Opnuð hefur verið sérstök afmælissýning í tilefni þess að hálf öld er liðin frá skákeinvíginu sögufræga sumarið 1972.

Fyrst var um það rætt sem “Einvígi aldarinnar” en síðar, eftir að hafa verið valið af BBC í hóp 10 merkilegustu viðburða síðustu aldar, hefur það verið nefnt “Einvígi allra tíma”. Þeir Einar S. Einarsson og Páll G. Jónsson hafa haft veg og vanda að opnun sýningarinnar fyrir hönd Skáksögufélags Íslands í samvinnu við hótelið. Sýningin sem verður opin gestum og gangandi til hausts Jafnframt hafa verð gefin út afmæliskort um einvígið bæði á ensku og íslensku.

Heimsmeistaraeinvígið í skák milli þeirra Boris Spassky og Bobby Fischers, sem fram fór í Reykjavík sumarið 1972 var mikið sjónarspil. Það var háð í anda kalda stríðsins enda áttust þar við fulltrúar tveggja stórvelda, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna.

Einvígið vakti gífurlega athygli um heim allan og kom Íslandi á kortið. Það var sett þann 1. júlí í Þjóðleikhúsinu enda þótt Fischer væri þá enn ókominn til landsins. Fyrsta skákin var tefld Laugardalshöllinni 11. júlí og því lauk svo þann 1. september þegar Spassky gaf 21. skákina af 24. Fischer vann einvígið með 12.5 vinningi gegn 8.5 og varð þar með fyrsti Bandaríkjamaðurinn til að verða hinn formlegi heimsmeistari í skák eftir að Sovétmenn höfðu einokað titilinn í aldarfjórðung.

Um einvígið hafa verið að skrifaðar yfir 150 bækur og mikið um það og Bobbý fjallað alla tíð síðan. Fischer fluttist til Íslands árið 2005, eftir að hafa verið bjargað úr varðhaldi í Japan þegar að Bandaríkin ógiltu vegabréf hans fyrirvaralaust, og honum veittur íslenskur ríkisborgarréttur. Hann lést langt um aldur fram árið 2008, aðeins 64 ára, og hvílir í Laugardælakirkjugarði, rétt hjá Selfossi

SSF -ESE

 

- Auglýsing -