Prýðilega gekk í þriðju umferð alþjóðlegu skákhátíðinnar í Budejovice í gær. 4½ af 6 mögulegum kom í hús. Helgi Áss Grétarsson (2472) er efstur í AM-flokki og Aleksandr Domalchuk-Jonasson (2244) og Hilmir Freyr Heimisson (2281) hafa fullt hús í opnum flokki.
SM-flokkur
Hannes Hlífar Stefánsson (2541) tapaði fyrir austurríska FIDE-meistaranum Marc Morgunov (2376) og hefur 1 vinning.
Tíu skákmenn taka þátt og eru meðalstigin 2487 skákstig. Hannes er þriðji í stigaröð keppenda.
- Chess-Results
- Beinar útsendingar (kl. 14)
AM-flokkur
Helgi Áss Grétarsson (2472) gerði jafntefli við aserska stórmeistarann Azer Mirzoev (2424) og er efstur með 2½ vinning.
Tíu skákmenn taka þátt og eru meðalstigin 2335 skákstig. Helgi Áss er stigahæstur keppenda.
Opinn flokkur

Aleksandr Domalchuk-Jonasson (2244) og Hilmir Freyr Heimisson (2281) unnu og eru í 1.-4. sæti með fullt hús. Þeir mætast í dag.
Alexander Oliver Mai (2159) gerði jafntefli og hefur 2½ vinning. Alex mætir tékkneska stórmeistaranum Petr Velicka (2384) í dag.
Birkir Ísak Jóhannsson (2131) vann í gær og hefur 2 vinninga.
111 skákmenn frá 18 löndum taka þátt og þar af 2 stórmeistarar og 3 alþjóðlegir meistarar.
Solta Open
Stefán Steingrímur Bergsson (2134) situr að tafli á eyjunni Solta í Króatíu. Hann vann króatíska alþjóðlega meistarann Ozren Biti (2338) í gær.
Tvær umferðir eru tefldar í dag.

















