
Ófrávíkjanleg regla sem varðar röðun taflmanna í Fischer-random, sem líka hefur fengið nafnið Chess 960 eða Chess 9LX, varðar stöðu kóngsins. Hann skal vera staðsettur milli hrókanna svo hrókering geti átt sér stað á „drottningarvæng“ eða „kóngsvæng“ þ.e.a.s. svæðinu sem við skilgreinum út frá hefðbundnu upphafsstöðunni.
Á tæknifundi fyrir heimsmeistaramótið var lögð áhersla á að allar venjulegar skákreglur væru í gildi; vilji menn hrókera má kóngurinn t.d. ekki fara yfir valdaðan reit og það má heldur ekki hrókera úr skák. Nú skyldi maður halda að heimsmeistari í greininni væri með þetta á hreinu. En þá gerðist einkennilegt atvik:
HM í Fischer-random 2022:
Nepomniachtchi – So
Þessi staða kom upp eftir 18. leik Nepo, Da2-a8+ . Riddari Rússans hafði ógnað drottningu So sem vék henni frá c8 til e6, en ekki til c6 sem var betra. En hann taldi sig geta svarað drottningarskákinni með því að hrókera. Það myndi þá gerast þannig að kóngurinn stykki yfir hrókinn og beint í skjólið á g8. Nepo benti mótherja sínum á að slíkt samræmdist ekki reglunum. Nú var kallaður til dómari sem úrskurðaði þegar í stað að „hrókering“ væri ólöglegur leikur og svartur gat því aðeins borið fyrir skákina sem þýddi liðstap og vonlausa stöðu. So gafst upp en áskildi sér rétt til að áfrýja dómnum til æðra dómstigs. En hann tók samt úrskurðinum með brosi á vör.
Miklir erfiðleikar strax í byrjun tafls
Ég ræddi örlítið um þessa nýju keppnisgrein við Peter Heine Nielsen sem verið hefur aðstoðarmaður Magnúsar Carlsen til margra ára. Hann kvað skjólstæðing sinn hrifinn af þessu keppnisformi en taldi að menn þyrftu miklu meiri tíma til að átta sig á stöðunum en þær 25 mínútur + 5 mínútur og 5 sekúndna viðbót eftir 30 leiki sem eru tímamörkin á mótinu. Sumar byrjunarstöður eru afar krefjandi og furðu algengt að menn séu komnir með óteflandi tafl eða tapað eftir 5-10 leiki!
Úsbekinn Abdusattorov tefldi á 1. borði fyrir lið Úsbekistans sem vann til gullverðlauna á síðasta ólympíumóti. Það er ekki ólíklegt að þessi ungi piltur eigi eftir að ná langt en hann var nú samt með tapað tafl í tveimur skáka sinna gegn Hjörvari Steini sl. fimmtudag. Lítum á fyrri skákina:
HM í – Fischer-random 2022:
Hjörvar – Abdusattorov
Í þessari skák var hvítur kominn með unnið tafl eftir 10 leiki! Ekkert lagaðist staðan í næstu leikjum en það er athyglisvert hvernig „vélarnar“ meta þessa stöðu. Hjörvar lék 13. Rc5 og hélt vinningssstöðu en „Stockfish“ hrópaði á 13. Re4! sem „vél“ greinarhöfundar telur lakari leik. Þá getur svartur ekki leikið 13. … axb3 því að svarta staðan er alveg vonlaus eftir 14. Rxf6 ásamt 15. dxe5 og peðaflaumur hvíts gerir út um taflið. Framhaldið varð 13. … Bxc5 14. dxc5 Hxd5 15. Re4 Dg7 og nú vildi Hjörvar koma kónginum í skjól og hrókeraði langt, 16. O-O-O. Slíkan leik má kalla vanviðbrögð og þau voru stærstu mistök Hjörvars í þessari skák. Svartur lék 16. … Hxd1+ 17. Hxd1 O-O-O! og staðan er í jafnvægi. Eftir 16. b4! eða fyrst 16. Bf2 og síðan b2-b4 er svarta staðan strategískt töpuð því allir menn svarts eru bundnir í báða skó.
Hrókeringar – löglegar eða ólöglegar – voru því miklir örlagavaldar sl. fimmtudag!
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 29. október 2022.