Undir lárviðarsveignum 17. heimsmeistarinn, Ding Liren, við verðlaunaafhendinguna. Til hliðar við hann er forseti FIDE, Arkady Dvorkovich. — Ljósmynd/Steve Bonhagen

Fram að einvígi Ding Liren og Jan Nepomniachtchi höfðu Kínverjar unnið nánast alla titla sem hugsast gat á skáksviðinu. Langt er t.d. síðan þeir eignuðust fyrst heimsmeistara kvenna. Þeir hafa verið sterkir á alþjóðlegum mótum ungmenna og tvisvar unnið ólympíugull í opnum flokki og sex sinnum í kvennaflokki. En heimsmeistaratitillinn virtist utan seilingar. Þó að Ding Liren væri hátt skrifaður á alþjóðavettvangi virtust ferðatakmarkanir tengdar Covid-faraldrinum ætla að koma í veg fyrir þátttöku hans í síðasta áskorendamóti. Hann skreið inn í mótið með því að uppfylla skilyrði um að tefla 28 kappskákir á stuttum tíma sem hann gerði á heimavígstöðvunum. Fyrir síðustu umferð áskorendamótsins í Madríd í fyrra var Nepo búinn að tryggja sér efsta sætið og réttinn til að skora á heimsmeistarann. Nakamura dugði jafntefli gegn Ding til að ná 2. sæti en tapaði. Síðar var staðfest að Magnús Carlsen myndi afsala sér krúnunni. Þá var blásið til þessa einvígis í Astana í Kasakstan.

Nokkrum sinnum í einvíginu blasti ósigurinn við Ding Liren og í atskákunum stóð hann stundum höllum fæti. En hann greip sitt tækifæri í fjórðu atskákinni og varð þar með 17. heimsmeistari sögunnar. Eftir að Nepo hafði stöðvað klukkuna og yfirgefið keppnisvettvanginn sat Ding einn við borðið lengi vel. Nepo gat sannarlega nagað sig í handarbökin fyrir mörg glötuð tækifæri. Örlaganornirnar láta ekki að sér hæða. Klúðrið í 12. skákinni reyndist dýrkeypt. Það er freistandi að draga þá ályktun að taugaveiklun hafi ráðið úrslitum en auðvitað var spennan mikil. Nepo mætti hins vegar ákveðinn til leiks fyrir lokasprettinn og var nálægt því að knýja fram sigur í 14. skákinni en jafntefli varð eftir 90 leiki og lokastaðan því 7:7. Þá biðu fjórar atskákir með tímamörkunum, 25 10. Eftir þrjú jafntefli fengust úrslitin:

HM-einvígið í Astana 2023; 18. einvígisskák:

Nepo – Ding

46. De4+

Sama staða og í 44. leik og flestir áttu von á þráskák. En Ding sá tækifærið og lék …

46. … Hg6!?

Það er ekki gæfulegt að ganga inn í leppunina en þegar betur er að gáð tekur hann enga áhættu.

47. Df5?

Betra var 47. Hc2.

47. … c4!

Tryggir d3-reitinn fyrir drottninguna.

48. h4 Dd3 49. Df3 Hf6 50. Dg4 c3 51. Hd1 Dg6 52. Dc8 Hc6 53. Da8 Hd6 54. Hxd6 Dxd6 55. De4 Dg6 56. Dc4 Db1 57. Kh2 a4? 58. Bd4 a3

Svartur var búinn að missa taflið niður enda staðan of flókin fyrir þennan litla umhugsunartíma.

59. Dc7?

Hótar máti en missir af upplögðu tækifæri, 59. h5!, og hvítur á að halda jafntefli með bestu taflmennsku.

59. … Dg6 60. Dc4 c2 61. Be3 Bd6 62. Kg2 h5! 63. Kf1 Be5 64. g4 hxg4 65. h5 Df5 66. Dd5 g3 67. f4 a2 68. Dxa2 Bxf4

Síðasti leikurinn í dramatísku og skemmtilegu einvígi. Nepo gafst upp.

Ding Liren var meðal þátttakenda á Reykjavíkurskákmótinu 2013. Um tíma stóð hann í skugganum af hinni ungu stjörnu Wei Yi en náði forystuhlutverkinu aftur. Furðu lítið er vitað um hvernig Kínverjar nálgast skákina en innræting ungmenna sem miðar að djörfung og einbeittum sigurvilja er ákveðinn útgangspunktur, ef marka má bók brautryðjandans, Liu Wenzhe, Kínverski skákskólann. Ekki er að efa að heimsmeistaratitillinn hefur mikið áróðursgildi fyrir Kínverja, einkum í Asíu.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 6. maí 2023

- Auglýsing -