Dagana 5.-12. ágúst tók ég þátt í skákmótinu Summer Prague Open. Þetta er annað mótið mitt af þremur í skáksumrinu mikla hjá mér, og eina opna mótið. Í fyrra mótinu tefldi ég í +2000 flokki og í því næsta tefli ég í 2000-2299 flokki. Opin mót geta verið dálítið vandasöm, og ég slapp lifandi úr þessu, þrátt fyrir ýmis glötuð tækifæri, bæði hjá mér og andstæðingum mínum! Strax í fyrstu umferð kom upp taugatrekkjandi staða.

Skák hinna glötuðu tækifæra: 1. umferð, svart gegn Matayas Dvoracek (1697)

Tékkinn ungi hafði teflt nokkuð traust gegn hraustlegri taflmennsku minni, og það fór að hlakka í mér þegar manninum tókst loksins að rifja upp mannganginn og hrókera, þá fékk ég loksins target í stöðunni! Opinn h-lína bauð upp á dulítið úðunarsystem og upp kom þessi skemmtilega staða:

Hér lagðist ég yfir stöðuna og ætlaði að staðfesta útreikninga mína. En ég lenti á villigötum. Ég hélt að Dg4+ hlyti að vera leikurinn og af fimm svarleikjum var nokkuð auðvelt að finna fjóra þeirra. Þeir eru eftirraldir:

1.Ke3-He5+ 2.Kd3-Dd4#

1.Kd3-Dg6+ 2. Ke3-He5+ með máti í næsta leik

1.Df4-He5 2.Kd3-Dxe2+ 3.Kd4-Hc4+!-bxc4 4.Dxc4#

1.f4-He5+ 2. Kd3-Df5+ 3.Kd4-De4#

EN! Ég gat ekki reiknað til enda hvað gerðist eftir 1.Rf4, og ég treysti mér ekki að gefa mann og annan ef ég sá það ekki enda í máti. Þannig að ég skákaði á e5 strax, kóngurinn fór til baka á f3 og ég tefldi skákina þremur peðum undir. Það er, þangað til andstæðingur minn lék sig í mát, sem var nokkuð óheppilegt fyrir hann. En hér kemur línan sem ég sá ekki til enda!

1.Rf4-He5+ 2. Kd4-Hxd5! 3. Kxd5-Df3+ 4.Kxd6-De4! og hvítur getur ekki komið í veg fyrir mát í næsta leik. Hér er staðan:

Mikilvægi góðra útreikninga í skák: 2. umferð, hvítt gegn FM Daniel Sorm (2308)

Í annarri umferð tefldi ég gegn manni á viskualdrinum sem hefði hæglega getað unnið mig í sjómann með litlafingri. Auk þess var hann með öfuga derhúfu (og hann púllaði það!) þannig að ég vissi að þetta gæti orðið erfið skák. Hún var það svo sannarlega, og maðurinn yfirspilaði mig einfaldlega. Eins og sést á stöðumyndinni var síðasti leikur hans Hc7-c4. Einfalt vinningsplan hefði hins vegar verið að skipta upp á hrókum – skipta síðan upp á f3 og gera þannig frípeð á h-línunni og einangra f3 peðið mitt – fara með kónginn inn í stöðuna og það er erfitt að eiga við bæði veikleikana á c3 og d4 og frípeð svarts. En eins og góður maður sagði: Maður fær alltaf einn séns! og eftir Hc4 fann ég sénsinn minn og dúndraði út næstu leikjum:

1.fxg4-Bxd4 2.gxh5+-Kxh5 3.Hxc4-dxc4 3.Bf2-Bxb2 4.Bxa7-c3 5.Bd4!-Ba1. Hér hélt hann kannski að hann hefði leikið á mig. En ég á 6.Be3! og hóta því að fara á c1. Eftir Bb2 til baka kemur einfaldlega aftur Bd4, og jafntefli er niðurstaðan!

Stórar spurningar sjálfan mig spyr: 3. umferð, svart gegn FM Gustav Brejnik (2300)

Þessi skák skipti nokkrum sinnum um eigendur eftir miklar flækjur þar sem ég þurfti að gefa tvo menn fyrir hrók en var þess í stað með vígaleg frípeð á drottningarvæng. Verst að andstæðingur minn var líka með hættlegt frípeð. Ég tefldi ónákvæmt í mjög vand með farinni stöðu þar sem tölvan sýndi í sumum tilvikum eina leið sem vann á mig meðan allar aðrar töpuðu, enginn millivegur. Fyrsti sénsinn var að leika h6 í stað f6, en eftir uppskipti á f6 fékk ég samt annan séns sem ég var afar leiður með að hafa ekki farið í eftir skákina.

Hér lék ég Hc3 sem tapar en auðvitað er He1+ miklu betri leikur, þvingaður leikur og valdar fyrstu reitaröðina. Í raun fáránlegt að leika honum ekki. En það sem meira er, leikurinn vinnur! Þessi atburðarás sem tölvan sýnir er ansi skemmtileg:

1.He1+-Kh2 2.Ke8-Be3 3.a4-d6 4.Kd7-h4 5.Hxd3!-Bh3+ 6.He6-Bxe6+ 7.Kxe6 7.d7 8.Hxf2+-Kh3 9.Hf8-d8=D 10.Hxd8-Hxd8 11.b3-Hb8 12.a3-Hxb7-a2! og svartur vinnur út af einu tempói, takk fyrir. Nei ég sá þetta ekki. Hér er stöðumyndin eftir þessar miklu flækjur:

Nýr maður, sömu gömlu mistökin: 4. umferð, hvítt gegn Pawel Brylski (1920)

Þetta var eini tvöfaldi dagurinn og fyrri skákin hafði verið löng og erfið, og tapskák í þokkabót. En hann tefli byrjunina furðulega og ég svaraði af krafti, ýtti miðborðspeðunum bókstaflega út í opinn dauðann og þannig opnuðust flóðgáttirnar að svarta kónginum á e8. Í þessari stöðu var ég þó of bráður á mér.

Hér drap ég á a5 og lék síðan He1 og hlóð á e-línunna og reyndi að virkja mennina. Það tókst ágætlega, en svartur náði að redda sér með því einfaldlega að hrókera og vera peði yfir, með allt miðborðið, og vinna skákina að lokum. Skákin er enn í jafnvægi að vísu eftir Bxa5 en eftir He1! strax, þá segir tölvan +4.5! Hótunin er sterkari en leikurinn. Af hverju geri ég sjálfum mér þetta? Hvað er að? Kannski spilar inn í að vera kominn á sjöundu klukkustund taflmennsku þennan daginn, eða bara ekki nægilegur skilningur.

Platan Currents með Tame Impala er ágæt, textarnir oft nokkuð djúpir. Ákveðnar línur úr laginu „New Person, Same Old Mistakes“ ómuðu í kollinum mínum þegar það fór að skýrast að þessi skák myndi tapast hjá mér, og þá tengdi ég textann við ákvarðanatöku í skák:

I finally know what it’s like (You don’t have what it takes)
(Stop before it’s too late)
(I know there’s too much at stake)
(Making the same mistakes)
And I still don’t know why it’s happening
(Stop while it’s not too late)
And I still don’t know

Þetta tengist vel óvissunni – sem má þó ekki breytast í hræðslu. Maður má ekki ganga svo langt að hætta að treysta útreikningunum sínum bara út af gömlum mistökum. Það er í lagi að vera hissa og óánægður þegar svona mistök koma upp aftur, ef það leiðir til þess að maður staldrar betur við þegar svipaðar stöður koma upp síðar. Maður getur kannski ekki útrýmt mistökum, en maður getur gert þáu sjaldséðri.

Einnig fannst mér þessar línur skemmtilegar í því ljósi að treysta innsæinu, eins og ég hefði kannski átt að gera í fyrstu umferð með Dh4+ og þeim flækjum sem því fylgdu.

The point is, I have the right
Not thinking in black and white
I’m thinking it’s worth the fight
Soon to be out of sight
Knowing it all this time
Going with what I always longed for

Þessi dagur var einfaldlega slæmur og nú taka við skákir við stigalægri skákmenn. En ljósið í myrkrinu er þó, að einu skákirnar sem ég tapaði í mótinu voru í 3. og 4. umferð, á þessum blessaða tvöfalda degi. Blæðinguna þurfti að stöða strax, og berjast síðan við að rísa upp úr drullunni og nálgast live-borðin að nýju.

Hvað er ég eiginlega að gera hérna? 5. umferð svart gegn Petr Hoke (1917)

Ég skildi ekki alveg þessa skák. Eins og kannski gerist eftir erfiðan dag var ég ekkert sérlega áhættusækinn og lék bara eðlilegum leikjum. Andstæðingur minn tefldi hins vegar hratt og virtist ólmur vilja skipta upp á mönnum, en á móti kemur var ég lítið að reyna að hræra í stöðunni. Í symmetrískri stöðu þar sem andstæðingur minn er með meira rými ákvað hann svo allt í einu að bjóða jafntefli, sem ég bara þáði. Ég hefði svosem getað teflt þessa steindauðu stöðu eitthvað lengur en lét það vera. „What is this“ hugsaði ég þegar við árituðum skorblöðin, við Petr svikum Cassiu í sameiningu, í þessari ómerkilegu skák.

Hann slapp með skrekkinn! 6. umferð, hvítt gegn Frantisek Korenek

Ég fékk gríðarlega stöðulega yfirburði gegn Korenek þessum, enda tefldi ég betur, en ég var líka meðvitaður um mikilvægi þess að halda svörtum í skefjum í stöðunni. Svartur er búinn að planta drottningunni sinni djúpt inn í stöðu hvíts en hún á samt alveg reiti, er ekki beint föst. Best er einfaldlega bara að tefla stöðuna og vera ekkert að pæla of mikið í drottningunni, hér hefði til dæmis b5 verið sterkur. Be5 reyndust vera dýkeypt mistök því eftir að svartur náði að skipta upp á riddaranum sínum fyrir svartreitabiskupinn minn fór allur broddur úr stöðunni og eftir nokkra leiki kom upp mislita biskupaendatafl þar sem jafntefli var samið. Frekar ómerkileg staða hjá mér í mótinu, eftir tvö töp á tvöfalda deginum tóku við tvær jafnteflisskákir við töluvert stigalægri menn. En það er alltaf hægt að eiga góðan lokasprett!

Undarlegt endatafl! 7. umferð, svart gegn Kristian Aura (1885)

Í þessari stöðu skiptist fljótt upp í endatafl sem var í góðu lagi mín vegna, því mér fannst endataflið vera heldur vænlegra á mig. Svona var staðan strax eftir 14. leiki.

Ég vann þessa skák á nokkuð sannfærandi og fátt um mistök af minni hálfu. En á einum tímapunkti sá ég leið sem ég hélt að myndi bjarga hvítum, og með biskupauppskiptum á g4 kæmi upp peðsendatafl þar sem ég væri peði undir, ég færi nú ekki að hætta mér í það.

En raunin er að í þessari stöðu, þegar svartur á leik, er svartur með kolunnið! Kóngurinn labbar á d7, síðan kemur c6 og svartur nær að útbúa frípeð og vinna á einu tempói. Það tekur svo mikinn tíma fyrir hvítan að eltast við h4 peðið og fara svo til baka, hafandi ekkert gegnumbrot á kóngsvæng!

Fréttablaðsleikurinn! Hvítt gegn Piotr Brezezina (1646)

Í næstsíðustu umferð var ég paraður gegn 11 ára andstæðingi sem tók með sér rúm 120 stig eftir þetta mót. Ég náði tökum á c-línunni og var einhvern veginn alltaf með frumkvæðið eftir trausta byrjun. Hann eyddi mjög miklum tíma í að reyna að finna bestu leikina, sem honum tókst framan af, en Kf6 var dýrkeyptur afleikur. Honum var svarað með Bxa6! og svarta staðan hrynur algjörlega! Jæja, ég ætlaði loks að ná því að redda þessu móti fyrir horn!

Ertu að missa af strætó? Svart gegn FM Karsten Hansch (2320)

Andstæðingur minn í lokaskákinni var greinilega að missa af strætó (eða lest eða sporvagni, hér eru mjög öflugar almenningssamgöngur!) og lék alltaf strax, framan af nokkuð góðum leikjum, og var minnir mig með 1:27 á klukkunni eftir 30 leiki. Hann kunni byrjunina betur en ég, þekkti betur miðtaflsstöðuna og var algjörlega með mig í vasanum. Hér komu þó lítiilvæg mistök:

Hvítur er með kolunnið. Hd2 var samt algjörlega óþarfi, nú á ég Bc5 og Be3 og vinna allavega peðið til baka þótt ég sé nú enn skiptamuni undir. Hann hélt áfram að leika strax, þangað til hann lokaði einhvern veginn annan hrókinn sinn inni, og upp kom mislitla biskupaendatafl sem ég náði auðveldlega að halda jafntefli. Fyrst og fremst furðuleg skák, en ætli ég sé ekki sáttur með jafnteflið, þó að andstæðingur minn hafi fært mér það á silfurfati!

Næsta mót á dagskrá hjá mér er Evrópumót áhugamanna, elo-flokkur 2000-2299, í Zagreb, Króatíu. Mótið hefst þann 14. ágúst.

Ég þakka lesturinn!

Gauti Páll Jónsson

- Auglýsing -