Erfiður andstæðingur Hollendingurinn Anish Giri (t.v.) hefur oft reynst Magnúsi Carlsen erfiður. Hann vann skák þeirra sl. þriðjudag. — Ljósmynd/Heimasíða Tata Steel

Óvænt úrslit hafa sett svip á stóru mótin tvö sem nú eru haldin á höfuðborgarsvæðinu, Skákþing Reykjavíkur annars vegar og Skákhátíð Fulltingis hins vegar, sem fram er í Garðabæ. Tefldar hafa verið fjórar umferðir af níu á Skákþingi Reykjavíkur og hafa Davíð Kjartansson og Arnar Milutin Heiðarsson unnið allar sínar skákir. Átta skákmenn eru með 3 vinninga, þar af tveir stigahæstu keppendur mótsins, Vignir Vatnar Stefánsson og Alexandr Domalchuk-Jónasson.

Á Skákhátíð Fulltingis í Garðabæ er teflt í tveim flokkum, ein umferð í viku, samtals sjö umferðir. Þar eru efstir J óhann Hjartarson, Vignir Vatnar Stefánsson, Bragi Þorfinnsson og Örn Leó Jóhannsson , allir með 2 vinninga. Í B-riðli eru efst Lenka Ptacnikova, Kristinn Sigþórsson og Jóhann H. Ragnarsson með 2 vinninga hvert.

Sigurstranglegasti keppandinn á Skákþingi Reykjavíkur, Vignir Vatnar Stefánsson, mátti þola tap fyrir Jóhanni H. Ragnarssyni í 2. umferð. Þá vann Arnar Milutin skák sína við Alexandr Domalchuk í annað sinn á skömmum tíma.

Á skákhátíð Fulltingis vann Örn Léó Jóhannsson Þröst Þórhallsson í 2. umferð og komst við það í hóp efstu manna.

Jóhann H. Ragnarsson, er einn þeirra sem ólst upp undir handarjaðri Ólafs H. Ólafssonar í Taflfélagi Reykjavíkur. Þó hann sé oft meðal þátttakenda á mótum hér innanlands hefur hann verið enn virkari í félagsmálum skákarinnar. En hann getur verið skæður við skákborðið eins og eftirfarandi skák sýnir:

Skákþing Reykjavíkur 2023; 2. umferð:

Jóhann H. Ragnarsson – Vignir Vatnar Stefánsson

Kóngsindversk vörn

1. d4 d6 2. e4 Rf6 3. f3 c5 4. d5 g6 5. c4 Bg7 6. Rc3 O-O 7. Bg5 h6 8. Be3 e6 9. Rge2 exd5 10 cxd5 b6 11. Dd2 h5 12. Rf4 Ba6 13. Bxa6 Rxa6 14. h4 He8 15. g4 hxg4 16. h5 g5?

Tapleikurinn. Byrjun svarts var að sumu leyti hæpin, t.d. 10. … b6 í stað 10. … Rbd7, en hér varð hann að leika 16. … gxf3.(STÖÐUM 1)

17. h6! Bh8

17. … gxf4 strandar á 18. hxg7 fxe3 19. Dh2! og mátar.

18. h7+! Kg8 19. O-O-O!?

Þessi mannsfórn stenst fullkomlega. Hvítur átti tvo leiki sem einnig voru góðir, 19. Rg5 eða 19. Rge2 með hugmyndinni 19. .. gxf3 20. Rg3 o.s.frv.

19. … gxf4 20. Bxf4 Rc7 21. Bh6+ Ke7

Ekki 21. .. Bg7 22. Bxg7+ Kxg7 23. h8(D)+ Hxh8 24. Dg5+ og vinnur.

22. e5! (STÖÐUM 2)

22. … Kd7 23. exd6! Re6

Kýs að gefa manninn til baka. Ekki gekk 23. … Kxd6 24. Df4+ He5 24. Bg5! og vinnur.

24. dxe6+ Hxe6 25. Dd3 Dc8 26. Df5 c4 27. Bg5 Dc5 (STÖÐUM 3)

 

 

 

28. Rd5

Ryður burt hindruninni sem er riddarinn á f6. Svartur er varnarlaus.

28. … Rxd5 29. Hxd5 Rxd5 29. Hxd5 Db4 39. Dxf7+ Kc6 31. Dxe6 Bxb2+ 32. Kc2 Dc3+

Svartur á nokkrar skákir en drottningin og biskupinn mega sín lítils gegn ofurefli liðs.

33. Kb1 Ba3 34. d7+ Kb7 35. Hh2 Db4+ 36. Kc2 c3 37. d8(D) Da4+ 38. Kd3 Dd1+ 39. Ke4 Dxf3+ 40. Kd4

– og svartur gafst upp.

Á brattann að sækja

Eftir mikla sigurgöngu á mótum með styttri umhugsunartíma hefur allt gengið á afturfótunum hjá Magnúsi Carlsen á stórmótinu í Wijk aan Zee en hann tapaði skákum sínum í fjórðu og fimmtu umferð fyrir Giri og Abdusattorov. Magnús er með 2 vinninga eftir fimm umferðir en efstur er Úsbekinn Abdusattorov með 4 vinninga en í 2. sæti er Anish Giri með 3 ½ vinning.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 21. janúar 2023

- Auglýsing -