Guðmundur Kjartansson hefur náð forystu í keppni landsliðsflokks á Skákþingi Íslands sem fram fer í félagsheimili Hauka á Ásvöllum í Hafnarfirði. Á fimmtudagskvöldið vann hann Jóhann Hjartarson og hafði þá unnið þrjá helstu keppinauta sína, þá Hannes Hlífar og Hjörvar Stein auk Jóhanns. Hjörvar þarf á virkilega góðum endaspretti að halda ætli hann sér að verja Íslandsmeistaratitilinn. Þá hefur annar sigurstranglegur keppandi, Jóhann Hjartarson, einnig byrjað illa.
Fimmtu umferð lauk í gærkvöldi og þá áttust við Vignir Vatnar og Guðmundur. En staðan eftir fjórðu umferð var þessi: 1. Guðmundur Kjartansson 3½ v. 2.-3. Vignir Vatnar Stefánsson og Hannes Hlífar Stefánsson 3 v. 4.-5. Hilmir Freyr Heimisson og Lenka Ptacnikova 2½ v. 6. Henrik Danielssen 2 v. Hjörvar Steinn Grétarsson, Dagur Ragnarsson, Alexander Domalchuk-Jónasson og Bragi Þorfinnsson 1½ v. 11. Jóhann Hjartarson 1 v. 12. Jóhann Ingvason ½ v.
Leið Guðmundar í toppsætið hefur verið býsna ævintýraleg og þar skipar skákin við Hjörvar Stein alveg sérstakan sess. Staðan var í jafnvægi lengst af en Hjörvar var peði yfir þegar hér var komið sögu:
Skákþing Íslands, 3. umferð:
Hjörvar Steinn – Guðmundur Kjartansson
Að riddaraendatöfl líkist peðsendatöflum er gömul kenning; peðsendatöflin eru á stundum ekki langt undan þegar riddaranir eru á borðinu og höfum við hér dæmi um það. Guðmundur gat leikið 41. … Rf4 og þá hefði sama staðan komið upp í þriðja sinn og þar með jafntefli. En nú kom …
41. … b5!?
Heldur baráttunni áfram. Hugmynd svarts er að svara 42. Kxh3 með 42. … Kf4 43. Rf1 Kxf3, t.d. 44. b4 Kf2! 45. Rd2 Ke2 og svartur vinnur.
42. b4 Rf4 43. Rf1 Rd5 44. Kf2 Rb5 45. Re3 Rc4??!
Hrópmerkið fær Guðmundur fyrir dirfsku. Þetta hefur sennilega átt að vera vinningstilraun en ætti að hafa þveröfug áhrif. Hjörvar gat knúið fram unnið tafl með 46. Rxc4! bxc4 46. Ke3 sem hótar 47. b3. Þessu hefur Guðmundur sennilega ætlað að svara með 46. … c5 en þá kemur 47. b5! Kd6 og nú á hvítur 48. f4! gxf4+ 49. Kf3! og eftir h4 og g5 skapar hvítur sér frípeð sem svartur ræður ekki við.
46. b3?
Eftir þennan leik er staðan í jafnvægi.
46. … Rd2 47. Rd1 Kf4 48. Rb2 Rxf3 49. Rxd3+ Ke4 50. Rc5+ Kf4 51. Re6+?
Nú er komið að Hjörvari að teygja sig of langt. Hann átti ekkert meira en jafntefli með þráskák sem hefst með 51. Rd3+.
51. … Kxg4 52. h3+ Kf5 53. Rd8 Re5 54. Kg3 h5 55. c4 h4+ 56. Kg2 g4 57. hxg4+ Kxg4 58. Rxc6??
Svartur er að vísu með heldur betra en hvítur á að halda jöfnu með því að halda riddaranum á borðinu.
58. … h3+ 59. Kh2 Rxc6 60. cxb5 Rd8 61. b6 Rb7 62. b5 Kh4 63. Kh1 Kg3 64. b4 Rd6 65. b7 Rxb7 66. b6 Rd6 67. b7 Rxb7 68. b5 Rd6 69. b6 Re4
– og hvítur gafst upp,. Eftir 70. b7 mátar svartur í fimm leikjum, sem hefst með 70. … Rf2+ og 71. … h2+.
Í sambandi við þetta mót vekur athygli að af 24 skákum í mótinu hafa 12 unnist á svart! Lenka Ptacnikova, eina konan sem teflt hefur í landsliðsflokki, tyllti sér í efsta sætið eftir þriðju umferð. Hún virðist hafa gefist upp í jafnteflisstöðu er hún tefldi við Vigni Vatnar í fjórðu umferð.
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 20. maí 2023