Frá Solta. Mynd: SSB

Króatíska eyjan Solta er steinsnar fyrir utan borgina Split. Rétt rúmlega þúsund manns hafa vetursetu á eyjunni sem er örlítið stærri en Heimaey að flatarmáli. Á sumrin dvelja hér mun fleiri og eru það að mestu Króatar í sumarleyfi. Hér í næsta herbergi á Hótelinu Paradise Punta er einmitt króatískur landsliðsmaður í handbolta og leikmaður Kielce að safna kröftum eftir erfitt tímabil sem endaði með tapi í vítakeppni fyrir Barcelona í úrslitum meistaradeildarinnar.

Ferðalagið hingað var fremur þægilegt og bauð upp á aukanætur á skemmtilegum stöðum fyrir mig og minn góða ferðafélaga og aðstoðarmann; Keflavík – Róm – Split og svo ferja á stærð við Herjólf til Solta. Hótelið er alveg frábært, bara sex herbergi, sundlaug, upp við ströndina og afskaplega ljúf og þjónustulunduð fjölskylda sem rekur það. Veðrið er með miklum ágætum. Það er þó fremur heitt en stórmeistarinn Ivan Zaja sem ég tapaði fyrir í gær í fjórðu umferð sagði mér eftir skákina að það væri óvenjuheitt þessa dagana. Sá kappi hefur verið atvinnumaður lengi, bæði teflir og kennir. Hann hafði betra tafl allan tímann eftir að ég víxlaði afbrigðum í byrjuninni. Ég barðist þó um á hæl og hnakka og í endatafli fékk ég loksins sénsinn á að jafna taflið. Heilræðið sem Hjörvar Steinn Grétarsson hefur sagt mér og fleirum að í hverri skák fái maður allavega einn séns er ansi gott, en því miður nýtti ég mér ekki sénsinn í þessari skák.

https://chess-results.com/partieSuche.aspx?lan=1&art=4&tnr=606441&rd=4

Eftir að hann leikur Kb1-c2 á ég sniðugan millileik áður en ég drep á c4 og ætti að halda jafntefli. Í tímahraki greip ég peðið strax sem er tapleikur.

Þessi skák fjórðu umferðar var seinni skák dagsins. Í fyrri skákinni gerði ég stutt jafntefli við reyndan króatískan alþjóðlegan meistara. Skák mín í annarri umferð var líklega besta skák mín í mótinu hingað til. Í undirbúningi fyrir skákina sá ég að andstæðingur minn IM Ozren Biti tefldi fremur hæpið afbrigði gegn enska leiknum sem ég valdi þá að tefla en síðustu misserin hef ég annað veifið gripið í c-peðið í fyrsta leik. Eftir drottningaruppskipti í sjötta leik náði ég miklu frumkvæði í liðsskipan. Svarta staðan hafði þó ekki mikla veikleika þannig að ég varð að tefla hvasst áður en hann myndi klára liðsskipan og þá ef til vill jafna taflið. Sérstaklega var ég ánægður með planið sem snerist um að virkja hvítreita biskupinn. Í framhaldinu varð pressan of mikil á svörtu stöðuna og ég komst í betra endatafl sem siglt var í höfn. Út af ónákvæmni minni í taktískum aðgerðum fékk andstæðingur minn þó einn séns til að jafna taflið og ef til vill fá betra. En það spilaði vissulega inn í að hann hafði bara viðbótartíma á klukkunni þegar þarna var komið við sögu. Í stað þess að drepa biskupinn á c4 getur hann skotið inn Rc5 og frumkvæði hvíts er fyrir bí.

https://chess-results.com/partieSuche.aspx?lan=1&art=4&tnr=606441&rd=2

Mótshaldarinn Mateo er sá sami og skipuleggur Split Open sem fram fer eftir viku. Mótshaldið er afar gott. Mateo talar góða ensku eins og virðist reyndar fremur algengt hér á eyjunni. Úrslitaþjónusta og allt upplýsingafæði er með miklum ágætum. Teflt er í einhvers lags félagsheimili við fínar aðstæður þó að það geti orðið örlítið heitt en hitinn hefur þó ekki truflað mig í skákunum.

Í dag er frídagur sem verður meðal annars nýttur í heimsókn á ólífuolíubúgarð. Þá þarf einnig að stúdera andstæðing morgundagsins sem er hinn þaulreyndi stórmeistari Bojan Kurajica. Kurajica hefur verið að síðan í upphafi sjöunda áratugarins og meðal hans besta árangurs er þriðja sæti á mótinu í Wijk aan Zee sem Friðrik Ólafsson vann. Þá var hann í sveit Júgóslava sem náði bronsinu á Möltu árið 1980; https://www.olimpbase.org/1980/1980yug.html

Út með mennina, valda miðborðið, hróka snemma og nýta sénsinn!

Stefán Bergsson.

- Auglýsing -