Undanfarin 7 ár hefur verið efnt til skákmóta fyrir gamla skákgeggjara að Borgum i Grafarvogi, félagsmiðstöð Reykjavíkurborgar gengt Spöng. Það eru þeir bræður Hlynur og Þorsteinn Þórðarsynir, sem standa fyrir mótunum alla fimmtudaga frá hausti til vors.
Á morgun, fimmtudaginn 26. janúar, á íslenska skákdeginum og 88. afmæli Friðriks Ólafssonar verður telft þar um FRIÐRIKSBIKARINN í sjötta sinn, til heiðurs honum, grip sem Einar Ess gaf til keppninnar á fyrsta starfsári skákhóps Korpúlfa 2017. Mótið hefst kl. 13 og allir eldri skákmenn að sjálfsögu hjartanlega velkomnir hvort heldur þeir eru Æsir eða gamlir Riddarar inn við beinið.
Sæbjörn Larsen vann mótið í fyrsta sinn sem það var haldið, Þór Valtýsson hefur orðið hlutskarpastur þrisvar og í fyrra var það Sigurður E. Kristjánsson sem fékk nafn sitt skráð gullnu letri á bikarinn.
Myndin hér að neðan var tekin á fyrsta mótinu þegar Friðrik heiðraði mótið og keppendur með nærveru sinni og STÖÐ 2 gerði mótinu góð skil í fréttum.