Ólympíuskákmótið hefst í dag í Chennai á Indlandi. Upphaflega átti mótið að vera haldið í Moskvu en eftir innrás Rússa í Úkraínu var snarlega hætt við það. Indverjar tóku mótshaldið að sér með fjögurra mánaða fyrirvara og er skáksamfélagið þeim afar þakklát. Rússum og Hvítrússum er meinuð þátttaka. Kínverjar taka heldur ekki þátt en ástæðan þar er Covid.

Covid hafði líka áhrif á íslenska liðið. Vignir Vatnar Stefánsson átti að tefla á sínu fyrsta ólympíuskákmóti en þar sem hann greindist með Covid skömmu fyrir brottför íslenska hópsins voru góð ráð dýr. Svo fór að ákvörðun var um það tekin að liðsstjóri Margeir Pétursson yrði teflandi liðsstjóri. Þess má geta að Margeir tefldi á sínum fyrsta ólympíuskákmóti 1976 og tefldi samfellt á ólympíukákmóti í 20 ár. Það er  meira en aldarfjórðungur síðan hann tefldi síðast.

Lið Íslands í opnum flokki skipa eingöngu stórmeistarar

  1. Hjörvar Steinn Grétarsson
  2. Hannes Hlífar Stefánsson
  3. Guðmundur Kjartansson
  4. Helgi Áss Grétarsson
  5. Margeir Pétursson (jafnframt liðsstjóri)

Íslenska liðið er nr. 43 í styrkleiðaröð. Alls taka 188 lið þátt.

Kvennaliðið

  1. Lenka Ptácníková
  2. Jóhanna Björg Jóhannsdóttir
  3. Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir
  4. Lisseth Acevedo Mendez
  5. Tinna Kristín Finnbogadóttir

Liðsstjóri er Ingvar Þór Jóhannesson

Íslenska liðið er nr. 61 í styrkleikaröð. Alls taka 162 lið þátt.

Í fyrstu umferð teflir Ísland við Ghana  í opnum flokki en Barein í kvennaflokki. Bæði liðin er mun lakari en þau íslensku.

Samhliða mótinu fer fram FIDE-þing. Þar fara fram kosningar um embætti forseta FIDE. Núverandi forseti, Rússinn Arkady Dvorkovich, býður sig fram til endurkjörs og etur kappi við þrjá aðra frambjóðendur.

- Auglýsing -