Dagana 20.-30. júlí sat ég að tafli í íþróttabænum Pardubice í Tékklandi, á skákmótinu Czech Open. Ég kem til með að tefla í öðru móti í Prag á næstunni, og eftir það tek ég þriðja og síðasta mótið í þessu ferðalagi, í Króatíu. Í þessum pistli fjalla ég um Czech Open.

Mótið á sér um 30 ára sögu, og er afar vel sótt, þótt það hafi verið sterkara. Fyrir mótið hafði ég 2070 eló stig, en flokkurinn er fyrir skákmenn yfir 2100 stigum, og þá skákmenn með milli 1900 og 2099 stig, sem kjósa að tefla í A flokki. Fyrir mótið hef ég lagt áherslu á líkamlegt og andlegt atgervi, ásamt öguðum vinnubrögðum við skákrannsóknir upp á hvern dag. Á meðan móti stóð undirbjó ég mig skipulega og fór alltaf strax yfir skákina að henni lokinni. Hreyfingin samhliða mótinu voru sprettæfingar á nálægum frjálsíþróttavelli, ásamt sundi í 50 metra laug við hliðina á skákstað.

Hver skák var athyglisverð á sinn hátt og skilur mikið eftir sig, sama hver úrslitin voru. 3.5 vinningar af 9 er ekki mikið en góð niðurstaða á pappírunum. Ég græði rúm 30 stig. Mest græði ég samt auðvitað á skákunum sjálfum, og vonandi verða þessi litlu dæmi úr skákunum níu, lesendum til gagns og gaman. Maður cherry-pickar ekki skákirnar sem maður teflir á ferlinum og mér finnst best að segja örlítið frá þeim öllum. Það er sögufölsun að fjalla bara um það þegar vel gengur.

Tveir aðrir Íslendingar tefldu í mótinu, feðginin Helgi Pétur Gunnarsson og Iðunn Helgadóttir, en þau tefldu í B-flokki.

Helgi Pétur og Iðunn skoða skákir dagsins ásamt mér, á skákhótelinu

Að tefla upp á tvenn úrslit 

Í fyrstu umferð tefldi ég gegn þýska alþjóðlega meistaranum Ruediger Seder. Seder þessi einfaldlega teflir sinn Caro-Kan, drekkur sitt kaffi og er ekkert að flækja hlutina of mikið. Ég fékk biskupaparið og pressaði dálítið, þangað til varnirnar brugðust og upp kom unnið endatafl. 42. Hf6! setur svartan í algjöra leikþröng og eftirleikurinn var auðveldur. Gott að byrja mótið á traustum sigri. Aðeins tvö úrslit komu til greina alla þessa skák, ég náði að halda alþjóðlega meistaranum í skefjum alla skákina.

Hrókurinn skrúfaður á f6 reitinn

Þegar allt gengur upp 

Í annarri umferð tefldi ég gegn ungum Fide-meistara, Jakub Stinka. Hann tefldi meinlaust afbrigði gegn kóngsindverjanum og í 12. leik kom ég með nýjung í sjaldséðri stöðu, frekar einfaldan leik sem spyr hvítan spurninga. Andstæðingur minn hafði fá svör, og honum var eiginlega ýtt út af borðinu blessuðum. Leikurinn sem um ræðir er 12. Kf8! og í næstu stöðumynd má sjá stöðuna eftir 21 leik. Eins og sést var staðan fljót að hrynja eins og spilaborg.

Það eru veikleikar í hvítu stöðunni

Stundum er engin þekking betri en hálfþekking 

Ég var of bráður í þriðju umferð gegn Fide-meistaranum Peter Keller. Snemma tafls lék ég þematískum leik, 11.c5 sem er vissulega áhuagverður en hann kemur of fljótt í stöðunni, betra að huga fyrst að liðskipan. Reyndar er það oftast raunin hjá mér að þegar ég kem mönnunum út og hrókera áður en ég fer í beinar aðgerðir, þá næst oft árangur. Merkilegt!

Óttalegt pot, myndi einhver segja

Ég varðist vel og lengi í skákinni, og fórnaði skiptamuni til að hamla virkni svörtu mannana og ná vonandi að koma í veg fyrir einhvers konar gegnumbrot hjá svörtum. Ég hafði tækifæri til þess, en fann ekki leiðina. Til þess þurfti ég að raða mönnunum á þennan hátt: Biskup á c4, riddari á d3, og Kóngur sem er tilbúinn að koma yfir á e-línuna eftir uppskipti á hrókum. Þá vinna allar mennirnir saman við að loka stöðunni, svokölluð fortressa, eða virki.

Að búa til vandamál fyrir andstæðinginn 

Andstæðingur minn í fjórðu umferð var enn einn ungi Fide-meistarinn, Marek Mica. Þess má geta að fjórir af níu andstæðingum mínum eru yngri en ég, sem er athyglisvert í ljósi þess að ég er nú bara 23 ára og tel það nokkuð ungan aldur svona í stóra samhenginu. Ég var mjög úrræðagóður í þessari skák, vand með farin byrjun þar sem allt hangir á bláþræði, og eins og miðtaflið leit út á tímabili þá gat verið algjör harmleikur í uppsiglingu. En þótt að ljónið sofi stærstan hluta sólarhringsins, þá er það samt alltaf tilbúið til atlögu þegar færi gefast. Færið sem ég sá og ákvað að grípa var 24. Rxg4 en andstæðingur minn var þá með lítinn tíma á klukkunni. Fórnin er vafasöm, en það er líka vafasamt að vera með fáeinar mínútur á klukkunni eftir 24 leiki.

Ákveðin óþægindi

Sjáum stöðuna eftir 30 leiki, hér er tölvumatið 0.0. Hvort myndir þú kjósa hvítt eða svart í þessari stöðu? Svo fór að eftir 40 leiki var þráleikið, þar sem hvorugur gat haldið áfram. Góð björgun úr skelfilegri stöðu, sem gaf meira að segja vinningstækifæri.

Hvítur á leik og lætur ekki máta sig

Stórmeistarinn sem flaug of nálægt sólu 

Það er alltaf athyglisvert að tefla gegn stórmeisturum. Á móti svona fáráðlingum eins og mér, þá virðast koma til greina tvær mismunandi leikaðferðir, frá sjónarhóli stórmeistarans. Önnur er svokallaður drullukreistingur. Þá teflir stórmeistarinn traust, gefur engin færi á sér en er heldur ekkert að flýta sér í sókn. En þegar maður réttir þeim litla fingur taka þeir alla höndina og gott betur, og draga smám saman úr manni lífsviljann í endatafli þar til sigurinn er í höfn.

Hin leiðin, er einfaldlega að draga mann djúpt inn í síberíska skóginn þar sem 2+2 eru 5, rugla mann í ríminu, og afgreiða málið fljótt. „Helgarmótaaðferðin“ kýs ég að kalla hana, þar sem teflt er tvisvar á dag, og mikilvægt að spara orkuna og ganga frá andstæðingnum sem fyrst, formsatriði að vinna skákina. Ákveðnir Íkarusarkomplexar, vængirnir eiga í hættu á að bráðna!

Íkurus flaug of nálægt sólinni svo vængirnir bráðnuðu og hann hrapaði til jarðar

Stórmeistarinn Vojtech Plat gaf svo fáránlega mikil færi á sér í byrjuninni að það er eiginlega ekki fyndið. Ég vissi að ég væri með betra en kannski ekki svona mikið betra. Sjáum stöðuna eftir 13. leiki.

14.Bc4 er killer!

Hér stendur hvítur nánast til vinning eftir 14.Bc4 með hugmyndinni að taka riddarann og fara á g7, það skiptir ekki máli þótt e5 peðið falli. Ég lék 14.Rc4 sem er líka ágætis leikur. En síðan varð staðan jöfn, og nokkru síðar molnaði ég gjörsamlega niður og tapaði. Svekkjandi tap en vonandi næ ég að plata hann í næstu skák! (þessi 5 aur er fyrir þig, Gunni)

Að njóta þjáningarinnar 

Stundum kemur maður sjálfum sér í vandræði sem virðist vera ómögulegt að koma sér út úr. Þá er hægt að beita jákvæðri sálfræði, og einfaldlega njóta þess að halda sér fast, og reyna eftir bestu getu að gera andstæðingnum erfitt fyrir. Í skítastöðum er gott að minna sig á að skák er borðspil og úrslitin skipta engu máli. Þegar tilgangsleysi þess sem við gerum verður okkur augljóst, þá blasir bara við einn möguleiki: Njóta þess sem við gerum og gera sitt besta! Hvað er annað í stöðunni? Andskotann ekki neitt!

Í þessari stöðu, gegn Svíanum Vladan Nikolic, hafði ég talað mikið við mennina og þeir sögðu mér að þetta væru einu reitirnir í boði, og síðan þyrfti bara að halda sér fast. Reyndar hvíslaði g-peðið að mér að ef hvítur færi að virkja kónginn væri það til í að kíkja á g5 til að létta á stöðunni.

Hér sögðu mennirnir við mig „status quo“

Þess má geta að staðan er skíttöpuð eftir 37. g5 en aðeins ef hvítur leikur e6. Eftir uppskipti á miðborðinu komst ég í frekar slæmt hróksendatafl 1-2 peðum undir en ég náði samt að halda jafntefli, missti aldrei vonina!

Ég trúi varla að ég náði að bjarga þessu

Að redúsera prímítívt 

Alþjóðlegi meistarinn Ingi R. Jóhannsson heitinn á þennan frasa skuldlaust, og ég hefði betur átt að fara að hans ráðum í þessari skák. Gamli Gauti vaknaði upp í mér því miður í þessari skák og var of fljótur í beinar aðgerðir strax í byrjun þegar staðan óskar ekki eftir því. Leikurinn 10. e5 einfaldar stöðuna, peðsfórn sem skemmir peðastöðuna en það verða of mikil uppskipti. Hvítur hefur einhverjar bætur en ekki nægilegar. Pólskur andstæðingur minn tefldi framhaldið vandað og sigldi sigrinum heim í endatafli, þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir mínar til að reyna að bjarga þessu. Annar Marek, nú Kosiorek, hafði sigur.

Langa skákin 

Í áttundu umferð tefldi ég eina lengstu skák umferðarinnar. Byrjunarundirbúningur gekk upp, og upp kom þægilegt miðtafl þar sem ég hafði hvítt í Sikileyjavörn gegn ungum tékkneskum skákmanni, Petr Glozar. Í þunglamalegu miðtafli var erfitt að finna plön þrátt fyrir meira rými og heilt yfir betri stöðu. En 35. f4 var skelfilegur hjá svörtum. Nú gat ég einbeitt mér að drottningarængnum í ró og spekt, og engin dýnamík á kóngsvæng.

Nú getur hvítur einbeitt sér að drottningarvængnum

Ég var líka ánægður með 43. Db4! sem þvingar nánast kaupin því biskupinn á a2 má ekki taka vegna Rc3 og drottningin lokast inni. En þá er eftir endataflið!

Db4 er sniðugur leikur

Ég birti á Facebookhópnum íslenskir skákmenn stöðuna þar sem ég missti af flottum vinningi í 61. leik. Ég lék Hd5 sem er jafntefli. Hvítur á tvo leiki (sem breyta stöðunni) sem vinna, en samkvæmt tölvunum er bara annar þeirra sem gefur upp nokkuð rakinn vinning. Hd6 og b4 vinna báðir en 61. b4! er besti leikurinn. Lykillinn er að ná að virkja báða hróka hvíts, á sama tíma og samvinna svörtu hrókanna er hindruð. Lærdómsríkt!

Þegar ekkert gengur upp 

Stundum gengur allt upp, stundum, sumt og stundum ekkert. Ein skelfileg skák af 9 er kannski einni of mikið en gaman fyrir andstæðing minn sem er, viti menn, ungur Fide meistari, að vinna fljótt í lokaskákinni.

Eftir furðulega byrjun hjá báðum, en aðallega mér, hrundi allt frekar fljótt. En þá er bara að læra af því! Ég ætla ekki að fara að bera fyrir mig þreytu eða annað svoleiðis rugl, ef 23 ára maður er of þreyttur til að sitja á stól og hreyfa taflmenn 9 daga í röð, þá er eitthvað mikið að. Ég veit ekki alveg hvað skeði en svona er þetta, lífið er ekki alltaf dans á rósum! Hér er lokastaðan eftir 21 leik.

Hér er fátt um fína drætti, ekki einu sinni hægt að njóta þess að þjást

Endum á smá tölfræði úr mótinu!

Meðalaldur andstæðinga: 28

Meðal leikjafjöldi skáka: 44

Meðalstig andstæðinga: 2313

Árangur: 2233

Sjá nánar um árangur minn á chess-results.

Ég þakka lesturinn, vonandi var þetta ekki of langdregið. Næsta mót er Summer Prague Open sem fer fram dagana 5.-12. ágúst!

 

- Auglýsing -