TR var í toppbaráttunni fyrir seinni hlutann en margir höfðu þó spáð Garðbæingum sigri, með sterku blölduðu liði Íslendinga, og sænskra skákmanna í yngri kantinum. Það var samt margt sem átti eftir að breytast þegar kom að seinni hlutanum. Garðbæingar bættu við sig einum sterkum skákmanni, Víkingar mættu mun þéttari til leiks og Fjölnismenn voru í vígahug með sterkt lið. Þetta var kannski viðbúið og Taflfélag Reykjavíkur ákvað því að fá liðsstyrk á fyrsta borð. Ekki löngu eftir að úkraínski stórmeistarinn Mykhaylo Oleksyenko hafði boðað komu sína til landsins réðust Rússar inn í Úkraínu. Svo fór að hann gat þó komið til landsins og teflt, eftir að hafa komið stórri fjölskyldu sinni í öruggt skjól, en það er ekki herskylda fyrir Úkraínumenn eigi þeir þrjú eða fleiri ung börn. Mykhaylo fór yfir þessi mál í viðtali hjá Rúv. Einn annar erlendur skákmaður tefldi með TR að þessu sinni, Fide meistarinn danski Mikkel Manorsi Jacobsen. Annars var liðið skipað sterkum íslenskum titilhöfum. Árangur Helga Áss Grétarsson vakti verðskuldaða athygli, 8 vinningar af 10 mögulegum, magnaður baráttumaður! Oleksandr Sulypa var fjarri góðu gamni, hann varð eftir í Úkraínu og barðist fyrir landið sitt. Veronika Steinunn Magnúsdóttir ræddi við hann, sjá frétt MBL. Margeir Pétursson kom til landsins og stóð fyrir sínu í seinni hlutanum, traustur liðsmaður. Fyrst maður er byrjaður að vitna svona í fréttir þá má halda því áfram. Hér er áhugavert viðtal við Margeir Pétursson frá því eftir mótið. Guðmundur Kjartansson tefldi á 2. borði í seinni hlutanum en hafði leitt sveitina í þeim fyrri. Aðrir sem teflu í seinni hlutanum voru: Þröstur Þórhallsson, Ingvar Þór Jóhannesson, Karl Þorsteins, Alexander Oliver Mai, Daði Ómarsson og Bárður Örn Birkisson.

deildo_vor22_6

Á myndinni má sjá alla þá félagsmenn sem tefldu með A-liðinu, fjölda skáka og vinninga. Rétt er að taka fram að Taflfélag Reykjavíkur vann úrvalsdeildina og er því svo mikið sem fyrsta félagið sem vinnur titilinn í úrvalsdeild, en hún er nýstofnuð. TR vann Íslandsmót skákfélaga síðast árið 2008. Síðan þá hefur margt gerst og TR eflst og dafnað. Árangurinn í seinni hlutanum var mjög góður. Sigur í fjórum viðureignum og bara eitt jafntefli, gegn Víkingum. Engin töp. Einnig þurfti að sækja eitthvað af vinningum, og þar spilaði stóra rullu sigurinn gegn TG, 5.5-2.5! Flottur árangur, og góð liðsheild. Liðsstjóri A-liðsins var formaður félagsins, Ríkharður Sveinsson.

deildo_vor22_10

TR er alhliða félag með áherslu á æfingar fyrir alla, börn unglinga og fullorðna, mótahald af öllum stærðum og gerðum, og loks afreksstarf, en félagið sendir reglulega sveit á EM Taflfélaga. Nú bætist við enn ein rósin í hnappagatið, og staðfesting á öflugu starfi, titillinn góði og eftirsóknarverði. Dollan komin í Faxafenið!

deildo_vor22_7

urslit_deildo_2022_a

Fyrsta deild: TR-B

B-liðið sigldi lignan sjó í fyrstu deild. Engin hætta á falli og eiginilega líka lítil hætta að sveitin færi upp í úrvalsdeild. Þó átti liðið eftir að breyta miklu í stöðu deildarinnar. Með virkilega svekkjandi og slæmu tapi TR-B gegn KR, skaust KR fyrir ofan TV, sem var eiginlega alltaf á leiðinni upp um deild. Náðu því KR-ingar fyrsta sætinu í fyrsta og eina sinn í keppninni, akkúrat þegar það skipti máli! Reykjavíkurlið munu því setja svip sinn á Úrvalsdeildina að ári: TR, KR, Víkingar, Fjölnir, allt saman reykvísk lið, verða í úrvalsdeild að ári ásamt Blikum og TG.

deildo_vor22_11

B-liðið var skipað ungum skákmönnum um tvítugt með um 2000-2200 elo stig, í bland við eldri skákmenn á svipuðu styrkleikabili. 11 skákmenn tefldu með TR-B, og þrír þeirra tefldu allar skákirnar. Björn Hólm Birkisson og Alexander Oliver Mai höluðu inn flestum vinningum, 5.5 á haus. Á myndinni má sjá alla þá sem kepptu fyrir TR-B í keppninni. Liðsstjóri var Gauti Páll Jónsson. Liðið var í 6. sæti af 8. og stefnir á betri árangur að ári!

urslit_deildo_2022_b

Önnur deild: TR-C

C-liðið sigldi einnig lignan sjó í annarri deild, endaði í fimmta sæti af átta sveitum. B-sveit Skákdeildar Breiðabliks pakkaði saman annarri deildinni, en þó ekki svo glatt! Í síðustu umferð var það einmitt TR-C sem tókst að knésetja Blikana, og eina liðið til að ná því! Í þeirri viðureign var einnig skemmtileg pörun, Stefán Briem tefldi við barnabarn sitt Benedikt Briem. Svo fór að sá yngri hafði betur að þessu sinni, en Benedikt er í mikilli framför. C-liðið var skipað skákmönnum á viskualdrinum fræga, og skákmönnum sem eru farnir að nálgast viskualdurinn, með nokkrum undantekningum.

deildo_vor22_1

Þungaviktarlið eins og svo oft áður, langar skákir og mikil barátta. Á myndinni eru úrslit og árangur liðsmanna TR-C. Fjórir skákmenn tefldu fjórar skákir fyrir sveitina; Kjartan Maack, Jon Olav Fivelstad, Ögmundur Kristinsson og Stefán Briem. Kjartan halaði inn flestum vinningum, eða þremur talsins. Fyrrum formenn geta bara ekki hætt að gefa af sér! Liðsstjóri TR-C var Eiríkur K. Björnsson. Hann var að vísu fjarri góðu gamni í seinni hlutanum en með í anda!

urslit_deildo_2022_c

Þriðja deild: TR-D 

deildo_vor22_2

Frábær árangur TR-D vakti verðskuldaða athygli og mikla ánægju þess sem þennan texta ritar. Fyrir um fimm árum síðan var undirritaður í sigurliði TR-D í fjórðu deild, og nú er liðið að lyfta sér upp úr þriðju og í þá öðru! Sveitin var skipuð ýmsum grjóthörðum skákmönnum á bilinu 1600-1900, og margir þeirra hækka vel á stigum eftir keppnina. Nemendur í afreksflokki TR tefldu talsvert með sveitinni og höluðu inn vinningum. Magnús Kristinsson stjórnarmaður í TR tefldi sex skákir, og þrír skákmenn tefldu fimm skákir: Kristján Dagur Jónsson, Adam Omarsson og Kristján Th. Sverrisson. Kristján Th og Magnús fengu flesta vinninga, 4.5. Kristján Dagur græðir mest á stigum, 29 stykki, en hann fékk fjóra vinninga af fimm. TR verður því með tvær sveitir í annarri deild að ári, C og D. Liðsstjóri var Daði Ómarsson. Mynd af skortöflu liðsins eins og vanalega!

deildo_vor22_4

urslit_deildo_2022_d

Fjórða deild: TR-E, TR-F og TR-G

Þrjár sveitir mættu til leiks í fjórðu deildina hjá TR, og á tímabili leit út fyrir að tvær þeirra ættu möguleika á að hoppa upp um deild. Eftir að bandbrjáluð F-sveit TR gerði sér lítið fyrir og vann E-sveitina í lokaumferðinni þá leit allt í einu út fyrir að kannski færi ekkert TR-lið upp um deild! En þetta slapp fyrir horn, E-liðið hékk í öðru sæti og tryggði sér sæti í þriðju deild að ári, glæsilegur árangur! Árangur F-liðsins var líka frábær, fjórða sæti í þessari 15 sveita deild. E-sveitin var að mestu skipuð skákmönnum á bilinu 1500-1700 og F-sveitin skákmönnum á bilinu 1100-1500. Það er mikil breidd meðal þeirra sem tefla með TR! Þorsteinn Magnússon tefldi fimm skákir fyrir TR-E og þrír skákmenn tóku fjórar skákir: Einar Ágúst Árnason, Guðmundur Aronsson og Heris Hadi Rezai. Einar Ágúst vann allar skákir sínar fjórar og hækkar um 36 stig.

deildo_vor22_5

Liðin í fjórðu deild voru skipuð reynsluboltum en einnig nemendum í framhaldsflokkum Taflfélags Reykjavíkur, ásamt fullorðnum skákmönnum sem voru annað hvort að taka sín fyrstu skref í kappskák, eða að tefla kappskák í fyrsta sinn í dágóðan tíma. G-lið var sent til leiks í fyrsta sinn í mörg ár og stóð það sig vel. 10. sæti af 15 sveitum, vel gert! Þrír skákmenn tefldu fjórar skákir með F-liðinu nautsterka: Helgi Heiðar Stefánsson, Árni Ólafsson og Iðunn Helgadóttir. Um flest stig hækkar hins vegar Arnar Valsson, eða 34 talsins. Í G-liðinu voru flestir stigalausir, en það mun breytast hjá fjölmörgum liðsmönnum fyrir næsta keppnistímabil. Þeir Jósef Omarsson og Miriam Khukhunaishvili tefldu fjórar skákir fyrir G-liðið og hækkar Jósef um 24 stig. Liðsstjórar sveitanna þriggja í fjórðu deild voru þau Una Strand Viðarsdóttir og Gauti Páll Jónsson. Eins og vanalega: Mótstöflur! Myndirnar af skákköppunum sem fylgja hér með fréttinni eru frá Hallfríði Sigurðardóttur og Þosteini Magnússyni.

deildo_vor22_12

urslit_deildo_2022_e

urslit_deildo_2022_f

urslit_deildo_2022_g

Myndir Hallfríðar 

Kv.

Gauti Páll Jónsson scribae TR

- Auglýsing -