Með tilkomu á beinu og hagstæðu flugi Play til Gautaborgar, þá streymdu íslenskir skákmenn og skákkonur á alþjóðlega helgarskákmótið Kvibergsspelen 2022 sem haldið var dagana 30. september – 2. október. Íslensku þátttakendurnir á mótinu komu frá Skákdeildum Fjölnis og Breiðabliks, 34 ungir og efnilegir skámenn á aldrinum 9 – 31 árs. Með í hópnum var annar eins fjöldi foreldra og liðsstjóra.

Skákdeild Fjölnis hefur allt frá árinu 2012 boðið ungmennum deildarinnar ókeypis þátttöku á skákmótum í Svíþjóð og notið til þess styrkja frá Skáksambandi Íslands og Svensk-isländska samarbetsfonden.

Fjölnishópurinn var tvískiptur. Annars vegar reynslumiklir skákmenn og skákkonur á þrítugsaldri og hins vegar stúlknahópur á barnaskólaaldri.

Fyrri hópurinn, þau Oliver Aron, Hörður Aron, Dagur Andri, Tinna Kristín, Hrund og Lisseth, tefldu í aðalflokki mótsins og náðu fimm þeirra að hækka sig umtalsvert á stigum bæði í keppnisskákunum (90) og atskákunum (80). Þessi flotti hópur myndar að stærstum hluta B sveit Fjölnis sem teflir í 2. deild á Íslandsmóti skákfélaga nú í október.

Stúlknahópurinn ungi er ekki minni afrekshópur. Þetta eru stelpurnar úr Rimaskóla sem unnu alla flokka í Reykjavíkur-og Íslandsmóti grunnskóla í stúlknaflokki á síðasta vetri. Þær kostuðu ferðina sjálfar með því að sjá um veitingasölu í Egilshöll á Íslandsmóti skákfélaga. Stelpurnar voru flestar að fara í sína fyrstu keppnisferð erlendis á skákmót og öfluðu sér reynslu. Ferðin til Gautaborgar var ekki síður skemmtiferð í fylgd með mæðrum sínum. Verður að segjast að bæði þessi markmið ferðarinnar hafi náðst með miklum ágætum.

Gist var á Kviberg-Park hótelinu, stærðar mannvirki sem auk þess að vera hótel er „Egilshöll“ með fótbolta-hand-og körfuboltavöllum, líkamsrækt og gönguskíðabrautum. Eins og á öðrum Grand Prix skákmótum í Svíþjóð var skipulag mótsins gott og aðstaða til taflmennsku með besta móti.

Fararstjóri hópsins var Helgi Árnason formaður Skákdeildar Fjölnis. Hann naut aðstoðar 9 mæðra. Með Breiðablikshópnum var Björn Ívar skákkennari Rimaskóla sem fylgdist líka með okkar krökkum og gaf þeim oftar en ekki góð ráð.

- Auglýsing -