Á sigurbraut Nils Grandelius við upphaf skákar sinnar við Gupta. — Ljósmynd/Ómar Óskarsson

Til þess að vinna opið mót á borð við Reykjavíkurskákmótið þarf alltaf að vinna nokkrar lykilskákir og leið Nils Grandeliuisar að sigrinum var athyglisverð. Eftir sex umferðir af níu var hann með 4½ vinning. Hann átti kannski einhverja von um að deila sigrinum en varla meira en það. Indverjinn Gupta var efstur ásamt Frakkanum Lagarde og þeir báðir með 5½ vinning. Grandelius vann í sjöundu umferð og þar sem efstu menn gerðu jafntefli í innbyrðisviðureign minnkaði munurinn um ½ vinning. Í áttundu umferð dróst Grandelius á móti Gupta og hafði svart. Ekkert kom til greina annað en sigur og þegar fram í sótti var greinilegt að hann átti möguleika. Eftir 55 leiki var þessi staða komin upp:

Reykjavíkurskákmótið 2023; 8. umferð:

Gupta – Grandelius

Til að ná jafntefli þarf hvítur að gefa riddarann fyrir e-peðið því að hornreiturinn a1 er ekki á áhrifasvæði biskupsins. Þetta gæti gerst með 56 … e4 57. Rd6+ Kf4 58. Rxe4 Kxe4 59. Kb2 og hvíti kóngurinn fer í hornið og staðan er jafntefli. Þess vegna lék svartur…

56. … Kf4 57. Kb3?

Í erfiðri vörn er sú tilhneiging oft rík að „stytta sér leið“. Gupta sá fram á að geta unnið a5-peðið og skorðað jafnframt e-peð svarts með riddaranum. En hann virtist ekki átta sig á því að svartur getur náð fram leikþröng sem þýðir að riddarinn missir fótfestu á c3. 57. Rd6! var auðvitað besta vörnin. Svarti kóngurinn verður þá að ganga til baka og hrekja riddarann í burtu frá d6. „Taflan“ (íslenska þýðingin á Tablebase), sem getur tæmt allar stöður með sex menn á borðinu, sýnir fram á þvingaðan vinning. Við mennirnir eigum auðvitað ekkert yfir því!

57. e4 58. Rc3 e3 59. Ka4 Ke4 60. Kxa5 Bf3!

Valdar „hálfhring“ riddarans, en hvernig á svartur að hrekja kónginn frá b4?

61. Kb4 Kd4 62. Rb5+

Hann gat auðvitað leikið 62. Kb3 en í stórum dráttum er vinningsleið svarts sú sama og í skákinni, þ.e.: 62. Kd3 63. Kb2 Bc6 64. Kb3 Bd7! 65. Kb2 Be6 og hvítur er í leikþröng.

62. Kd3 63. Rc3 Bc6! 64. Kb3 Bd7 65. Kb2 Be6

– og hvítur gafst upp.

Með þessum sigri komst Grandelius í efsta sætið ásamt fjórum öðrum keppendum. Lagarde gerði jafntefli við Ivantsjúk í lokaumferðinni og önnur úrslit urðu einnig hagfelld Svíanum, sem vann Frakkann Quentin Loiseau með kraftmikilli sóknartaflmennsku. Þar með var sigurinn í höfn.

Heimsmeistaraeinvígi Jans Nepomniachtchis og Direns Lings

Astana í Kasakstan er vettvangur heimsmeistaraeinvígis Rússans Jans Nepomniachtchis og Kínverjans Direns Lings sem hefst á morgun kl. 15, kl. níu að íslenskum tíma. Þeir munu tefla 14 skákir. Verði jafnt er teflt til úrslita með skákum með skemmri umhugsunartíma. Eins og kunnugt er hefur Magnús Carlsen afsalað sér heimsmeistaratitlinum. Hann varð heimsmeistari 22 ára gamall árið 2013 og varði titilinn í einvígjum við Anand, Karjakin, Caruana og Nepomniachchi. Sú afstaða hans að verja ekki heimsmeistaratitilinn í sjötta sinn hefur valdið nokkrum vonbrigðum en Norðmaðurinn hefur skýrt afstöðu sína með því að undirbúningurinn taki of mikla orku frá honum auk þess sem fyrirkomulag heimsmeistarakeppninnar virði ekki nægilega vinsældir annarra keppnisforma skákarinnar. Hann heldur heimsmeistaratitlunum í hraðskák og at-skák.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 8. apríl 2023

- Auglýsing -