Matthías Björgvin og Ingvar Wu eru núverandi Íslandsmeistarar í skólaskák.

Stjórn Skáksambands Íslands hefur útbúið nýja reglugerð um Landsmótið í skólaskák. Þónokkrar breytingar eru í nýju reglugerðinni. Má þar helst nefna:

a) Bætt er við flokki, í samræmi við bókun aðalfundar SÍ 2022.

b) Breytingar eru á kjördæmamótum (t.d. eru Suðurnes nú sér svæði með sína undankeppni) og í stað kjördæma er talað um svæði.

c) Netskák er nýtt fyrir fámennari svæði með mismikla skákvirkni.

d) Skýrari og formlegri reglur gilda um val á boðssætum/varamönnum.

e) Skáksambandinu er gefið ríkt en um leið skilgreint svigrúm til breytinga án fyrirvara á keppenda- og umferðafjölda lokaúrslita Landsmóts.

f) Fjöldi sæta á Landsmóti fyrir hvert svæði er fest í reglugerðinni. Tekið er tillit til fjölda grunnskólanemenda og skákvirkni á svæðunum. Boðssætum er m.a. annað ætlað að jafna út skekkjur milli fjölda grunnskólanemenda á hverju svæði og styrkleika bestu grunnskólanemenda svæðisins. T.d. ef nokkrir af bestu grunnskólanemendum í skák í einhverjum aldursflokki koma af Norðurlandi eitthvert árið er hægt að nota boðssæti til jöfnunar.

Við vinnslu reglugerðarinnar hafði Skáksambandið víðtækt samráð og hafði í huga athugasemdir sem hafa borist síðustu misserin varðandi framkvæmdir fyrri Landsmóta.

Reglugerðin verður endurskoðuð að hausti. Athugasemdir mega berast á gunnar@skaksamband.is.

Dagskrá undankeppna mun birtast snemma í maí en undankeppni Suðurnesja er þegar lokið. Skilgreiningar á svæðum, þ.e. hvaða skólar tilheyra hvaða svæði, munu einnig birtast snemma í maí sem viðauki við reglugerð.

Landsmótið í skólaskák fer fram í Siglingafélaginu Ými helgina 10.-11. júní nk.

Landsmót í skólaskák reglugerð 2023

- Auglýsing -