Fyrsta keppnisdegi er lokið á NM ungmenna í hér í Osló, Noregi. Alexander Domalchuk-Jonasson er eini íslenski keppandinn með fullt hús eftir umferðirnar tvær. Fyrri umferð dagsins gekk brösulega þar sem hver vinningurinn á fætur öðrum rann íslensku keppendunum úr greipum.

A-flokkur (u20)

FM Aleksandr Domalchuk-Jonasson (2336) er efstur í flokknum með tvo vinninga. Hann tefldi af festu í dag og vann tvo góða sigra

Í fyrri skákinni vann svartur drottningu en Alexander hafði of mikið lið fyrir drottninguna og stýrði skákinni auðveldlega í hús.

Í seinni skákinni jafnaði Alexander taflið auðveldlega gegn London-kerfinu og saumaði jafnt og þétt að andstæðingi sínum. Fékk biskupaparið og gott peðamiðborð og vann í kjölfarið skiptamun og kláraði svo dæmið með nettum fréttablaðsleik.

Færeyingurinn Jón í horni náði jafntefli gegn Vigni í fyrri umferð dagsins. Athyglisvert er að notast er við spjaldtölvu til að halda utan um leiki á mótinu. Hefur þessi „rafræna skráning“ gengið vel hingað til og útsendingar í góðu lagi þar af leiðandi.

Vignir virtist vera að sigli fínum vinningi í hús en drottningarendataflið peði yfir reyndist erfitt að vinna. Kannski var best að halda riddaranum og bíða eftir mistökum frá hornamanninum frekar en að taka peðið á d4.

Vignir var skiljanlega ósáttur og þar af leiðandi kom „Hettu-Vignir“ til leiks í annarri umferð og það var enginn tekinn til fanga!

Lykil taktík kom hér og eftirleikurinn auðveldur.

Beint: https://lichess.org/…/nordic-youth…/round-1/wuEsjdwz

B-flokkur (u17)

Benedikt Briem (2096) er í þokkalegum málum með 1,5 vinning í B-flokknum. Í fyrri skákinni hafði hann seiglusigur þrátt fyrir að fá ekki nægjanlegar bætur fyrir peð í byrjuninni. Líkelgast átti hvítur strategískt að leika Ba3 í stað Bb2 og skipta upp á svartreitabiskupum til þess að ná reitum og pressu á drottningarvæng. Finninn gerði sem betur fer mistök síðar í skákinni og Benedikt hafði sigur.

Í seinni skákinni gerði Benedikt öruggt jafntefli við einn stigahæsta keppandann. Daninn ungi skartar forláta „mottu“ sem er kannski ekki beint algengt í þessum flokki! Briem-arinn lét það ekki á sig fá!

Gunnar Erik Guðmundsson (1968) tapaði fyrri skák sinni gegn Shazil (sami og Benedikt gerði jafntefli við) en Gunnar hafði þó betra tafl framan af. Þetta var svolítið sagan í fyrri umferðinni, vænlegar stöður að renna okkar krkkum úr greipum.

Í seinni skákinni tefldi Gunnar við sama andstæðing og Benedikt í fyrri umferðinni, þeir semsagt tefldu við sömu andstæðinga í dag.

Beint: https://lichess.org/…/nordic-youth…/round-1/BHbKfQ86

C-flokkur (u15)

Matthías Björgvin Kjartansson (1759) og Mikael Bjarki Heiðarsson (1591) töpuðu báðir fyrri skák sinni í dag og mættust svo innbyrðis. Matthías átti að leggja einn stigahæsta keppandann Nicolai Ostensen (2184) í fyrri umferðinni. Mikael tefldi eins og herforingi og yfirspilaði hinn danska. 41…Da8 hefði líklega verið auðveldari vinningur en eftir það urðu hrókar svarts passífir og sá danski tefldi vel skiptamun undir. Jafntefli var samt líklegast en 61…g6?? var tapleikurinn.

Mikael fékk fína stöðu úr byrjuninni en valdi líklega að hróka á vitlausum væng og hvítur tók yfir skákina.

Í innbyrðisskákinni hafði Matthías betur. Hann missti þó af skemmtilegum vinning hér:

22.Rf6+! hefði verið flottur 22…gxf6 er svarað með 23.exf6 og svartur er varnarlaus!

Beint: https://lichess.org/…/nordic-youth…/round-1/FcL4JHAb

D-flokkur (u13)

Jósef Omarsson (1698) var með fína stöðu í fyrri skákinni sinni í dag í fjögurra peða árásinni en sú byrjun er mjög hvöss og vindar geta snúið í hvaða átt sem er með stuttum fyrirvara. Vindarnir féllu ekki með Jósef í þessari.

Í seinni skák dagsins yfirspilaði Josef færeyskan andstæðing sinn sannfærandi.

Sigurður Páll Guðnýjarson (1490) lenti í vandræðum snemma í byrjuninni í fyrri skákinni, hann lék ónákvæmt í byrjuninni með …c5? og lenti í vandræðum. Með mikilli seiglu komst hann inn í skákina og náði miklu seiglu jafntefli

Í seinni skákinni gekk Sigurðui illa að vinna til baka peð sem hann hefði átt að vinna með 9.Rbd2 í stað 9.e3? Lítil mistök en nægjanleg til að gera skákina erfiða.

 

Beint: https://lichess.org/…/nordic-youth…/round-1/pOf57VkZ

E-flokkur (u11)

Birkir Hallmundarson (1551) tefldi vel í dag. Hann var fyrstu að landa sigri á mótinu þegar hann klossmátaði andstæðing sinn í fyrstu umferð.

Í seinni skákinni hafði Birkir fína stöðu en andstæðingurinn tefldi vel og náði að opna kóngsstöðu Birkis.

Örvar Hólm Brynjarsson (1252) tefldi fyrri skákina eins og herforingi gegn virkilega sterkum andstæðingi. Í kolunnu tafli brást honum bogalistin í lokin með afleik og svekkjandi tap staðreynd.

Svekkjandi tap en Örvar sýndi að hann getur staðið í og lagt að velli bestu mennina í þessum flokki! Í seinni skákinni lagði Örvar svo færeyskan andstæðing.

Beint: https://lichess.org/…/nordic-youth…/round-1/3gqvnorV

Aðstæður eru fínar hér á Thon hotelinu í Osló. Herbergi í fínu lagi og maturinn í topp klassa. Keppnissalurinn er fínn og vel hefur gengið með rafræna skráningu skáka. Einhverjir í hópnum brutu svo daginn upp með því að fara í vindgöng hér stutt frá þar sem hægt er að fá reynslu sem líkist því að fara í fallhlífarstökk. Þrátt fyrir góðan mat eru svo alltaf nokkrir plebbar sem þurfa að kíkja á McDonalds og gerðu þeir það í kvöld.

Fjörið heldur áfram á morgun, tefldar eru tvær umferðir og hefjst þær klukkan 9 og 14 að íslenskum tíma.

 

 

 

 

 

 

- Auglýsing -