Kópavogsmótið í skólaskák fór fram dagana 31. maí og 1. júní. Teflt var í þremur aldursflokkum og var þátttakan með ágætu móti en 50 grunnskólanemendur úr Kópavogi tóku þátt. Keppt var um titilinn Kópavogsmeistari í skólaskák en jafnframt gáfu tvö efstu sætin í hverjum aldursflokki þátttökurétt á Landsmóti í skólaskák, sem fram fer 10.-11. júní næstkomandi. Tefldar voru fimm umferðir í öllum flokkum og umhugsunartíminn var 7+3.
Í yngsta aldursflokknum, fyrir nemendur í 1.-4. bekk heiðraði stórmeistarinn og Íslandsmeistarinn nýbakaði, Vignir Vatnar Stefánsson, keppendur með nærveru sinni og lék fyrsta leikinn fyrir Bjarka Má Karlsson úr Snælandsskóla.

Keppnin var hörð en Halldóra Jónsdóttir úr Smáraskóla sigraði af miklu öryggi, fékk 5 vinninga af 5 mögulegum. Ásgeir Smári Darrason, Smáraskóla, og Liam Nam Tran, Snælandsskóla, voru í 2. og 3. sæti með 4 vinninga, en Ásgeir Smári hærri eftir stigaútreikning. Halldóra og Ásgeir Smári vinna sér inn rétt til taflmennsku á Landsmóti í skólaskák.
Í aldursflokknum 5.-7. bekkur voru flestir keppendur, 24 talsins. Engilbert Viðar Eyþórsson, Lindaskóla, tefldi af miklu öryggi og sigraði með 4,5 vinning. Guðrún Fanney Briem, Hörðuvallaskóla, og Birkir Hallmundarson, Lindaskóla, komu næst með 4 vinninga en Guðrún Fanney var hærri eftir stigaútreikning. Engilbert Viðar og Guðrún Fanney vinna sér því inn rétt til taflmennsku á Landsmóti í skólaskák.


Í elsta flokknum, fyrir nemendur í 8.-10. bekkur, var fámennt en góðmennt, en einungis fimm keppendur tóku þátt. Gunnar Erik Guðmundsson úr Salaskóla og Mikael Bjarki Heiðarsson úr Vatnsendaskóla komu jafnir í mark með 3,5 vinning og voru einnig jafnir eftir stigaútreikning. Guðmundur Orri Sveinbjörnsson úr Vatnsendaskóla varð næstur með 2 vinninga. Þeir Mikael Bjarki og Gunnar Erik þurftu því að tefla einvígi um titilinn. Eftir tvær hraðskákir, með umhugsunartímanum 3+2, voru keppendur enn jafnir eftir að hafa unnið sína skákina hvor. Var því gripið til þess ráðs að tefla bráðabanaskák. Þar valdi Mikael Bjarki að hafa svart, með 4 mínútur gegn 5 mínútum hvíts, þar sem svörtum dugði jafntefli til sigurs. Eftir harða baráttu hafði Gunnar Erik Guðmundsson sigur. Gunnar Erik og Mikael Bjarki vinna sér rétt til þátttöku á Landsmóti.

Skákstjórar voru Björn Ívar Karlsson, Lenka Ptacnikova og Vignir Vatnar Stefánsson.