Einvígið um heimsmeistaratitilinn milli Jan Nepomniactchi og Liren Ding hefur farið fram úr björtustu vonum hvað skemmtanagildi varðar. Eftir jafntefli í tilþrifamikilli áttundu skák sl. fimmtudag var staðan 4½:3½ Nepo í vil. Samt hafði hann tapað tvisvar – en unnið þrisvar. Til samanburðar má geta þess að Magnús Carlsen og Fabiano Caruano gerðu jafntefli í öllum 12 kappskákum sínum árið 2018 og Magnús og Sergei Karjakin gerðu jafntefli í tíu kappskákum af 12. Í báðum þessum einvígjum réðu atskákir úrslitum og þar reyndist Magnús mun sterkari og vann örugglega.
Fara þarf áratugi aftur í tímann til að finna heimsmeistaraeinvígi þar sem jafnteflisprósentan hefur verið jafn lág. Einvígi Fischers og Spasskís 1972 bauð upp á jafn hatramma baráttu. Eftir átta skákir var staðan 5:3 Fischer í vil. Þeir höfðu þá gert tvö jafntefli.
Fyrir liggur fyrir að báðir njóta geysiöflugs hugbúnaðar við undirbúning. Sá kvittur komst á kreik að Nepo hefði fengið veður af magnaðri nýjung Liren Ding í áttundu skákinni og þ.a.l. náð að verjast atlögum Kínverjans. En þess má geta að tímamörkin gera ekki ráð fyrir aukatíma eftir hvern leik; þeir fá 2 klst. til að ljúka 40 leikjum. Þessi tímamörk komu Liren Ding í koll gegn Nepo í sjöundu skákinni en svo virtist sem hann hefði bókstaflega frosið í örlítið betri stöðu og misst öll tök á stöðunni.
Þess vegna er margt sem bendir til þess að Nepo vinni einvígið og verði næsti heimsmeistari í skák. En spennustigið magnast með hverri viðureign og sennilega munu úrslitin ráðast alveg í blálokin en þeir munu tefla 14 skákir.
Sigur Nepo í fimmtu skákinni var afar sannfærandi og um margt dæmigerður fyrir stíl hans:
HM-einvígið í Astana 2023; 5. einvígisskák:
Jan Nepomniactchi – Liren Ding
Spænskur leikur
1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bb5 a6 4. Ba4 Rf6 5. 0-0 Be7 6. d3
Langalgengasti leikurinn á tímum einvígis Fischers og Spasskís 1972 var 6. He1.
6. … b5 7. Bb3 d6 8. c3 0-0 9. h3 Bb7 10. a4 Ra5 11. Ba2 c5 12. Bg5 h6 13. Bxf6 Bxf6 14. axb5 axb5 15. Rbd2 Rc6 16. Bd5 Hxa1 17. Dxa1 Dd7 18. He1 Ha8 19. Dd1 Bd8 20. Rf1 Re7 21. Bxb7 Dxb7 22. Re3 Bb6 23. h4!
Þessi peðsleikur leynir á sér. Hvítur á eftir að skapa sér ýmis færi á kóngsvægnum.
23. … Dc6 24. h5 c4 25. d4 exd4?!
Eftir þetta fer aðeins að halla undan fæti hjá Liren Ding. Hann gat ekki leikið 25. … Dxe4 vegna 26. Rxc4! o.s.frv. Stockfish mælir með 26. … Hd8.
26. Rxd4 Dc5 27. Dg4 De5 28. Rf3 De6 29. Rf5 Rxf5 30. exf5 Df6 31. De4 Hb8 32. He2!
Rólegur leikur og sterkur. Hvítur undirbýr atlögu sína á kóngsvæng í mestu makindum.
32. … Bc5 33. g4 Dd8 34. Dd5 Kf8 35. Kf1 Hc8 36. He4 Hb8
37. g5!
Þetta gegnumbrot lá í loftinu.
37. … hxg5 38. Hg4 Ha8
Hann gat ekki leikið 38. … f6 vegna 39. Rh4! gxh4 40. h6! og vinnur.
39. Rxg5 Ha1 40. Ke2 De7 41. Re4 De8 42. Kf3 Da8 43. Dxa8 Hxa8 44. f6!
44. … g6
Eða 44. … gxf6 45. Rxf6 Ke7 46. Rg8+ ásamt 47. h6 og h-peðið verður ekki stöðvað.
45. hxg6 fxg6 46. Hxg6 Ha2 47. Kg4 Hxb2 48. Hh6
– og svartur gafst upp. 48. … Kg8 má svara með 49. Kf5 o.s.frv.
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 22. apríl 2023