Mynd: Lennart Ootes

Íslensku liðin unnu bæði 4-0 í fyrstu umferð Ólympíuskákmótsins í Chennai á Indlandi. Fyrsta umferðin er yfirleitt frekar ójöfn og langflestar viðureignir enduðu 4-0 fyrir „Golíat“ og mesta sem „Davíð“ náði var að tapa 1-3. Ekkert lið tapaði óvænt og flest óvænt úrslit voru jafntefli í einstökum skákum.

Opinn flokkur – Ghana

Okkar menn stigahærri á öllum borðum og enginn yfir 2000 stig hjá Ghana. Þeir eru þó þjálfaðir af Zoltan Ribli, gamla brýninu, og Ghanverjar voru lengi að sýna að þeir væru þetta stigalágir. Flestar skákirnar voru óafgerandi fyrir okkar menn inn í miðtaflið og það var ekki fyrr en síga fór á seinni hlutann þar sem að styrkleikamunurinn kom í ljós.

Hjörva jafnaði taflið nokkuð örugglega gegn nokkurs konar London-systemi með svörtu. Hjörvar fékk lengi vel ekkert til að bíta á en h4? í 17. leik var of mikil veiking og fljótlega eftir það fékk Hjörvar biskupaparið og svarta staðan sprakk út.

Hannes fékk á sig furðu menntaðan Spánverja og var lengi ekki með neitt með hvítu mönnunum. Seint í miðtaflinu fór reynslan að sýna sig og Hannes fór að gera sig breiðan á kóngsvæng og þá molnaði Ghanverjinn niður.

Hjörvar og Hannes einbeittir á efstu borðunum í fyrstu umferðinni gegn Ghana

Guðmundur á 3. borði var sá eini sem fékk tiltölulega auðveldan dag. Andstæðingur hans lék frekar illa að sér með 13.Be3? en sá leikur tapar einfaldlega liði. Eftirleikurinn varð nokkuð auðveldur.

Helgi fékk nokkuð fína stöðu út úr byrjuninni og ginnti svo andstæðing sinn í taktíska aðgerð sem var hálfgerður falskur fáni og Helgi var með tvo létta menn fyrir hrók.

 

Kvennaflokkur – Bahrain

Jóhanna tefldi á fyrsta borði í fyrsta skipti og fórst það verkefni vel úr hendi. Andstæðingur hennar tefldi byrjunina traust en snemma kom í ljós að hún var ekki með neitt plan í stöðunni og endaði á því að hafa flesta mennina í einum hnapp á drottningarvæng og þá hóf Jóhanna aðgerðir á kóngsvæng sem enduðu með máti.

Andstæðingur Hallgerðar tefldi nokkuð furðulega í byrjuninni með mikið af peðsleikjum en þegar miðtaflið hófst tefldi hún langt yfir sínum eló-styrkleika og hörkuskák varð niðurstaðan. Reynsla Hallgerðar varð þó ofan á og loks kom afleikurinn. Góð skák hjá Bahrain stelpunni en henn tókst ekki að „Najla“ sér í úrslit að þessu sinni.

Hallgerður hafði sigur í sinni skák á gömlu góðu seiglunni

 

Eins og við var að búast var byrjana taflmennska andstæðings Tinnu furðuleg líkt og á 2. borði. Tinna jafnaði taflið nokkuð auðveldlega og fékk betra en þá fór Alafoo að tefla furðulega vel og taflið tvísýnt. Tinna einfaldaði þá taflið og fékk loks fína taktík þar sem hún nýtti sömu leppunina tvisvar og hafði sigur.

Liss tefldi lengstu skákina. Hvítur hafði alltaf eitthvað betri stöðu en ekkert afgerandi og svartur komst inn í taflið eftir stöðulega slakan leik hvíts f4? Liss lét það ekki á sig fá og var fljót að hrifsa frumkvæðið aftur og tryggja 4-0 sigur.

Önnur umferð heldur áfram í dag, Mónakó í opnum flokki og Slóvakía í kvennaflokki. Áfram Ísland!

- Auglýsing -