Kunnuglegur stóll Ding Liren (t.v.) og Nepo takast í hendur við upphaf fjórðu skákar. Stóllinn sem Nepo valdi er mjög líkur þeim sem notaðir voru í einvígi Fischers og Spasskís í Laugardalshöll 1972.

Kínverjinn Liren Ding vann fjórðu skákina gegn Jan Nepomniachtchi í heimsmeistaraeinvíginu í Astana í Kasakstan á fimmtudaginn. Þar með jafnaði hann metin og eins og sakir standa er ógerningur að spá um úrslit. Nepomniactchi komst yfir með sigri í 2. skákinni. Það er þekkt í sögu heimsmeistaraeinvígja að góð byrjun er engin trygging fyrir sigri. Þeir tefla 14 skákir og verði jafnt er gripið til viðureigna með styttri umhugsunartíma.

Nepo vann áskorendamótið í Madrid í fyrra en þá lá fyrir að Magnús Carlsen myndi ekki verja titil sinn. Ding vann lokaskák sína gegn Bandaríkjamanninum Nakamura, náði öðru sæti og teflir því um heimsmeistaratitilinn.

Með því að afsala sér heimsmeistaratitlinum fetar Magnús Carlsen í fótspor Bobby Fischers sem árið 1975 sagði skilið við FIDE vegna ágreinings um fyrirkomulag heimsmeistaraeinvígisins. Aukaþing FIDE sem kallað var saman náði ekki niðurstöðu sem Fischer gat fallist á. Sá er munurinn á Magnúsi og Fischer að Norðmaðurinn er ekki að draga sig í hlé. Engu að síður veldur ákvörðun hans vonbrigðum og nokkra furðu vakti er hann lét í veðri vaka að hann myndi hugsanlega verja titilinn ef Íraninn Firouzsja ynni áskorendamótið í Madrid.

Einvígi um heimsmeistaratitilinn hafa lengi verið krúnudjásn FIDE og engin ástæða til að gera lítið úr þessum viðburði. Forseti FIDE, Rússinn Arkady Dvorkovich, hefur átt erfitt uppdráttar undanfarið þrátt fyrir mikinn stuðning á þingi FIDE í fyrra. Eignir hans hafa verið frystar og rússneska skáksambandið hefur sagt skilið við það evrópska. Þá mun Nepo varla verða heiðraður sérstaklega af Pútín og hans hyski beri hann sigur úr býtum. Í fyrra ritaði Nepo undir mótmælaskjal vegna innrásarinnar í Úkraínu. En hér kemur fjórða skákin:

HM einvígið í Astana; 4. einvígisskák:

Liren Ding – Jan Nepomniactchi

Enskur leikur

1. c4 Rf6 2. Rc3 e5 3. Rf3 Rc6 4. e3 Bb4 5. Dc2 Bxc3 6. bxc3!?

Að öllum líkindum árangur heimavinnu Kínverjans.

6. … d6 7. e4 O-O 8. Be2 Rh5 9. d4 Rf4?!

Það hefur stundum unnið gegn Nepo hversu fljótur hann er að taka ákvarðanir. Þessi leikur er aðeins of snemma á ferðinni. Betra var 9. … Df6 og síðan ef færi gefst –Rf4.

10. Bxf4 exf4 11. O-O Df6 12. Hfe1 He8 13. Bd3 Bg4 14. Rd2 Ra5?!

Ekkert lá á þessu en svartur átti kost á tveimur ágætum peðsleikjum, 14. … h6 eða 14. … b6.

15. c5!

Það er algerlega peðsins virði að rífa upp peðastöðuna.

15. … dxc5 16. e5 Dh6 17. d5 Had8 18. c4

Hvítur hefur meira en nægar bætur fyrir peðið. En krítíska staðan er í nánd.

18. .. b6 19. h3 Bh5 20. Be4 He7 21. Dc3 Hde8 22. Bf3 Rb7 23. He2 f6 24. e6 Rd6 25. Hae1 Rf5 26. Bxh5 Dxh5 27. He4 Dh6 28. Df3 Rd4?

Tapleikurinn og kemur óvart hve lélegt stöðumat opinberast með þessum riddaraleik. Svartur gat leikið 28. … g5 og síðar vikið riddaranum til d6.

29. Hxd4! cxd4 30. Rb3! g5 31. Rxd4 Dg6 32. g4 fxg3 33. fxg3 h5 34. Rf5 Hh7 35. De4 Kh8

Riddarinn á f5 er algert stórveldi. Nú kemur lokaatlagan.

36. e7! Df7 37. d6 cxd6 38. Rxd6 Dg8 39. Rxe8 Dxe8 40. De6 Kg7 41. Hf1 Hh6 42. Hd1 f5 43. De5+ Kf7 44. Dxf5+ Hf6 45. Dh7+ Ke6 46. Dg7 Hg6 47. Df8

– og svartur gafst upp. 47. … Hf8 má svara með 48. Dxg8! Dxg8 49. Hd8 og vinnur.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 15. apríl 2023

- Auglýsing -