
Hinn tvítugi Vignir Vatnar Stefánsson stóð upp frá borði sem Skákmeistari Íslands 2023 eftir aukakeppni um titilinn við Hannes Hlífar Stefánsson og Guðmund Kjartansson. Þeir hlutu allir 8½ vinning af 11 og í hraðskákmóti hafði Vignir nokkra yfirburði, hlaut 3 vinninga en Hannes og Guðmundur 1½ v. hvor. Varð Vignir þar með Íslandsmeistari í fyrsta sinn.
Lokaumferðir mótsins voru dramtískar í meira lagi því að þegar aðeins tvær umferðir voru eftir virtist baráttan um titilinn vera á milli Hannesar Hlífars, sem var með 8 vinninga, og Guðmundar Kjartanssonar sem var ½ vinningi á eftir. En í 10. umferð tapaði Hannes fyrir Jóhanni Hjartarsyni, sem kom ekki á óvart, en að Guðmundur skyldi tapa fyrir Jóhanni Ingvasyni hljóta að teljast óvæntustu úrslit mótsins. Vignir komst upp að hlið Hannesar og litlu munaði að Hilmir Freyr Heimisson blandaði sér í baráttuna en hann missti unnið tafl niður í jafntefli í skák sinni við Hjörvar Stein Grétarsson.
Í lokaumferðinnni gerðu Vignir og Hannes Hlífar jafntefli í innbyrðis viðureign. Guðmundur vann heillum horfinn Braga Þorfinnsson og Hilmir Freyr lagði Jóhann Hjartarson. Þetta þýddi að skilin á fjórum efstu og þeim sem á eftir komu voru mjög skýr.
Þetta Íslandsmót markar tímamót því að tveir framtíðarmenn í landsliði Íslands eru þarna komnir fram. Vignir Vatnar missti af Ólympíumótinu á Indlandi í fyrra og fær í haust sitt fyrsta tækifæri á EM landsliða. Hilmir Freyr Heimisson leggur mikla vinnu í skákir sínar og tefldi nokkrar af bestu skákum mótsins.
Guðmundur Kjartansson var búinn að vinna Hannes, Hjörvar og Jóhann, en tapaði svo fyrir stigalægsta keppandanum, Jóhanni Ingvasyni. Frammistaða þeirra Hannesar var góð og mér fannst einkennileg ráðstöfun hjá SÍ að skella á aukakeppni um Íslandsmeistaratitilinn strax eftir lokaumferðina.
Hinn nýbakaði Íslandsmeistari Vignir Vatnar hefur verið iðinn við kolann undanfarið og hefur náð að bæta sig í flestum þáttum skákarinnar. Bestu skák sína tefldi hann sennilega gegn Jóhanni Hjartarsyni í 3. umferð:
Skákþing Íslands 2023; 3. umferð:
Jóhann Hjartarson – Vignir Vatnar Stefánsson
Drottningarbragð
1. c4 e6 2. Rc3 d5 3. d4 Rf6 4. cxd5 exd5 5. Bg5 c6 6. e3 Bd6 7. Bd3 0-0 8. Dc2 h6 9. Bh4 He8
Þessari uppbyggingu í drottningarbragði hefur Vignir Vatnar margsinnis beitt undanfarið.
10. Rf3 Be6 11. 0-0 Rbd7 12. Hab1 a5 13. Hfe1 Db8 14. Bg3 Bxg3 15. hxg3 Dd6 16. Hbc1 Hac8 17. a3 b5
Hér er áætlun svarts komin fram. Annar riddari svarts stefnir á c4-reitinn.
18. Re2 Bg4 19. Rd2 Bxe2! 20. Bxe2 a4 21. Bd3 Rb6 22. Rb1 Re4 23. Bxe4 Hxe4 24. Rd2 Hee8 25. Dc5 Dc7 26. e4 dxe4 27. Hxe4 Hxe4 28. Rxe4 Rc4
29. Rc3 Db6 30. Rxa4 Dxc5 31. dxc5
Gott var einnig 31. Rxc5 og staðan er jöfn.
31. … Hd8 32. Hc2 Hd1 33. Kh2 Hb1 34. g4 g5 35. g3 Kg7
Hin krítíska staða. Möguleikar svarts eru örlítið betri og einungis með því að leika 36. Rc3 heldur hvítur jafnvægi. Framhaldið gæti þá orðið 36. … Hxb2 37. Hxb2 Rxb2 38. Re2! ásamt 39. Rd4 heldur hvítur jafnvægi.
36. Kg2? Kf6 37. Rb6 Hxb2 38. Hxb2 Rxb2 39. f4 Rd3 40. Rd7 Ke6 41. Rb8 Kd5 42. fxg5 hxg5 43. Ra6 Re5!
– Kóngurinn er úr leið og a3-peðið fellur. Frekari barátta er vonlaus og hvítur gafst upp.
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 27. maí 2023