Skákmeistari Kópavogs Vignir Vatnar Stefánsson með bikarinn. — Ljósmynd/Ingibjörg Edda Birgisdóttir

Guðmundur Kjartansson og Vignir Vatnar Stefánsson urðu jafnir og efstir á Skákþingi Kópavogs sem lauk um síðustu helgi. Þeir hlutu báðir 5½ vinning af 7 mögulegum en Guðmundur var hærri á mótsstigum og telst því sigurvegari mótsins. Vignir Vatnar hafði þó þann ás upp í erminni að eiga lögheimili í Kópavogi og hreppti því sæmdarheitið Skákmeistari Kópavogs 2022. Dagur Ragnarsson átti einnig möguleika á sigri; hann var jafn Vigni fyrir lokaumferðina en tapaði fyrir Halldóri Grétari Einarssyni og varð þriðji á stigum en var jafn Halldóri og Ingvari Wu Skarphéðinssyni að vinningum. Vignir Vatnar gerði á sama tíma jafntefli við Benedikt en Guðmundur vann þá Gunnar Erik Guðmundsson og náði þar með Vigni að vinningum.

Mótið, sem haldið var í samkomusal Blika í Fífunni, fór fram með því fyrirkomulagi að fyrst voru tefldar þrjár atskákir og síðan fjórar kappskákir. Það dró til sín marga af bestu ungu skákmönnum okkar en keppendur voru 29 talsins.

Þá lauk U-2000-móti Taflfélags Reykjavíkur sl. miðvikudag. Það var einnig vel skipað ungum skákmönnum. Efstir urðu Sigurjón Jón Friðþjófsson og Davíð Kjartansson sem hlutu báðir 6 vinninga af 7 mögulegum.

Jón Kristinsson hlaut borðaverðlaun á EM öldungasveita

Íslendingar hafa alltaf annað veifið verið með á alþjóðlegum öldungamótum í seinni tíð þá helst í sveitakeppnum, t.d. heimsmeistara- eða Evrópumótum öldungasveita, nú síðast í Dresden þar sem við stilltum upp liði á flokki keppenda 65 ára og eldri. Sveitin endaði í 20. sæti. Jón Kristinsson hlaut silfurverðlaun fyrir frammistöðu sína sem 1. varamaður.

Á heimsmeistaramóti öldunga, þ.e. einstaklingakeppni, teflir Henrik Danielsen, nú búsettur í Danmörku, undir fána Íslands í flokki keppenda 50 ára og eldri. Í flokki 65 ára og eldri áttu flestir von á auðveldum sigri John Nunn og hann var á góðri leið eftir sjö umferðir efstur með 6½ vinning. En þá mætti hann góðkunningja okkar frá Danmörku, Jens Kristiansen:

HM-öldunga 2022; 8.umferð:

Jens Kristiansen – John Nunn

Kóngsindversk-vörn

1. Rf3 Rf6 2. d4 g6 3. Bg5

Sniðgengur alfaraleiðir. Skynsamlegt, því að Nunn þekkir teóríur Kóngsindverjans út og inn og hefur ritað mikið um efnið.

3. … Bg7 4. Rbd2 d5 5. e3 O-O 6. Bd3 c5 7. c3 Db6 8. Db3 De6

Dálítið skrýtinn leikur en ekki slæmur. Aðrir möguleikar voru 8. … c4 eða 8. … Rc6.

9. c4 cxd4 10. Rxd4 Dg4 11. Bxf6!?

Jens lék þessu glaður. Nú gat svartur svarað með 11. … Bxf6 og hefur þá heldur betra tafl að mati „vélanna“sem voru fyrst í stað á þeirri „skoðun“ að 11. … Dxg2 væri einnig ágætis leikur. John Nunn, sem 15 ára gamall, fékk inngöngu í stærðfræðideild Oxford-háskóla, sá yngsti frá lokum miðalda, lagði nú höfuðið í bleyti og lék …( STÖÐUMYND 1 )

11. … Dxg2?! 12. Bxg7 Dxh1+ 13. Ke2 Dxa1 14. Bxf8 Kxf8?

Hann gat haldið jafnvægi með 14. … e5 sem leiðir til afar flókinnar stöðu eftir 15. Rf5!?

 

 

 

 

15. Bb1! ( STÖÐUMYND 2 )

Skyndilega er drottningin lokuð af. Hvítur hótar 16. Rc2.

15. … Bg4+ 16. f3 Bf5 17. Rxf5

Einfaldast. Gott var einnig 17. Dc3!? Eða 17. Bxf5.

17. … gxf5 18. Dxb7 dxc4 19.Bxf5 Kg7 20. Rxc4 Dg1 21. Dxa8 Dxh2+ 22. Kd3 Ra6 23. Dxa7 Rb4+ 24. Kc3

– og svartur gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 26. nóvember 2022.

- Auglýsing -