Fjörið hélt svo sannarlega áfram í fjórðu umferð Íslandsmótsins í skák, Skákþings Íslands. Guðmundur Kjartansson hélt áfram góðu gengi og menn verða spyrja sig hvort stjörnurnar stilli sig þannig að þrefaldi Íslandsmeistarinn Guðmundur vinni titilinn þriðja hvert ár!?

Í umferð dagsins lagði Guðmundur hinn reynda Jóhann Hjartarson að velli í mikilil baráttuskák. Heilladísir og góð taflmennska hafa blandast vel saman hjá Guðmundi í fyrstu umferðunum og menn verða að spyrja sig hver getur stoppað manninn?

Kannski er það hlutverk Vignis Vatnars Stefánssonar að þessu sinni en Vignir hefur farið vel af stað, teflt vel og lagði í dag Lenku Ptacnikovu með svörtu en Lenka var efst ásamt Guðmundi fyrir umferðina.

WGM Lenka Ptácníková (2½) – GM Vignir Vatnar Stefánsson (2)

Lenka hefur byrjað mótið gríðarlega vel og hefur verið eftirtektarvert hvernig sjálfstraust og fas hennar hefur verið í byrjun móts. Lenka hefur verið þekkt fyrir „tímahraksdrauga“ eins og margir íslenskir skákmenn (nefnum engin nöfn!) en á þessu móti hefur Lenka forðast tímahrak eins og heitan eldinn og framan af skák hennar við Vigni var hún lengst af með betri tíma. Það útaf fyrir sig er eiginlega afrek því Vignir teflir að jafnaði mjög hratt!

Vignir virtist fá mun þægilegra tafl úr byrjuninni þrátt fyrir drottningarkaup. Vignir nýtti „tímamismun“ í úðvíklun og var á tímabili kominn með -1 í apparötunum. Í 33. leik setti Vignir líklega vitlausan mann á c2 reitinn og það leit út fyrir að enn og aftur myndi seigla Lenku hafa yfirhöndina. Leiðin virtist algjörlega lokuð fyrir svarta kónginn og líklegast var endataflið jafntefli. Vignir gafst hinsvegar ekki upp og fann loks leið í gegn með flottum tilfærslum.

Lenka gafst upp í 52. leik en hinsvegar er spurning hvort að uppgöfin hafi verið of snemma á ferð. Svartur þarf allavega að vanda til verks og lykillinn er að hvítt h2 peð gegn h3 peði svarts og hvítreitabiskup er jafntefli, endatafl sem krefst frekari rannsókna!

Eftir stendur að Vignir er að tefla vel og gefa sér nægilegt svigrúm til að vinna skákir með svörtu!

GM Guðmundur Kjartansson (2½) – GM Jóhann Hjartarson (1)

Guðmundur „hinn þriðji“ hélt forskoti sínu með mjög góðum sigri með hvítu gegn Jóhanni Hjartarsyni.

Einhverskonar broddgöltur var á boðstólnum og líklegast varð Jóhanni á í messunni í byrjuninni fyrst hann þurfti að leika d-peði sínu fram og taka á sig stakt peð. Skv. tölvuforritum hélt Guðmundur tangarhaldi á stöðunni alla skákina og bætti stöðu sína jafnt og þétt.

35. leikur Guðmundar var sérstaklega glæsilegur

35.Ra5!! ef Guðmundur reiknaði þetta til enda er þetta einn af leikjum mótsins. Svartur á eiginlega engan valkost nema að taka á c4 eins og Jóhann gerði. 35…Hxc4 36.Rxc4. Nú er b6 peðið oní og ef 36…Bd8 sem virkar eðlilegur kemur 37.Rd6 og svartur á erfitt með að valda liðið sitt 37…Hb8 38.Rxb7 Hxb7 39.Bc8! og hvítur vinnur mann. Jóhann lék 36…Ha2 en eftir 37.Rd6 hótar hvítur bæði Rxb7 og Re8+ og vinnur mann!

FM Aleksandr Domalchuk-Jonasson (1½) – GM Hannes Hlífar Stefánsson (2)

Eftir klaufalegt tap í fyrstu umferð gegn Guðmundi í stöðu sem Hannes ætti aldrei að tapa virðist þrettánfaldi Íslandsmeistarinn hafa náð vopnum sínum til baka. Hannes hefur nú unnið þrjár skákir í röð og teflt þær algjörlega glimrandi!

Í skák dagins tefldi Hannes trausta broddgaltarstöðu í 25 leiki gegn Aleksandr Domalchuk-Jonassyni. Frá því að tölvumatið sagði að Hannes væri kominn með betri kom nánast ekkert feilspor. Hannes tefldi eins og „Robot“ og sigldi punktinum heim.

Það gæti reynst dýrkeypt að vanmeta þrettánfalda Íslandsmeistarann!

GM Henrik Danielsen (2) – IM Hilmir Freyr Heimisson (1½)

Áhugaverð viðureign þar sem Hilmir og Henrik hafa löngum búið undir sama þaki í Danmörku þar sem Henrik er kvæntur móður Hilmis. Þeir máttu ekki mætast í þrem síðustu umferðunum og drógust saman í þessa umferð.

Það voru öngvir fjölskyldugreiðar á ferðinni í þessari skák. Hilmir tefldi mjög dýnamískt með svörtu og tók mikla áhættu með peðaframrásum sínum. Miðtaflið varð mjög flókið og má segja að staðan hafi á endanum hentað Hilmi betur að mörgu leiti. Hilmir hafði betur eftir harða baráttu

IM Dagur Ragnarsson (1) – GM Hjörvar Steinn Grétarsson (1)

Hjörvar virist fá góða stöðu og jafna taflið auðveldlega og ef eitthvað, hafa betur í liðsskipan. Hinsvegar kom á daginn eftirá að tölvurnar töldu hvítu stöðuna betri í byrjuninni og í raun allan tímann.

Vel tefld skák hjá Degi en á ögurstundu náði hann ekki að láta umframpeðið telja og Hjörvar nældi sér í gott jafntefli.

Jóhann Ingvason (½) – GM Bragi Þorfinnsson (½).

Bragi hefur byrjað brösulega en náði sér á strik í skák dagsins. Bragi virtist fá allt sem hægt er að fá úr Benoni og lét ekki bjóða sér það tvisvar!

Staðan eftir fjórar umferðir:

Guðmundur byrjar meistaralega vel með 3,5 vinning en þeir Stefánssynir koma í humátt á eftir með 3 vinninga. Ekki sofa á Hilmi með 2,5 vinning. Aðrir þurfa að spíta í lófana!

Allir skákirnar eru í beinni (þó með 15 mínútna seinkun) og beinar lýsingar á YouTube.

Útsendingar á netinu hefjast því ekki fyrr en kl. 15:15. Skýringar á milli 16 og 16:30.

Styrktaraðilar mótsins eru

  • Hafnarfjarðarkaupstaður
  • Algalíf
  • Teva
  • Lengjan
  • Guðmundur Arason
  • MótX

Tenglar

- Auglýsing -