Íslenski hópurinn Ísland á 16 þátttakendur á EM í Tyrklandi. — Ljósmynd/Omar Salama

Á Evrópumóti ungmenna sem stendur yfir þessa dagana í Antalya í Tyrklandi eru þeir líklegastir til að ná einu af toppsætunum, Alexandr Domalchuk Jónasson, sem hlotið hefur fjóra vinninga af fimm mögulegum, og Benedikt Briem, sem er með þrjá vinninga. Tefldar verða níu umferðir á mótinu. Þessir tveir hafa báðir öðlast mikilvæga reynslu á erlendum vettvangi undanfarið og það hefur skilað sér.

Alexandr Domalchuk Jónasson, sem teflir í flokki keppenda 18 ára og yngri, á úkraínska móður og íslenskan föður. Hann hefur alið allan sinn aldur í hinni frægu borg Odessa, sem er í suðurhluta Úkraínu, og hefur eins og margir frá þeim slóðum orðið að yfirgefa heimahagana eftir innrás Rússa. Vilji hans til að tefla fyrir Íslands hönd kom samt fram áður en til þeirra atburða kom. Hér er greinilega kominn framtíðarmaður í landslið Íslendinga. Fagmennska hans er eftirtektarverð. Alexandr vann skák sína í 5. umferð sl. fimmtudag og er þegar þetta er ritað aðeins ½ vinningi á eftir efstu mönnum og situr í 4.-8. sæti af 85 keppendum. Meðal átta efstu eru fjórir Rússar sem allir tefla undir fána FIDE.

EM ungmenna 2022; 5. umferð;

Alexandr Domalchuk Jónasson – Olexiy Biltsj (Úkraína)

Kóngsindversk vörn

1. d4 Rf6 2. c4 g6 3. Rc3 Bg7 4. e4 d6 5. h3 0-0 6. Bg5 Ra6 7. Rf3 5 8. d5 De8 9. g4 Rc5 10. Rd2 a5 11. Be2 Bd7 12. Be3

Hugmyndin með þessum leik er m.a. að leika 13. g5 og hrekja riddarann til h5. Alexandr átti von á því að drottningin myndi rýma svæði sitt á e8 en þá kom óvæntur peðsleikur …

(STÖÐUM 1) 12. … c6? 13. g5! Rh5 14. Bxc5 dxc5 15. Bxh5 gxh5 16. Dxh5 f6

Kannski hélt hann að biskuparnir myndu vega upp peðstapið en annað kemur á daginn.

17. Dxe8 Be8 18. h4 Bh5 19. Ra4 cxd5 20. cxd5 f5 21. f3?!

Með þessum eilítið ónákvæma leik fær svartur eina tækifærið í skákinni til að rétta sinn hlut.

21. … fxe4 22. fxe4

(STÖÐUM 2) 22. … c4?

Eina vonin fólst í 22. … Hf4!, t.d. 23. Rxc5 Hg4! með þeirri hugmynd að koma hróknum til g2.

23. Rb6! Ha6 24. Rbxc4 b5 25. Re3 Hc8 26. 0-0 h6 27. Hac1 Hf8 28. Hc6 Hxc6 29. dxc6

– og svartur gafst upp. 29. … Hc8 er svarað með 30. Rd5! o.s.frv.

Íslendingar eiga 16 keppendur í samtals átta aldursflokkum af 12. Það hefur auðvitað gengið á ýmsu en langflestir íslensku krakkanna eru að tefla í keppni af þessum gæðaflokki í fyrsta sinn. Það hefur sýnt sig að reynslan í slíkum keppnum er geysilega mikilvæg og gott veganesti. Tyrkirnir slá öllu við hvað varðar skipulag og aðbúnað í sólinni í Antalya og hefur greinarhöfundur ekki kynnst öðru eins af þessum vettvangi og hefur þó víða ratað.

Að lokum skemmtileg endalok úr 3. umferð í stúlknaflokki 12 ára og yngri. Benedikt Briem á systur í mótinu, Guðrúnu Fanneyju Briem. Þau eru bæði markverðir í yngri flokkum HK. Þótt það sé aukaatriði þarf engu að síður snögg viðbrögð til að verja eftirfarandi stöðu:

EM ungmenna 2022; 3. umferð:

(STÖÐUMYND 3) Kayla Zeybek (Tyrkland) – Guðrún Fanney Briem

Í síðustu leikjum hafði hrókur Guðrúnar hafði verið að eltast við drottningu hvíts sem sá sér leið til að binda enda á það ferli með því að víkja frá g6 til f6. Svæsin leppun blasir við. Öll nótt virðist úti en þá hófst svarta drottningin á flug …

56. … Dh3+! 57. Hxh3

– Svartur er patt. Jafntefli!

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 12. nóvember 2022.

- Auglýsing -