Skákhátíð Fulltingis var sett með hátíðlegri athöfn mánudagskvöldið 9. janúar í safnaðarheimili Vídalínskirkju í Garðabæ. Eftir að skákmenn og gestir höfðu gætt sér á ljúffengum veitinum, töfruðu feðginin Anna Bjarnsteinsdóttir og Bjarnsteinn Þórsson fram ljúfa tóna, þar sem hún söng við undirleik föður síns.
Þessu næst tók bæjarstjóri Garðabæjar, Almar Guðmundsson, til máls. Hann lauk lofsorði á hið öfluga framtak Taflfélags Garðabæjar og þakkaði Fulltingi stuðninginn við skákhátíðina. Almar vakti líka athygli á því að það væri ekki sjálfgefið að félag á borð við TG væri með 500 félagsmenn í bæjarfélagi á stærð við Garðabæ. Í lokin hvatti hann skákmenn til dáða og hét áframhaldandi góðu samstarfi bæjaryfirvalda við Taflfélag Garðabæjar sem staðið hefur í nærfellt 40 ár.
Þá var komið að forseta Skáksambands Íslands, sem fagnaði því að skákhátíðin væri vakin til lífsins undir öflugum formerkjum TG. Skákhátíðin væri mjög mikilvægur hluti af skáklífi hér á landi enda eitt allra sterkasta kappskákmótið innanlands. Þá fór hann góðum orðum um bakjarl hátíðarinnar, Fulltingi, sem hefði reynst skákmönnum vel í kjölfar slysa varðandi rétt þeirra til slysa- og skaðabóta. Því væri vel við hæfi að skákmenn og Fulltingi ættu samleið á nýjum nótum.
Loks renndi skákstjórinn og formaður TG yfir reglur mótsins en setningarathöfninni lauk með því að Almar Guðmundsson, bæjarstjóri, og Agnar Þór Guðmundsson, fulltrúi Fulltingis, léku fyrsta leikinn á fyrsta og öðru borði.
Hart var barist í báðum flokkum. Fyrstir til að ljúka sinni skák í A-flokki voru þeir Vignir Vatnar og Stefán Bergsson. Upp kom margreynt afbrigði í Sikileyjarvörn en eftir dirfskuför svörtu drottningarinnar út á a-línuna fór að halla á svartan sem lagði niður vopnin í 24. leik.
Enn styttri var þó skák Snorra Þórs Sigurðarsonar og Halldórs Halldórssonar sem varð aðeins 19 leikir. Snorri, sem er yfirleitt mjög traustur skákmaður, tefldi að þessu sinni afar djarft. Eftir 14. leik svarts kom þessi staða upp:
Hér hefði hvítur vísast átt áhugaverða möguleika með því að taka biskupinn með peðinu en kaus þess í stað að taka með riddaranum sem var ekki hollur biti. Svartur lét kné fylgja kviði: 15. Rxf3 Hfd8 16. Dxb7 Rc5 17.Db5 Ha78 18. Re5 Dc2 19. Be2 Rb3 og hvítur lagði niður vopnin.
Stórmeistarinn Helgi Grétarsson lenti í talsverðu basli og tímahraki í skák sinni gegn Magnúsi Pálma en slapp með skrekkinn og hafði sigur að lokum. Aðrar skákir í A-flokki voru almennt nokkuð jafnar framan af þar voru engin jafntefli í boði. Hinir stigahærri lögðu sína andstæðinga á öllum borðum að þessu sinni.
Í B-flokki bar það helst til tíðinda að hinn ungi og bráðefnilegi Jósef Ómarsson lagði hinn þrautreynda og öfluga skákmann Harald Haraldsson með svörtu í snaggaralegri skák.
Í 2. umferð leiða þessir saman hesta sína í A-flokki:
Í B-flokki verða viðureignir með þessum hætti:
Teflt er á mánudagskvöldum kl. 19.30 í safnaðarheimili Vídalínskirkju í Garðabæ, 7 umferðir alls, og eru áhorfendur velkomnir.
Ljósmyndir á mótsstað tók Jóhann H. Ragnarsson.
Pistill: Jón Þorvaldsson.