Fimmta umferð Skákhátíðar Fulltingis fór fram mánudaginn 6. febrúar og skýrðust línur lítt í A-flokki. Fresta varð skák efstu manna, Vignis Vatnars (4v) og Helga Áss Grétarssonar (3,5v) af óviðráðanlegum orsökum en þeir sem næstir komu, Örn Leo (3v) og Hjörvar Steinn (3v), skildu jafnir. Sömu sögu var að segja af flestum öðrum viðureignum í A-flokki. Þó að hart væri barist var fríðarpípan dregin upp í lok sjö viðureigna af tíu!
Í skák Baldurs A. Kristinssonar og Þrastar Þórhallssonar kom þessi staða upp eftir 13. leik svarts Rc4.
Baldur hefur þegar hér er komið sögu frjálsari stöðu og getur t.d. brugðið á leik með mannsfórn: 14. a4 b5 15.Rc-b5! axb5 16. Rxb5 Dc6 17. Bf4 Rxe4 18.Dxe4 Dxe4. 19.Rc7+ Ke7 20. Bxe4 Bxe4 21. Hd4! og hvítur stendur betur.
Baldur hefur áður reynst stórmeisturum skeinuhættur. Þröstur vissi af því og gekk fljótt að lagið þegar Baldri fipaðist atlagan: 14.f4? (svona geta jafnvel stórmeistarabanar ekki leyft sér að tefla gegn flækjumeistaranum Þresti Þórhallssyni) 14. …Bc5! 15. Kh1 Hd8 (enn öflugra var líklega 15. …0-0-0!) Hér reynir hvítur að hræra upp í stöðunni með 16. Rdxb5?! Hxd1+ 17. Bxd1 axb5 18. Rxb5 Da5 og svarti riddarinn á c4 er friðhelgur vegna máts uppi í borði. Nokkrum leikjum síðar lagði baráttujaxlinn Baldur niður vopnin.
Þegar tvær umferðir eru eftir í A-flokki er Vignir Vatnar efstur með fjóra og hálfan vinning, næstur kemur Helgi Áss hálfum vinningi lægri og síðan þeir Hjörvar Steinn og Örn Leó sem hefur komið mjög á óvart í mótinu. Það flækir nokkuð málin að Vignir Vatnar og Helgi Áss eiga ólokið skák sinni úr 5. umferð sem skráð var jafntefli til bráðabirgða.
Í 6. og næstsíðustu umferð í A-flokki leiða þessir saman hesta sína:
Í B flokki lagði Lenka Ptacnikova Sæberg Sigurðsson í uppgjöri efstu manna og er ein efst fyrir lokaumferðina þar sem hún mætir Arnari Milutin sem hefur hálfum vinningi minna en hún. Næstir þar á eftir koma Sæberg, Eiríkur K. Björnsson og Gauti Páll, allir hálfum vinningi lægri en Arnar.
Í B-flokki verða viðureignir með þessum hætti í lokaumferðinni:
Teflt er á mánudagskvöldum kl. 19.30 í safnaðarheimili Vídalínskirkju í Garðabæ, 7 umferðir alls, og eru áhorfendur hjartanlega velkomnir.
Pistilinn skrifar Jón Þorvaldsson.