Bugaður Nepomniachtchi (t.h.) átti erfitt með að leyna vonbrigðum sínum eftir að 12. skákinni lauk. Úrslit einvígisins gætu ráðist í dag. — Ljósmynd/Heimasíða FIDE

Jan Nepomniachtchi stóð við dyr þess að tryggja sér tveggja vinninga forskot í 12. skák HM-einvígisins í Kasakstan sl. miðvikudag en taugaspennan bar hann ofurliði; unnin staða rann út í sandinn er hann lék sjö afleiki í röð, eins og Fabiano Caruana benti á í beinni útsendingu á Chess24.com.

Nepo á þetta til; hann leikur góða leiki hratt, en afleikirnir koma oft eftir litla umhugsun. Nægur tími á klukkunni en staðan vandasöm og hann flýtti sér um of. Það var samt ekki fyrr en í 34. leik sem hann gekk alveg fram af mönnum með einhverjum lélegasta leik sem sést hefur í heimsmeistaraeinvígi. Liren Ding var fljótur að notfæra sér mistökin og jafnaði metin. Þeir gerðu jafntefli í 13. skákinni á fimmtudaginn.

Fjórtánda og síðasta skák einvígisins fer fram í dag og hefst kl. 9 að íslenskum tíma. Staðan er jöfn, 6½:6½, og því allt undir. Ljúki skákinni með jafntefli munu þeir tefla úrslitaskákir með skemmri umhugsunartíma, fyrst fjórar at-skákir, 25 10, síðan að hámarki fjórar hraðskákir, 5 3. Ef enn er jafnt er gripið til hraðskáka, 3 2, þar til sigur vinnst.

Tólfta einvígisskákin verður lengi í minnum höfð. Hún sýnir vel hvað getur gerst þegar glímuskjálftinn nær heljartökum á mönnum:

HM-einvígi 2023; Asatana 2023; 12. skák:

Liren Ding – Jan Nepomniactchi

Drottningarpeðsleikur

1. d4 Rf6 2. Rf3 d5 3. e3 c5 4. Rbd2 cxd4 5. exd4 Dc7 6. c3 Bd7

Óvæntur leikur einkum vegna þess að stuttu síðar fer biskupinn til g4.

7. Bd3 Rc6 8. 0-0 Bg4 9. He1 e6 10. Rf1 Bd6 11. Bg5 0-0 12. Bxf6 gxf6 13. Rg3 f5 14. h3 Bxf3 15. Dxf3 Re7 16. Rh5 Kh8 17. g4 Hg8 18. Kh1 Rg6 19. Bc2 Rh4 20. De3 Hg6 21. Hg1 f4 22. Dd3 De7 23. Hae1 Dg524. c4?!

Það hefur flest farið úrskeiðis hjá Ding. Þessi leikur er ekki góður en er engu að síður helsta ástæðan fyrir sigri Kínverjans.

24. … dxc4 25. Dc3 b5 26. a4!? b4 27. Dxc4 Hag8

Hann gat unnið með 27. … Rf3! t.d. 28. Dc6 Rxe1 29. Dxa8+ Hg8 30. De4 Rxc2 31. Dxc2 Dh4 32. Dd3 f5! og hvítur er varnarlaus.

28. Dc6 Bb8??

Besti leikur svarts var 28. … Rf5! með betra tafli á svart. Nú gat Ding leikið 29. Bxg6!, t.d. 29. … hxg6 30. d5! sem „vélarnar“ meta sem vinningsstöðu á hvítt!

29. Db7

29. … Hh6 30. Be4 Hf8 31. Dxb4 Dd8 32. Dc3 Rg6 33. Bg2 Dh4 34. He2 f5??

Hrikalegur afleikur með nægan tíma á klukkunni. Svartur átti þrjá góða leiki, 34. … a5, 34. … Bd6 og 34. … Hg8. Í öllum tilvikum er staðan í jafnvægi.

35. Hxe6 Hxh5 36. gxh5 Dxh5 37. d5 Kg8 38. d6

– og Nepo gafst upp.

Karlavígin falla. Elsa María skákmeistari Norðurlands

Það dró heldur betur til tíðinda í 88 ára sögu Skákþings Norðurlands þegar Elsa María Kristínardóttir sigraði á 89. mótinu sem haldið var á Akureyri dagana 14.-16. apríl sl. Keppendur voru 32 talsins og Elsa María eina konan meðal þátttakenda. Nafntogaðir meistarar á borð við Áskel Örn Kárason og Stefán Bergsson töpuðu báðir fyrir henni.

Baráttan um efsta sætið var hörð og réðust úrslit í síðustu umferð. Þorleifur Karlsson var efstur eftir sjö umferðir en tapaði báðum skákum lokaumferða. Elsa María hlaut 7½ vinning af 9 mögulegum en jafn henni að vinningum var Stefán Bergsson sem var lægri á stigum. Í 3. sæti varð Þorleifur Karlsson með 6½ vinning.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 29. apríl 2023

- Auglýsing -