Tíunda og næstsíðasta umferð Skákþings Íslands hefst kl. 15 í dag. Teflt er á Ásvöllum í Hafnarfirði.

Eftir umferð gærdagsins er Hannes einn á toppnum. Guðmundur er annar, Vignir þriðji og Hilmir fjórði. Ávallt munar hálfum vinningi. Allir hafa þeir möguleika Íslandsmeistaratitlinum. Afar mismikla þó.

Ef tveir verða efstir og jafnir verður tefld aukakeppni sem hefst um hálftíma eftir að mótinu lýkur. Fyrst eru tefldar tvær atskákir (25+10). Verði jafnt verður teflt til þrautar með skemmri umhugsunartíma. Ef þrír eða fjórir verða efstir verður tefld aukakeppni en með skemmri umhugsunartíma en ef tveir verða jafnir.

Líkur Hilmis er langminnstar. Þær byggjast á því að vinna báðar og Hannes fái ekki meira en hálfan vinning, Gummi ekki meira en 1 vinning og Vignir ekki meira en 1½ vinning. Að allt þetta gerist er býsna langsótt. Vinni Hilmir báðar skákirnar sem eftir eru nær hann áfanga að stórmeistaratitli svo hann hefur að miklu að keppa.

Líkur Vignis á Íslandsmeistaratitlinum eru mun meiri, sérstaklega þar sem hann mætir Hannesi í lokaumferðinn. Sigur í báðum skákunum sem eftir eru þýðir að hann nær Hannesi a.m.k. að vinningum. Hann verður þó einnig að treysta á það að Gummi missi niður a.m.k. hálfan vinning.

Guðmundur verður að treysta á það að fá hálfum vinningi meira en Hannes til að ná honum.

Hannes er sá eini sem hefur örlögin alfarið í eigin höndum. Sigur í tveimur síðustu skákunum tryggir honum titilinn og 1½ vinningur tryggi honum a.m.k. aukakeppni.

Aðalviðureign dagsins verður að teljast viðureign Hannesar og Jóhanns Hjartarsonar. Gummi teflir við Jóhann Ingvason, Vignir Vatnar við Braga og Hilmir við Hjörvar Stein.

Rétt er að benda á Skákvarpið hans Ingvar sem hefst á milli 16:00 og 16:30.

Slóð á Skákvarpið.

Staðan eftir níu umferðir af ellefu

 • 1. Hannes Hlífar Stefánsson 8 v.
 • 2. Guðmundur Kjartansson 7½ v.
 • 3. Vignir Vatnar Stefánsson 7 v.
 • 4. Hilmir Freyr Heimisson 6½ v.
 • 5.-7. Aleksandr Domalchuk-Jonasson, Hjörvar Steinn Grétarsson og Jóhann Hjartarson 4½ v.
 • 8. Lenka Ptácníková 3 v.
 • 9.-11. Henrik Danielsen, Dagur Ragnarsson og Bragi Þorfinnsson 2½ v.
 • 12. Jóhann Ingvason 1 v.

Í umferð dagsins mætast (vinningar í sviga):

 • GM Hannes Hlífar Stefánsson (8) – GM Jóhann Hjartarson (4½)
 • Jóhann Ingvason (1) – GM Guðmundur Kjartansson (7½)
 • GM Bragi Þorfinnsson (2½) – GM Vignir Vatnar Stefánsson (7)
 • GM Hjörvar Steinn Grétarsson (4½) – IM Hilmir Freyr Heimisson (6½)
 • FM Aleksandr Domalchuk-Jonasson (4½) – IM Dagur Ragnarsson (2½)
 • WGM Lenka Ptácníková (3) – GM Henrik Danielsen (2½)

Glæsileg umgjörð verður á mótinu. Allir skákirnar í beinni (þó með 15 mínútna seinkun) og beinar lýsingar í umsjón okkar færustu lýsenda.

Útsendingar á netinu hefjast því ekki fyrr en kl. 15:15.

Styrktaraðilar mótsins eru

 • Hafnarfjarðarkaupstaður
 • Algalíf
 • Teva
 • Lengjan
 • Guðmundur Arason
 • MótX

Tenglar

- Auglýsing -