Þriðja umferð Skákhátíðar Fulltingis fór fram 23. janúar. Boðið var upp á hatramma baráttu á flestum borðum. Þannig skildu t.d. engir keppendur jafnir í B-flokki. Í toppbaráttu A-flokks gerðu Bragi Þorfinnsson og Jóhann Hjartarson sannkallað stórmeistarajafntefli en Vignir Vatnar sigraði Örn Leó Jóhannsson og Helgi Áss lagði Dag Arngrímsson.
Fide-meistararnir efnilegu, Aleksandr Domalchuk-Jonasson og Þorsteinn Þorsteinsson tefldu eftirtektarverða skák. Þorsteini lætur jafnan vel að efna til stöðufræðilegra stympinga og sá eiginleiki varð honum að vopni í þessari rimmu. Eftirfarandi staða kom upp eftir 18. leik hvíts:
Hér sér Þorsteinn sér leik á borði og fórnar peði til að veikja stöðu hvíts á hvítu reitunum og um leið á 1. reitaröðinni: 18… d4! 19. exd4 cxd4 20. Bxd4 Bxg2 21. Kxg2 Dc6+ 22. Kg1 Hf-d8 23. De2 Da4. 24. Be3 De4 25. Hxd8+ Hxd8 26. Db5 Bxa3 (svarti biskupinn er að sjálfsögðu friðhelgur vegna máts uppi í borði) 27. Da5 Be7 28. Dc7 Db4 29 Dxa7 h5 30. h4 (sjá stöðumynd)
Í jafnri stöðu afræður Þorsteinn að fórna manni með hliðsjón af tímahraki hvíts: 30… Bxh4!? 31. Ha4 (hvítur teflir til vinnings en 31. gxh4 – Dg4 32. Kf1 – Hd1 leiðir til jafnteflis) 31. – De1+ 32. Kg2 Bxg3 33. fxg3 Hd1 34. Bg1?? (Nauðsynlegt var 34. Da8+ Kh7 35. D44+ g6 36. Kh3 sem virðist halda í horfinu) Df1+ 35. Kh2 Hd2+ og hér lagði hvítur niður vopnin.
Í A flokki er alþjóðlegi meistarinn Vignir Vatnar Stefánsson efstur með fullt hús stiga. Næstir koma stórmeistararnir Bragi Þorfinnsson, Jóhann Hjartarson og Helgi Á. Grétarsson með tvo og hálfan vinning hver.
Í B flokki er stórmeistari kvenna, Lenka Ptacnikova, efst með fullt hús stiga. Næstir koma Kristinn Bjarnason, Sæberg Sigurðsson og Eiríkur K. Björnsson með tvo og hálfan vinning hver.
Í 4. umferð leiða þessir saman riddara sína í A-flokki:
Í B-flokki verða viðureignir með þessum hætti:
Teflt er á mánudagskvöldum kl. 19.30 í safnaðarheimili Vídalínskirkju í Garðabæ, 7 umferðir alls, og eru áhorfendur velkomnir. ir.
Pistill: Jón Þorvaldsson.