Vignir Vatnar Stefánsson nældi í sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil eftir hreint magnaðan lokadag á Íslandsmótinu í skák. Eftir grjótharða keppni og sviptingasaman dag varð úr að þrír keppendur enduðu efstir og jafnir og þurftu að há aukakeppni um titilinn!
Fyrir umferðina var staðan svona:
- 1.-2. Hannes Hlífar Stefánsson og Vignir Vatnar Stefánsson 8 v.
- 3. Guðmundur Kjartansson 7½ v.
- 4. Hilmir Freyr Heimisson 7 v.
- 5. Jóhann Hjartarson 5½ v.
- 6.-7. Aleksandr Domalchuk-Jonasson og Hjörvar Steinn Grétarsson 5 v.
- 8. Henrik Danielsen 3½ v,
- 9.-10, Lenka Ptácníková og Dagur Ragnarsson 3 v.
- 11, Bragi Þorfinnsson 2½ v.
- 12. Jóhann Ingvason 2 v.
Vignir mætti Hannesi í lokaumferðinni og ljóst að sigurvegarinn í þeirri skák myndi hampa titlinu. Jafntefli hinsvegar þýddi að Guðmundur Kjartansson gat læðst inn í lokakeppnina.
Skoðum aðeins viðureignir dagsins og byrjum á þeim sem minna máli skiptu fyrir lokaniðurstöðuna.
IM Dagur Ragnarsson (3) – Jóhann Ingvason (2)
Botnbaráttu slagur á þessu móti. Dagur hefði viljað gera betur á mótinu en kom inn í það með stuttum fyrirvara. Jóhann græddi stig á mótinu og reyndist risastór áhrifavaldur þegar hann lagði Guðmund í 10. umferð. Sigur hjá Guðmundi þar hefði líklegast tryggt honum Íslandsmeistaratitil.
Dagur náði að trikka Jóhann eftir þunga skák þar sem c-peð hvíts vann mann og úrvinnslan vafðist ekki fyrir Degi. Fyrsta og eina sigurskák Dags sem sýnir kannski bæði hvað mótið er þétt og hvað undirbúningur skiptir miklu máli. Kredit á Dag að koma inn í mótið með svona stuttum fyrirvara!
GM Hjörvar Steinn Grétarsson (5) – Lenka Ptácníková (3)
Ágætis skák hjá Hjörvari gegn 13-földum Íslandsmeistara kvenna. Hjörvar var líkelga aldrei með verra og hélt ágætis stjórn á skákinni þó líklega hefði hann átt meira afgerandi leiðir í miðtaflinu. Fráfarandi Íslandsmeistarinn náði að landa vinningnum peði yfir í endataflinu.
GM Henrik Danielsen (3½) – FM Aleksandr Domalchuk-Jonasson (5)
Löng og ströng skák. Fer ekki í sögubækurnar nema kannski fyrir það að tefja aukakeppnina um 15-20 mínútur sem lengsta skák umferðarinnar. Aleksandr hafði lengst af í miðtaflinu betri stöðu og Henrik greip til örþrifaráða og fórnaði heilum hrók! Á tímapunkti hafði hvítur 6 peð fyrir hrók, vægast sagt óvenjuleg liðsskipan! Sasha varð að taka þráskák í lokin.
GM Jóhann Hjartarson (5½) – IM Hilmir Freyr Heimisson (7)
Hilmir Freyr klára mótið með stæl og leggur Jóhann Hjartarson að velli með svörtu mönnunum. Flott skák hjá Hilmi sem stimplar sig rækilega inn með 8 vinninga af 11 og fer yfir 2400 stiga múrinn…fyrst stopp í þann næsta þar sem hann á heima!
Hilmir hlýtur þó að naga sig í handarbökin að hafa ekki náð að klára vinningsstöðu gegn Hjörvar í 10. umferðinni. 8.5 vinningur hefði þá komið honum í fjögurra manna aukakeppni og gefið stórmeistaraáfanga!
Hilmir virðist einstaklega sterkur í dýnamískum stöðum þar sem hann hefur betri kóngsstöðu en andstæðingurinn.
GM Guðmundur Kjartansson (7½) – GM Bragi Þorfinnsson (2½)
Guðmundur var mjög „clutch“ í þessari skák og tryggði sig inn í aukakeppnina. Gaman að sjá svona kraftataflmennsku hjá Guðmundi. Hann fórnaði manni fyrir mátsókn í miðtaflinu þó honum hafi skrikast fótur í úrvinnslunni og þurft að sækja vinninginn í endtafli eftir allt saman.
GM Vignir Vatnar Stefánsson (8) – GM Hannes Hlífar Stefánsson (8)
Skákin sem allt snerist um í lokaumferðinni. Ef hreinn sigurvegari fengist í þessari skák væri sá hinn sami Íslandsmeistari. Vignir fékk upp byrjun sem hann bjóst við, …b5 afbrigðið í Catalan, sama og Guðmundur tefldi gegn honum í 5. umferðinni. Vignir breytti útaf og virtist koma Hannesi í opna skjöldu með óvæntum Bh3 leik í miðtaflinu.
Hannes virtist sleppa fyrir horn og náði nægjanlegu mótspili til að sleppa í endtafl með hrók og biskup gegn drottningu og peði. Peðin öll á sama væng og jafnteflissénsarnir því miklir. Hannes setti hrók sinn á lélegan reit á b5 og hefði Vignir getað refsað því með 43.Df6! með unnu tafli. Vignir missti af sénsinum og eins var h5 ekki góður leikur í endtaflinu þar sem g5 hefði haldið lífi í stöðunni.
Hannes náði að bjarga jafnteflinu.
Úrslit lokaumferðarinnar:
Lokastaðan:
Ótrúleg lokastaða, þrír efstir með 8,5 vinning og stórmeistaraáfanga. Hilmir aðeins hálfum vinningi á eftir. 60 stig í plús þar! Aleksandr og Lenka mega vel við una en aðrir voru meira og minna undir pari.
Við tók nú aukakeppni um titilinn, tvöföld umferð allir við alla! Tímamörk 5 mínútur á skákina og 5 sekúndur við hvern leikinn leik. Alls 6 skákir, 4 hjá hverjum.
Vignir mætti Guðmundi í fyrstu skákinni. Vignir fékk þægilega Catalan-stöðu og náði að komast í hróksendatafl peði yfir, annað peð fór í vaskinn hjá Guðmundi og eftirleikurinn nokkuð auðveldur hjá Vigni.
Vignir fékk þvínæst svart gegn Hannesi. Vignir valdi tískuafbrigði 3…Be7 í frakkanum. 21…d4?! var misráðið hjá Vigni og Hannes missti mögulega af einfaldasta vinningnum með 23.Hg8+. Hannes var samt peði yfir og virtist ætla að vinna skákina en Vignir náði einhvern veginn að berjast og berjast og ná jafntefli í hróksendataflinu.
Guðmundur beit frá sér í þriðju skákinni. Hannes misreiknaði sig í flækjum og tapaði svo manni þar sem hann gleymdi máti í borði.
Ljóst var að næsta skák Guðmundar og Vignis var gríðarlega mikilvæg. Vignir ákvað bara að vera spakur og tefla semi-Tarrasch. Guðmundur fékk aðeins betri stöðu en lék of hratt 28.Ba4? sem gaf Vigni færi á að snúa taflinu sér í vil með 28…Re4! Ekki aftur snúið og Vignir kominn í lykilstöðu.
Nú var ljóst að Vigni nægði að tapa ekki gegn Hannesi í næstu skák og þó hann myndi tapa henni yrði Hannes einnig að leggja Guðmund að velli til að tryggja áframhaldandi einvígi milli þeirra Stefánssona.
Hannes tefldi þessa skák á gríðarlega góðu tempói og jafnframt mjög vel. Á einum stað átti hann nánast rothögg með …b5 í stað …Da7 en Vignir hélt velli í verri stöðu. Náði Vignir loks að einfalda taflið og ná sér í jafnteflið sem tryggði titilinn!
Lokaskák Hannesar og Guðmundar skipti nú engu máli nema upp á verðlaun. Þeir voru sáttir við skiptan hlut, í skákinni og verðlaunum og því eiginlega um óteflda skák að ræða.
Vignir því Íslandsmeistari í fyrsta sinn, aðeins tvítugur að aldri. Skemmtilegt mót að baki og stórskemmtilegur skákdagur.
Útsending lokaumferðarinnar:
Styrktaraðilar mótsins voru
- Hafnarfjarðarkaupstaður
- Algalíf
- Teva
- Lengjan
- Guðmundur Arason
- MótX
Tenglar
- Heimasíða mótsins
- Chess-Results
- Skákvarpið
- Beinar útsendingar (Chess.com)
- BEinar útsendingar (Chess24)
- Beinar útsendingar (Chessbase)
- Beinar útsendingar (kingwatcher)