Hannes að tafli á Íslandsmóti skákfélaga. Mynd: Ómar Óskarsson.

„Þú átt að vita, ekki halda,“ sagði hinn 24 ára stórmeistari Aleksander Donchenko við mig á meðan ég rembdist eins og rjúpan við staurinn að leysa skákþraut sem hann sýndi mér við verðlaunaafhendingu skákhátíðarinnar í Céske Budjeovice sem lauk í Tékklandi laugardaginn 9. júlí. Ég gat nokkra leiki en stóð svo á gati. Þegar Aleksander fór upp á verðlaunapallinn sá ég besta leikinn í stöðunni, lét mig hverfa úr salnum og vatt mér í önnur verkefni, úff hvað skák getur verið erfið.

Ég var þó ekki alveg sloppinn. Við Aleksander urðum samferða á næsta skákmót, í Piestany í Slóvakíu, og í bílnum, þar sem við sátum eins og sardínur í sardínudós, fór ég aftur að hugsa um stöðuna. Kom með eina eða tvær tillögur en þær voru skotnar niður umsvifalaust af Aleksander. Þegar komið var á leiðarenda hélt ég áfram að hugsa um stöðuna sem og um nóttina, eftir að hafa vaknað. Sá ekki neitt. Sólarhring eftir að ég sá upphafsstöðuna gafst ég upp. Aleksander kom þá með lausnina, hvílíkur snilldarleikur, ekki skrýtið að ég missti af honum.

Lifandi goðsögn á stórafmæli í dag

Þótt áðurnefndur Aleksander sé á meðal bestu skákmanna Evrópu þá laut hann í lægra haldi fyrir landa mínum, stórmeistaranum Hannesi Hlífari Stefánssyni, á skákhátíðinni í Tékklandi. Hannes hefur margan fiskinn dregið að landi við skákborðið, suma stærri en aðra, t.d. vann hann FIDE-heimsmeistarann Ruslan Ponomariov árið 2001 og verðandi heimsmeistara Magnus Carlsen árið 2004.

Hannes er þrettánfaldur Íslandsmeistari í skák í opnum flokki, met sem sjálfsagt verður aldrei slegið, nema Hannes haldi áfram að bæta það sjálfur. Fáir ef nokkrir íslenskir skákmenn hafa unnið jafn mörg alþjóðleg skákmót á erlendri grundu og Hannes, síðasti mótasigur hans var í Póllandi í byrjun júní síðastliðins. Enginn íslenskur skákmaður hefur jafnoft deilt efsta sætinu á opna Reykjavíkurskákmótinu en árið 2000 vann hann mótið einn.

Þessi lifandi goðsögn íslensks skáklífs er fimmtugur í dag. Hann er ekki mikið fyrir það að flagga eigin afrekum. Oft gleymist því hversu mikill fengur það er fyrir íslenskt skáklíf að eiga hetju sem þessa. Fyrir mig, gamlan keppinaut Hannesar, var gaman að eyða kvöldverðarstundum með honum á áðurnefndri skákhátíð í Tékklandi. Á heildina litið gekk honum ekki ýkja vel á mótinu en ástríðan fyrir skáklistinni er enn ósvikin. Umræðuefni eins og að hann yrði bráðlega fimmtugur voru honum fjarri, það var staðan sem kom upp í skákinni fyrr um daginn sem var áhugaverðara að tala um.

Maður verður víst að vita, ekki halda. Það er og eitt einkenni skákstíls Hannesar, að vita hvar setja á mennina.

Til hamingju með fimmtugsafmælið, kæri félagi og vinur!

Helgi Áss Grétarsson

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í morgun. Birt með leyfi höfundar. 

- Auglýsing -