Fjórða umferð Skákhátíðar Fulltingis bauð upp á fjölbreytta takta – allt frá rökréttri hernaðarlist til óþreyjufullrar fífldirfsku. Í toppbaráttu A-flokks sigraði alþjóðlegi meistarinn Vignir Vatnar stórmeistarannn Jóhann Hjartarson með svörtu, eftir að Jóhann missti þráðinn í skákinni. Stórmeistarinn Helgi Áss Grétarsson lagði tiltilbróður sinn, Braga Þorfinnsson, eftir að sá síðarnefndi fórnaði peði í tvíeggjuðum gambít. Íslandsmeistarinn Hjörvar Steinn sneri á veflýsandann vinsæla, Ingvar Þór Jóhannesson, og hinn nýbakaði Fidemeistari Örn Leo Jóhannsson sigraði titilbróður sinn, Þorstein Þorsteinsson, í einungis 17 leikjum eftir að hinn síðarnefndi var sleginn skákblindu.
Skák stórmeistaranna Helga Áss Grétarssonar og Braga Þorfinnssonar var snörp. Eftirfarandi staða kom upp eftir 12. leik svarts (sjá stöðumynd).
Þó að hvítur sé peði yfir er staðan í jafnvægi vegna yfirráða svarts yfir d- línunni og ótryggs valdastóls hvíta kóngsins á e2. Hér er sennilega vænlegast fyrir hvítan að leika 13. Hd1 sem mætti t.d. svara með 13….De6 14. Hxd8 Hxd8 15. Db3 en ekki 15. Bxc6?? vegna 15…Dc4+ og mátar! Helgi afréð hins vegar að leika 13. Dxb4? sem hefur þann galla að eftir 13…. a6! 14. Db3 stendur svartur betur. Hér féll Bragi hins vegar á sverð sitt. Hann flýtti sér um of, sennilega til að koma Helga í tímaþröng, og valdi hinn laka kost 13…Rxb4. Eftir 14. Bxd7 Hxd715. Rc3 Hfd8 16. Hhf1 hefur hvítur einfaldlega sælu peði meira auk mun betri stöðu og það vafðist ekki fyrir lögfræðingnum skelegga að landa vinningnum.
Í A flokki er Vignir Vatnar efstur með fullt hús stiga. Fast á hæla honum fylgir Helgi Áss Grétarsson með þrjá og hálfan vinning en í 3.-4. sæti eru jafnir þeir Örn Leo og Hjörvar Steinn með þrjá vinninga hvor.
Í B flokki er stórmeistari kvenna, Lenka Ptacnikova, efst með þrjá og hálfan vinning ásamt vopnabróður sínum í TG, Sæberg Sigurðssyni. Næstir koma Jóhann Ragnarsson, Eiríkur K. Björnsson og Arnar Milutin Heiðarsson með þrjá vinninga hver.
Í 5. umferð leiða þessir saman hesta sína í A-flokki:
Í B-flokki verða viðureignir með þessum hætti:
Teflt er á mánudagskvöldum kl. 19.30 í safnaðarheimili Vídalínskirkju í Garðabæ, 7 umferðir alls, og eru áhorfendur velkomnir.
Pistill: Jón Þorvaldsson