Framundan er 9. umferð og lokasprettur á ólympíuskákmótinu. Í 8. umferð í gær voru strákarnir í opnum flokki í erfiðri viðureign gegn Serbum en stúlkurnar áttu frekar náðugan dag gegn Guatemala.

Opinn flokkur – Serbía

Serbarnir nr. 23 í stigaröð og því stigahærri en við á öllum borðum.

Hjörvar hefur alltaf fengið svart þegar við höfum teflt upp fyrir okkur. Taflmennskan hefur verið fín en vantað smá heppni. Í skákinni gegn Indic voru engin vandræði eftir byrjunina og Hjörvar með ívið betra ef eitthvað var. Stöðutýpa sem minnti mig t.d. á góða nýlega sigurskák Hjörvars með svörtu gegn Hannesi Hlífari. Í tímahraki náði Indic að snúa á okkar mann og tap á fyrsta borði staðreynd.

Skák Hannesar við Ivic var alltaf korter í jafntefli. Hannes verið traustur í undanförnum umferðum en kannski vantað örlítið í bitið.

Guðmundur fékk fína stöðu gegn rólegri uppstillingu hvíts. Upp kom kóngsindverji með skiptum litum. Líklegast var 13…Bxd3 ekki best í stöðunni en svartur er traustur eftir 13…b6. Markus vann lið í flækjum strax þar á eftir, lagleg flétta í raun og þar réðist skákin.

Helgi Áss hefur sýnt eitt besta baráttuþrekið í liðinu. Hann hefur oft bjargað erfiðum stöðum og gerði það í dag. Reyndar var hann lengi með fína stöðu og fékk örugglega fínan séns til að fá töluvert betra á einum stað með 30.Rxf4 en þess í stað fékk svartur líklegast unnið tafl en Helgi sýndi seigluna enn og aftur.

Enn eitt 1-3 tapið gegn sterkari sveit og enn og aftur voru færi til að gera betur og má segja að 1-3 hafi verið of stórt í öll skiptin miðað við þróun skákana.

Að öllum líkindum fær íslenska sveitin í opnum flokki annað tækifæri gegn stigahærri sveit og þar verður að nást sigur til að ná góðu lokasæti á töflunni. Til þess að gera það þarf að byrja á því að vinna brögðótta sveit Bangladesh í 9. umferðinni

Kvennaflokkur – Guatemala

Guatemala stúlkur voru töluvert fyrir neðan okkar sveit í stigaröð og kominn tími á góðan og öruggan sigur!

Jóhanna setti tóninn snemma á 2. borði. Byrjunin misheppnaðist örlítið en andstæðingurinn nýtti sér það ekki og þegar Jóhanna landaði taktísku skoti á e5 reitnum var ekki aftur snúið og öruggur sigur í hús.

Hallgerður fékk mjög fínt tafl úr byrjuninni. Andstæðingur hennar leyfði hvítum full auðveldlega að fá allt miðborðið og svo fékk hvítur gott rými á kóngsvæng og menn svarts svolítið fastir á kóngsvæng. Hallgerður fór þá af stað í aggressífa kóngssókn, bauð meðal annars upp á skiptamun fyrir andstæðinginn. Svartur kom engum vörnum við. Flottur sigur og 2-0

Lenka var alltaf með betra tafl á fyrsta borði gegn rólegri „setup“ taflmennsku Mazariegos með svörtu. 1.e4 e5 2.Rf3 De7 sést ekki oft en svartur var að stilla upp í hálfgerðan Philidor og taka að auki á sig temótap, Dd8-e7-c7. Skákin að mestu vel útfærð hjá Lenku en tók þó alltof langan tíma í byrjuninni og hafði eytt um klukkutíma í 11. leik sem er einfaldlega of mikið. Þetta hefði getað kostað þegar andstæðingurinn missti af taktísku skoti á g3 eftir 36.Red4. Slíkt hefði mátt forðast með meiri tíma á klukkunni. Mátnetið í lokin var nett og taktíkin sem þvingaði uppgjöfin. 3-0 fyrir okkur!

Liss gerði jafntefi á 4. borði. Andstæðingurinn kom aðeins á óvart í byrjuninni en Liss var með fína stöðu en missti af nokkrum fínum leikjum, c6!? á réttum stað, exf4!? og aðallega 20…Rxf4! Eftir það sat hún upp í stöðu með minna rými og í endataflinu hefði hvítur átt að standa til vinnings þó staðan væri lokuð. Jafntefli því fín niðurstaða í lokin.

Góður sigur sem færir okkur erfiðan andstæðing, Brasilíu í 9. umferðinni.

Indland II slátrar Bandaríkjunum!

Bandaríkjamenn virðast vera að heltast úr lestinni en þeir lentu í Gukesh-hraðlestinni í 8. umferðinni og hinum indversku kjúklingunum í Indland II. 1-3 tap og Gukesh heldur áfram að ná í fyrirsagnir en hann er nú með 8 vinninga úr 8 skákum eftir að hafa lagt Caruana í gær.

Armenar halda velli í efsta sætinu og menn verða að spyrja sig, geta þeir haldið þetta út? Spennan er orðin rosaleg á toppnum! Ungt lið Úzbeka fær Armena í 9. umferðinni þar sem Abdusattorov reynir að halda áfram sínu góða gengi.

Indverjar eru efstir í kvennaflokki með 15 stig af 16 en Georgía og Úkraína reyna að halda í við þær. Georgía og Úkraína mætast einmitt í dag í mikilvægri viðureign, vægast sagt!

- Auglýsing -