu. Okkar maður náði reyndar að snúa á Keene en það breytir því ekki að hugmyndin með …f6 og skiptamunsfórninni á f4 er stórhættuleg.

Aftur, þá er líklegast að sannleikurinn liggi mitt á milli. Jóhann hefur vafalítið allavega munað eitthvað eftir skák og skýringum Friðriks við skákina við Keene. Hinsvegar eru tölvuforritin á því að hvítur standi betur eftir 16.Hg3 í skák Jóhanns. Á móti eru praktískir möguleikar svarts mjög hættulegir eins og Ristevski sýndi.

Hér eru skákirnar:

Eins og sjá má þá eru ákvarðanir meistarana í dag ekki alltaf betri en gömlu meistarana! Það er algeng tugga að allt sé betra í dag, en það er ekki endilega alltaf þannig. Munum að bera virðingu fyrir brautryðjendunum, sú virðing á oftar en ekki mun meira en fyllilega rétt á sér!

- Auglýsing -